Þú verður öflugri í rúminu með þessari einu lífsstílsbreytingu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir / Guðríði Torfadóttur (Gurrý)

Líkami sem fær enga hreyfingu verður eins og flotti fornbíllinn hans afa sem stóð alltaf til að gera upp, en hann var ryðgaður, dekkjalaus og þótt mögulegt hefði verið að koma honum í stand þá var ódýrara og einfaldara að kaupa nýjan bíl.
Vandamálið við líkamann er að þú kaupir ekki nýjan – þú getur ekki fengið varahluti eða gert við hann án þess að það til komi lyf eða aðgerðir. Líkaminn þarf nefnilega hreyfingu, annars hrörnar hann og drabbast niður – sérstaklega þegar komið er yfir miðjan aldur, því fram að þrítugu finnur þú kannski ekki fyrir því, en eftir það þá þarf að borga brúsann.

Þegar komið er á miðjan aldur þá fyrirgefur líkaminn ekkert. Þú sérð það á andlitinu á þér og finnur fyrir því í liðamótunum eftir dag eða daga af sukki, hvort sem það er í drykk eða mat og ef þú sérð það ekki þá ertu líklega í afneitun. Það er hægt að kaupa alls konar krem, fara í hinar og þessar meðferðir, en er það ekki eins og að pissa í skóinn sinn til að halda á sér hita? Það er skammgóður vermir að notast við töfralausnir og töfrakrem. Líkami sem er í góðu formi fyrirgefur betur einstaka daga þar sem farið er yfir strikið í kræsingum, því líkami í góðu formi á auðveldara með að vinna úr því sem í hann er sett.

Hlaupum af stað

Það sem er nauðsynlegt að gera þegar við eigum erfitt með að fara af stað, er að gera hlutina á jákvæðan hátt. Við hreyfum okkur af því það er gott fyrir líkamann og á að vera skemmtilegt. Fyrsta æfingin verður kannski ekki sú skemmtilegasta, en hún á samt ekki að vera eins og afplánun fyrri synda – alls ekki. Því þá get ég lofað þér því að sú æfing verður líklega einnig sú síðasta. Það er dauðasynd að tengja hreyfingu við það að missa kíló, því þá gerirðu þér bara erfitt fyrir, vigtin fer að stjórna en ekki árangurinn af æfingunum. Hreyfðu þig til þess að líkami þinn haldi áfram að þjóna þér út ævina, en ekki til að vera flott á næstu árshátíð.

Staðreyndir og ávinningur þess að hreyfa sig

Þér líður betur á líkama og sál
Vöðvarnir byggjast upp
Bólgur minnka – t.d. vöðvabólga og aðrar bólgur í líkamanum.
Meltingin verður betri – léleg melting er áskrift að óþægindum og sjúkdómum.
Svefninn verður betri – líkaminn elskar að hvíla sig eftir æfingar dagsins.
Orkan eykst dag frá degi og þú finnur bæði innri og ytri styrk í líkamanum
Líkaminn mótast – með auknum styrk og úthaldi verður líkaminn síður eins og brauðdeig og meira eins og fullbakað súrdeigsbrauð með þykkri skorpu.
Streita minnkar – þetta væri efni í heilan pistil en við vitum að streita er flókið fyrirbæri og getur orsakast af mörgum þáttum. Ef þú hreyfir þig reglulega þá ertu í mun betra standi til þess að takast á við streitu og afleiðingar hennar.
Þú verður öflugri í rúminu – ég meina … betra form, meira úthald og fleiri möguleikar.

Ég gæti haldið áfram, en ég veit líka að það er oft erfitt að taka fyrsta skrefið og byrja, ég tala nú ekki um á þessu blessaða ári 2020. Gerðu það samt fyrir þig – ekki bíða þangað til á næsta ári, því lengur sem þú bíður þeim mun lengri tíma tekur það að koma þér í gott form. Ekki bíða eftir betri tíma – við vitum ekkert hvað kemur næst.

Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, þá mun hún ekki hafa tíma fyrir þig seinna
Við erum upptekin, svo upptekin að við erum uppgefin. Hugurinn tekur upp á því að hugsa um alls konar kjaftæði sem dregur úr okkur svo mikla orku að við setjum okkur í 10. sæti. Það er erfitt að brjóta upp þetta mynstur – en það er hægt, og það er þess virði. Varðandi hreyfinguna, ekki hugsa – bara gera.
Einstaklingur sem hefur ekki hreyft sig í meira en ár, er um 3-4 mánuði að komast á góðan stað með reglulegri hreyfingu þrisvar í viku og þá meina ég að allur ávinningurinn sem ég taldi upp er farinn að sýna sig.
Þetta eru þrjár klukkustundir á viku, áttu þær til?

Ég sé daglega fólk sem hefur gert þetta allt saman; byrjað að æfa og byrja að blómstra. Það er aldrei of seint. Mundu að þú býrð alltaf að allri fyrri hreyfingu þinni, því líkaminn er svo magnaður að hver einasta æfing telur í bankabók heilsu hans.

Ef þú ert að hugsa um að byrja þá mæli ég með að finna góðan þjálfara sem heldur í höndina á þér fyrstu mánuðina, nema þú treystir þér til þess að gera þetta upp á eigin spýtur. Svo er ómetanlegt að æfa í góðum félagsskap, hvort sem þú ferð í hópþjálfun eða með góðum vini.

Heilsukveðjur,
Gurrý

Höfundur er þjálfari og eigandi Yama Heilsurækt

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Tölum um unglinga

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.  Já, flest höfum við verið þar, sumir...