Frú Ragnheiður fær nýjan bíl: „Þið eruð mörg sem eigið hlut í hjarta verkefnisins“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Frú Ragnheiður, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins í Reykjavík, hóf söfnun fyrir viku síðan fyrir nýjum bíl og stefndi að því að safna 10 milljónum með aðstoð almennings. Þeir sem vildu styrkja söfnunina gátu sms-ið TAKK í númerið 1900 og þannig styrkt verkefnið um 2.900 krónur.

Það er skemmst frá því að segja að markmiðið tókst og það ríflega.

„Aldrei hefði okkur grunað að við myndum vera nálægt því að ná markmiðinu. Í gær, þegar Frúin fagnaði 11 ára afmæli á lokadegi söfnunar, gerðist eitthvað kraftaverki líkast. Það gleður okkur að tilkynna að við náðum að safna 11 milljónum á 11 starfsári okkar,“ segir í færslu frú Ragnheiðar.

„Það er erfitt að koma þakklætinu sem býr í hjarta okkar í orð. Einn notandi þjónustu okkar komst þó vel að orði í gær og gaf okkur leyfi til að deila:

„Ég hef verið á götunni í mörg ár, og notað vímuefni í fleiri ár, og sjaldan ef einhvern tímann upplifað að samfélagið geri ráð fyrir mér og mínum þörfum. Ég hef fylgst með söfnuninni og velvildinni í kringum hana, allir að reyna að safna fyrir nýjum bíl hjá Frúnni fyrir okkur. Mér líður eins og samfélagið sé að viðurkenna mínar þarfir á einhvern undarlegan hátt.”

Á afmælisvakt Frú Ragnheiðar í gær mættu þær Snæfríður Jóhannesdóttir og Steinunn Ingibjörg. Steinunn hefur lengi verið bílstjóri í verkefninu og hún vildi koma því til skila að hún hlakkar til að keyra þriðja bílinn hjá Frúnni, þann flottasta!

Kæru velunnarar Frúnnar – TAKK! Við getum nú örugg fjárfest í nýjum bíl og innréttað hann í takt við þarfir skjólstæðinga og sjálfboðaliða verkefnisins. Við hlökkum til að frumsýna bílinn! Margt smátt gerði eina Frú Ragnheiði og þið eruð mörg sem eigið hlut í hjarta verkefnisins núna.“

 

Hvað er frú Ragnheiður?

Frú Ragnheiður er verkefni sem byggir á skaðaminnkun og hefur þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og fólks með vímuefnavanda. Þeim er boðin skaðaminnkandi þjónustu og almenn heilsuvernd, án fordóma eða kvaða, í þeirra nærumhverfi.

Frú Ragnheiður – skaðaminnkun hóf göngu sína árið 2009 í dag leita yfir 500 einstaklingar til hennar árlega.

Frú Ragnheiður á Facebook.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira