„Einn af eftirsóttustu piparsveinum landsins 2016, hef ekki verið á listanum síðan“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsa, fagnaði stórafmæli í gær þegar kappinn varð fimmtugur. Gylfi Þór var áður margreyndur í fjölmiðlabransanum og hefur komið víða við við góðan orðstír. Hann var sölu og markaðsstjóri fyrir Viðskiptablaðið á árunum 1994-2000 og aftur sem markaðsstjóri frá 2004-2005, auglýsingastjóri DV, 2000-2004, auglýsingastjóri á Morgunblaðinu 2005-2010 og var framkvæmdastjóri mbl.is frá 2010-2012. Þá var Gylfi Þór starfandi framkvæmdastjóri fyrir Auglýsingamiðlun í afleysingum frá lok árs 2012 þar til hann ráðinn markaðs- og sölustjóri Vefpressunnar, sem rak netmiðlana Pressuna, Eyjuna og Bleikt. Í byrjun árs 2019 tók hann við í stöðu framkvæmdastjóra Eiðfaxa.

Gylfi Þór skrifaði skemmtilegar hugleiðingar í dag, orðinn fimmtugur og eins dags og því formlega orðinn „maður á sextugsaldri“ komi til þess að hann rati í fjölmiðla. Séð og Heyrt fannst því tilvalið að deila hugleiðingum hans með öðrum og koma því á framfæri að hann er einhleypur og biðjast um leið velvirðingar á því að hafa ekki sett hann á lista síðastliðin fjögur ár. Við munum reyna að gera betur!

„Í gær varð ég fimmtugur, finnst það ótrúlegt, ég er bara ekki sú týpa. Það var reyndar ekkert flókið, það eiginlega bara gerðist af sjálfu sér, mest svona með tímanum.

En það sem ég hef lært á þessum 50 árum er: Ég þarf ekki að hafa skoðun á öllu, ég þarf ekki að vita allt eða kunna allt.
Ég lærði það líka að með hverjum missi, getur maður lært eitthvað gott, maður þarf bara að leita að því jákvæða. Sorg er upphaf. Ég lærði að fjölmiðlar reyna alltaf að segja satt, þess vegna var ég einn af eftirsóttustu piparsveinum landsins 2016, lærði líka að fjölmiðlar gleyma fljótt. Hef ekki verið á listanum síðan.
Ég lærði að það skiptir mestu máli hvernig þú kemur fram við fólk, ekki við hvað þú vinnur, það muna allir eftir þeim sem komu vel fram við þá, en það vilja allir gleyma þeim sem gerðu það ekki.
Í mínum huga er það líf eftir dauðan, hvernig fólk man þig.
Ég lærði að það er mun auðveldara að kaupa sér eggjasuðutæki en að muna að egg eru harðsoðin eftir 9 mín, mið soðin eftir 6 min og linsoðin eftir held ég 3?
Ég lærði að elska sjálfan mig, mest af öllum, því ef þú elskar ekki sjálfan þig, geturðu ekki elskað aðra.
Ég lærði það að það er skylda okkar að vera til staðar fyrir aðra, að hjálpa öðrum því án þeirra verður engin til að styðja eða hjálpa okkur.
Ég lærði það að mér finnst voðalega gaman að tala og mest um sjálfan mig, ég hef líka lært að mér er alveg sama hvað öðrum finnst um mig, svo lengi sem ég er sáttur við sjálfan mig.
En vænst þykir mér um það að ég lærði að verða góður sonur, góður faðir, góður vinur og góður samstarfsmaður . Takk fyrir allar kveðjurnar og gjafirnar, sem ég bjóst alls ekki við. Vinnufélagarnir komu mér á óvart með gleði, gjöfum og söng. Stelpurnar á læknavaktinni komu og færðu mér köku og nú vona ég bara að dagurinn þinn verði uppfullur af hamingju og gleði.“

Enn og aftur! Til hamingju með stórafmælið Gylfi Þór.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira