,,Ef þú þráir eitthvað nógu heitt þá finnur þú leiðina – annars finnur þú alltaf afsökunina”

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ævintýradrottningin og pólfarinn Vilborg Arna fann ástríðu sína 22 ára eftir fyrstu alvöru fjallaferðina sína á Hvannadalshnjúk, hvorki meira né minna. Sú upplifun breytti lífi hennar og hún var komin á rétta hillu. Vilborg fór hægt og rólega að skilja hver markmið og draumar hennar voru og nálgast draumana sína með afar skilvirkum hætti. 

Í nýjum þætti af hlaðvarpinu ÞÍN EIGIN LEIÐ með Friðriki Agna deilir hún ýmsum ráðum og segir frá því hvernig hún hefur gert fjallaævintýrin að sinni eigin leið.

,,Ég var mikið á Rauðasandi fyrir vestan í sveit sem barn og í raun kemur ástríðan alveg þaðan í grunninn á að vera úti í náttúrunni. Svo er ég forvitin af eðlisfari. Vil alltaf kanna hvað er á bak við næsta hól,“ segir Vilborg um hvernig útivistin hefur lengi verið hennar helsta ástríða.

,,Það var samt ekki fyrr en ég fór í fyrstu alvöru fjallaferðina mína þarna 22 ára sem ég uppgötvaði að ég vildi gera þetta af einhverri alvöru. Það var ákveðinn vendipunktur fyrir mig. Ég hafði dottið úr námi í menntaskóla en fór eftir þetta að mennta mig í ferðamálafræði og ég skráði mig einnig í björgunarsveit. Maður lærir svo ótal margt í björgunarsveit og ég eiginlega lærði að læra þar,“ segir Vilborg sem fór svo í framhaldsnám en var byrjuð að nýta sumrin sem tækifæri til þess að ganga og starfa sem leiðsögumaður.

Vilborg var hinsvegar byrjuð að móta ákveðna stórhugmynd í kollinum.

,,Hægt og rólega fór ég markvisst að dreyma um að komast á Suðurpólinn. Ég ákvað að gera viðskiptaáætlun fyrir þetta markmið og notaði þekkingu frá skólanum. Það er ekkert lítið mál eða ódýrt að ganga pólinn. Ég þurfti að finna leið til að fá fólk með mér í þetta verkefni.”

Vilborg stofnaði fyrirtæki í kringum verkefnið og fjárfesti í eigin framtíð. Undirbúningsferlið tók langan tíma enda stór hluti af svona stórum leiðangri. Bæði líkamlegur og andlegur undirbúningur.

,,Ég þurfti að æfa mig á að vera ein og ég fór í eina viku til Grænlands og dvaldi þar í litlum kofa til þess að fá tilfinninguna fyrir því að geta bara stólað á sjálfa mig. Þetta snýst mikið um að halda sér uppteknum í einverunni. Vera tilbúinn með plan sem heldur manni uppteknum.”

Vildir þú aldrei gefast upp?

,,Ég vildi síst af öllu gefast upp! Ég hafði gert plan um hvernig ég ætlaði að fylgja leiðangrinum eftir og það plan miðaðist við að ég kláraði markmiðið. Það vill enginn ráða uppgefinn pólfara til að fara með fyrirlestur eða skrifa bók,“ segir Vilborg hlæjandi.

Stuðningurinn skipti máli

,,Stuðningurinn á meðan ég gekk pólinn var alveg ótrúlegur og fjölmiðlaumfjöllunin eitthvað sem ég gerði aldrei ráð fyrir að myndi gerast. Þetta hjálpaði mér gífurlega og skipti miklu máli því auðvitað tók ég oft kafla þar sem hugurinn fór með mig í uppgjöf.”

Vilborg náði markmiðinu að ganga inn á Suðurpólinn.

,,Ég fann svo mikið þakklæti og vellíðan þegar markmiðinu var náð og man að strax sama kvöld fékk ég hugmyndina að næsta leiðangri, að ganga tindana sjö. Hæstu tinda í hverri heimsálfu.“

Vilborg var farin af stað aftur þremur mánuðum eftir að hún gekk Suðurpólinn en segir jafnframt að hún hafi ennþá verið að jafna sig líkamlega eftir pólförina. Hún lærði af því.

,,Maður verður að passa upp á hvíldina og einnig að fagna litlu sigrunum. Ég brýt markmiðin mín niður í búta og fagna öllum litlu sigrunum. Ef maður gerir það þá fagnar maður líka lokamarkmiðinu þegar það næst.”

Hápunktur ævintýranna var þegar Vilborg komst á topp Everest árið 2017. Hún hafði reynt við Everest áður og lent í hremmingum sem höfðu mikil áhrif á hana.

,,Þetta snérist ekki bara um að komast upp fjall heldur líka að vinna mig í gegnum þessi áföll.”

Vilborg hefur lært mikið á ævintýrunum en segir mikilvægast er að huga vel að sjálfum sér. Hlusta á hvað líkaminn er að segja manni. Nýja markmiðið hennar í dag er einmitt er að huga að sjálfri sér, svefninum og endurhæfingu eftir að hafa slitið krossbönd.

,,Borða þegar maður er svangur, hvíla sig þegar maður er þreyttur. Þú getur ekki alltaf verið dugleg nema þú gefir þér slakann inn á milli.”

Vilborg segir þá einnig mikilvægt að vita hvar mörkin sín liggja.

,,Ég hef lært á mörkin mín á reynslunni. Svo geta mörkin manns breyst með tíma og eftir aðstæðum.”

Að lokum þá segir Vilborg að allir ættu að fylgja draumum sínum eftir því það sé einfaldlega gaman.

,,Það er gaman að vinna að markmiðum sínum. Það gefur ákveðin félagsleg gildi, hjálpar manni að öðlast sýn og því fylgir svo mikill lærdómur.”

Hlusta má á viðtalið á Spotify og á öllum helstu hlaðvarpsmiðlum.

ÞÍN EIGIN LEIÐ kemur út alla mánudaga þar sem Friðrik Agni kynnist áhugaverðu fólki sem fer sínar eigin leiðir og annan hvorn mánudag mætir Anna Claessen markþjálfi og saman kryfja þau allskyns sálar- og tilfinningatengd málefni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira

Hermann og Alexandra eignast son

Hermann Hreiðarsson, þjálfari og fyrrum atvinnumaður í fótbolta, og Alexandra Fanney Jóhannsdóttir, fyrrum flugfreyja hjá Icelandair, eignuðust...