„Börn á líknardeild sem áttu þá síðustu ósk að sjá Íþróttaálfinn“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Magnús Scheving er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. 

Leikfimikennarinn sem endaði á sjónvarpsskjám milljóna manna um allan heim segir í þættinum frá merkilegustu augnablikunum í ótrúlegri atburðarrás Latabæjar, þar sem Magnús var með nánast stanslausa dagskrá frá morgni til kvölds á hverjum einasta degi í áraraðir. Á því tímabili áttu sér stað mörg eftirminnileg atriði.

Eftir áralanga vinnu komst hugverk Magga á þann stað að börn úti um allan heim elskuðu Latabæ. Hann segir í viðtalinu frá gleðinni við það, en jafnframt gífurlega erfiðum augnablikum þegar mikið veik börn vildu sjá íþróttaálfinn:

,,Svo voru líka hliðar í þessu sem voru oft erfiðar og mjög tilfinningalegar. Kannski börn á líknardeild sem áttu þá síðustu ósk að sjá íþróttaálfinn. Það eru börn sem hafa verið jörðuð í búningnum og fleira í þeim dúr. Ég man eftir einu erfiðasta augnablikinu sem ég hef lent í. Það var barn sem átti ekki mikið eftir, einhverja fjóra daga, strákur sem var mjög veikur og það var búið að skera hann alveg eftir öllu höfðinu. Hann hafði verið að horfa á Latabæ á meðan það var verið að skera hann upp og draumurinn var að fá að sjá íþróttaálfinn. Ég mæti í búningnum á spítalann og þegar ég kom var hann líka í búning og stóð í súperhetjustellingu. Hann sýndi mér alls konar hluti og gerði það sem hann gat og tók mig inn í herbergi og sýndi mér rúmið sitt og við vorum þarna saman í 4-5 tíma. Á meðan voru foreldrarnir grátandi að taka video af þessu öllu. Þau grétu bara og grétu og maður þurfti að reyna að halda andlitinu á meðan. Ég get varla lýst þessu, þetta var gríðarlega stór stund hjá stráknum. Maður labbar einhvern veginn út eftir þetta og hugsar hvað maður er heppinn og hvað sumir þurfa að ganga í gegnum, foreldrar og börn. Ég man að ég hugsaði: ,,Að gera Latabæ er bara grín, það er ekki einu sinni erfitt, hvað er maður að kvarta yfir mikilli vinnu og löngum dögum þegar maður sér hvað sumir þurfa að ganga í gegnum.”

Í þættinum fara Sölvi og Magnús yfir feril Magga, sem verður að teljast einn merkilegasti frumkvöðull Íslandssögunnar. Leikfimikennarinn sem endaði á sjónvarpsskjám milljóna manna um allan heim ræðir um hvað þarf að hafa til brunns að bera sem frumkvöðull, lykilatriðin í að vera hamingjusamur í lífinu og fleira og fleira.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira