„Ekki hlutverk fjölmiðla að stoppa ákveðnar skoðanir“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Frosti Logason fjölmiðlamaður er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Frosti, sem varð fyrst þekktur í hljómsveitinni Mínus hefur unnið nánast allan sinn starfsferil á fjölmiðlum. Hann hefur lengi verið þekktur fyrir að taka viðtöl við alls kyns fólk, líka þá sem eru með óvinsælar skoðanir. Hann segist sjá mikla breytingu á samfélaginu á síðustu árum, þar sem fólk með óvinsælar skoðanir er beinlínis úhrópað og reynt að þagga niður í því:

,,Þetta kemur úr félagsvísindadeildum vestrænna háskóla…þaðan koma ákveðnar hugmyndir. Það er gott og gilt að gagnrýna vestrænt samfélag, en það verður að vera skynsamlegt. Þrátt fyrir að vestræn samfélög séu þau sem eru hve best á sig komin og að mannkynið hafi aldrei haft það jafngott í sögunni á að segja okkur að þetta sé allt hræðilegt. Það eru einhvern vegin bannorð að segja jákvæða hluti um vestræn samfélög af því að hópur af ,,Social Justice Warriors” hafa alist upp í félagsvísindadeildum við það að alheimskapítalisminn sé svo hræðilegur og vestræn samfélög séu það versta sem hefur komið fyrir mannkynið. Þetta er galinn útúrsnúningur. Auðvitað er ömurlegt að það sé til fátækt fólk og að minnihlutahópar verði fyrir aðkasti, en við erum alltaf að verða betri og betri í að bæta hlutina. Sameinuðu Þjóðirnar hafa gefið það út að með sama áframhaldi verði búið að eyða verstu fátækt heims fyrir árið 2030…..Það er ekki langt síðan ég var í félagsvísindadeild Háskóla Íslands og ástandið er svona þar….fólki er bara illa tekið ef það er með ákveðnar skoðanir.”

Frosti er með sterkar skoðanir á þessu og segir það ekki hlutverk fjölmiðla að stoppa ákveðnar skoðanir:

,,Eitt af því mest óþolandi sem ég heyri er þegar fólk segir: ,,Hvað eruð þið að gefa þessum aðila ,,platform”, þetta er bara einhver brjálæðingur.” …Auðvitað tekur maður ekki viðtöl við fólk sem er veikt á geði eða eitthvað slíkt, en það er óþolandi þegar fólk  með óvinsælar skoðanir er úhrópað á þann hátt að það sé ekki nógu merkilegt til að vera í fjölmiðlum og fjölmiðlar eigi að passa að það komist ekki að. Þetta finnst mér fáránlegur misskilningur á eðli fjölmiðla. Ég hika ekki við að fara á móti þessum straumi þó að maður fái mikinn skít fyrir það. Ég hef áhuga á fólki, hugmyndum og samfélaginu og okkur í Harmageddon finnst ekkert vera óviðkomandi hlustendum okkar. Sérstaklega þegar það eru einhverjar skrýtnar og öðruvísi skoðanir. Samfélagið er svolítið brennt af því að umræðan er mjög einsleit og inni í boxi. Ef þú ert ekki sammála háværum hópi af réttlætisriddörum, þá ertu bara gerður útlægur. Þetta er óþolandi ástand.”

Frosti hefur um árabil haldið úti þættinum Harmageddon ásamt félaga sínum Þorkatli Mána Péturssyni. Þátturinn er þekktur fyrir að hleypa í loftið fólki með óvinsælar skoðanir og ræða málin tæpitungulaust. Í viðtalinu ræða Frosti og Sölvi um mikilvægi þess að stoppa ritskoðun í fjölmiðlum, tímabilið þar sem Frosti var lykilmaður í hljómsveitinni Mínus, mikilvægi þessi að taka ábyrgð í lífinu og margt margt fleira.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira