Dýr er breyting Biskupsstofu-Verðlaunahönnun vekur viðbrögð: „2 milljónir og það fylgir pera með!“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Biskupsstofa flutti 17. október 2019 af Laugavegi 31, þar sem hún hafði verið til húsa frá árinu 1994, í Katrínartún 4, þriðjuhæð. Þar sameinast Biskupsstofa og önnur kirkjuleg starfsemi á einni hæð, þar með talin Þjónustumiðstöð biskupsstofu sem áður var á neðri hæð safnarheimilis Háteigskirkju.

„Gert er ráð fyrir að allar aðstæður starfsfólks, trúnaðarmanna kirkjunnar og viðskiptavina batni til muna á nýja staðnum,“ sagði í tilkynningu á vef Biskupsstofu 21. júní 2019.

Og eins og sjá má af myndum eru aðstæður glæsilegar, svo glæsilegar að Siggeiri F. Ævarssyni, framkvæmdastjóra Siðmenntar, þykir nóg um kostnaðinn við breytingarnar.

Mynd / Skjáskot mbl.is

Þetta ljós þarna, ef það er ekki eftirlíking (sem mér finnst ólíklegt), kostar rúma milljón. En það er eins og segir í hinni heilögu bók: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“,” segir Siggeir í færslu á Facebook og lætur fylgja með skjáskot af frétt Mbl.is um breytingarnar.

Fyrirsögn fréttar Mbl.is er Fröken Fix hannaði ný húsakynni Biskupsstofu. Í fréttinni kemur fram að Sesselja Thorberg sem rekur hönnunarfyrirtækið Fröken Fix hafði fengið það verkefni sumarið 2019 að hanna húskynni Biskupsstofu.

„Verkefnið snerist um að koma á nýju skipulagi og verklagi fyrir starfsfólkið, nútímavæða skrifstofustarfsemina og þannig koma að framtíðasýn starfsemi Biskupsstofu. Nú, rétt um einu og hálfu ári seinna, er verkefninu lokið og ekki verra að fagna 10 ára afmæli Fröken Fix hönnunarstudio með þessum hætti,“ segir Sesselja við mbl.is.

Færsla Siggeirs hefur vakið athygli og hafa skapast nokkuð skemmtilegar umræður um ljósið í athugasemdum.

„Fyndið, einhvern veginn fannst mér þetta ljós eitthvað svo Ikealegt,“ segir einn, sem Siggeir svarar með að þeir séu klárlega ekki smekkmenn á ljós.

„Greinilega ekki. Köngullinn frá Louis Poulsen er fallegasta og fullkomnasta ljós sem hannað hefur verið. Kíkið á það. Það er alveg sama hvar maður stendur eða situr, peran sést aldrei. Og það er merki um snilldarlega hönnun, enda glýja frá ljósgjöfum alveg glötuð og truflandi,“ svarar Sævar Helgi Bragason, Stjörnu-Sævar, að bragði.

Siggeir hneyklast greinilega og svarar að ljósið kosti það sama og Siðmennt gaf til góðgerðarmála: „Fallegt ljós, kannski. Fullkomið? Mögulega. En milljón kall fyrir einn helvítis ljós! Hættu nú alveg sko. Kirkjan eyðir jafn miklu í eitt ljós og Siðmennt ákvað að leggja í Covid sjóð og úthluta til góðgerðarmála.“

Inga K. Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, er ósammála félaga sínum og samstarfsmanni og segir allt í lagi að borga vel fyrir góða hönnun. Það er þó annað sem henni fellur ekki í geð við breytingarnar: „Mér finnast þessi opnu vinnurými meiri glæpur gegn mannkyninu…“

Vinkona Siggeirs lýsir því að eina skiptið sem hún hafi séð mann sinn kjaftstopp hafi verið þegar henni langaði í ljósið og maðurinn hringdi til að kanna verðið: „Ég held að hann kosti 2 milljónir hér heima, ég sagði fyrir svona tveimur árum við Bergvin að mig langaði svo í þetta ljós en að það væri svo dýrt. Bergvin neitaði að trúa því að þetta væri svona dýrt ljós og tók upp símann og hringdi til að ath með það og þetta er í fyrsta skiptið sem eg hef séð manninn minn verða kjafstopp. svo sagði hann við mig, „það kostar 2 milljónir og það fylgir pera með“

Ljósið dýra og fallega.

Ljósið sem um ræðir heitir Artichoke og er verðlaunahönnun Poul Henningsen sem kom fyrst á sjónarsviðið árið 1958. Lesa má nánar um ljósið hér: Ljósið sem breytti sögunni.

Það er Epal sem selur Artichoke hér á landi, en við leit finnst ekki verð á heimasíðu þeirra. Við gúgglun finnst verð á því hér, 1.447.823 krónur. Sem verður líklega ekki talin hátt verð fyrir verðlaunahönnun, en menn geta deilt um hvort eigi að bruðla með á kostnað skattgreiðenda. Þar sýnist líklega sitt hverjum.

Uppfært kl. 23.30:

Guðmundur Þór Guðmundsson skrifstofustjóri Biskupsstofu skrifar athugasemd við færslu Siggeirs og segir ljósið hafa verið gjöf frá Íslandsbanka árið 1994.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira