Samræmingin mun sigra!

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir / Líf Lárusdóttur

Þegar kemur að umhverfismálum hafa eflaust margir einhvern tímann leitt hugann að því að við gætum gert betur og skilað meiri árangri. Sem fámenn þjóð með stuttar boðleiðir ætti að vera einfalt fyrir okkur að setja sameiginleg markmið til að stuðla að betri árangri. Hins vegar hefur það reynst hægara sagt en gert og hefur undirrituð rekið sig á ýmis flækjustig þegar kemur að samræmdum aðgerðum í umhverfismálum. Þar vil ég sérstaklega nefna merkingar í tengslum við flokkun á endurvinnsluefnum og sorpi. Eftir að hafa lifað og hrærst í heimi endurvinnsluefna síðustu ár þá er ég sannfærð um það að framleiðendur og neytendur eru þegar uppi er staðið með eitt og sama markmið. Að umbúðin skili sér aftur inn í hringrásarhagkerfið að notkun lokinni. Neytandinn vill geta keypt sér vöru, margir hverjir kjósa umbúðalausar vörur eins og kostur er á en aðrir vilja geta neytt vörunnar og séð á umbúðunum hvernig hún á að flokkast eftir notkun. Hafandi talað við framleiðendur um allt land get ég ekki heldur séð að vandamálið liggi eingöngu þeirra megin, þvert á móti sjá margir þeirra hag í að einfalda málið fyrir neytendur sína og segja þeim hvernig eigi að flokka vöruna. Því miður sjáum við einnig dæmi um umbúðir á markaði sem erfitt er að endurvinna, til dæmis samsettar umbúðir sem minnir okkur á mikilvægi samtalsins á milli umbúðaframleiðenda og endurvinnsluaðila.

En hvað er þá vandamálið?

Jú, flokkunarleiðbeiningar eru gjörólíkar eftir landsvæðum, meira að segja eftir póstnúmerum! Það getur skipt höfuðmáli hvaða póstnúmeri þú tilheyrir hvernig á að flokka umbúðir. Sums staðar er plast flokkað í sértunnu, annars staðar blandast plast öðrum endurvinnsluefnum og svo má lengi telja. Framleiðendum hefur sumum tekist að merkja vörurnar sínar eftir því hvers konar endurvinnsluefni þær tilheyra, til dæmis „flokkið með plasti“ en auðvitað væri einfaldast að á vörunni væri mynd eða tákn og hið sama tákn tæki á móti þér í tunnunni við heimilin, á grenndarstöðvum og stærri ílátum fyrir utan fyrirtækin.

Lengi hefur verið talað um mikilvægi á skyldusamræmingu sveitarfélagana á landsvísu, en kostir þess eru ótvíræðir. Hafið þið heyrt söguna um fjölskylduna sem fór norður á land í sumarbústað með fjölskyldunni og endaði á að keyra til baka með endurvinnsluefnin sín þegar helginni lauk? Ég heyri sams konar sögur á hverjum einasta degi í mínu starfi.

Vandamálið er ekki að sveitarfélögin reyni ekki að finna lausnir, það eru einmitt allir að reyna að finna lausnir! En við gætum nýtt okkur smæð okkar og styttri boðleiðir en víða þekkist og fundið bestu lausnina saman.

Undirrituð mun halda áfram að beita sér í þessum efnum, í gegnum starfið sem markaðsstjóri hjá Terra og ekki síst sem stjórnarmeðlimur FENÚR – fagráð um endurnýtingu og úrgang sem einmitt hefur það verkefni að aðlaga samnorrænt merkingarkerfi að okkar þörfum. Ég vona innilega að það takist vel til og merkingarkerfið verði skref í átt að frekari samræmingu á landsvísu svo við getum skilað betri árangri í umhverfismálum – öll saman!

Höfundur er markaðsstjóri hjá Terra umhverfisþjónustu og félagi í FKA.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Kærleikurinn strangi og mjúki

Leiðari úr 45 tölublaði Vikunnar.Fíknisjúkdómar leggja undir sig heilu fjölskyldurnar, sundra þeim og eyðileggja einstaklinga. Fíkniefnaneytandinn er...

Farsóttarþreyta og heimavinna

Höfundur / María Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi og sáttamiðlari hjá SamskiptastöðinniDaglegt líf fólks hefur tekið miklum breytingum vegna heimsfaraldurs...

Þú getur átt góða og ástríka stjúpfjölskyldu

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.   Þið hafið bæði verið áður í samböndum og eigið...