HARALD gefur út sitt fyrsta lag: Hélt sína fyrstu tónleika á Austurvelli 13 ára

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn HARALD sendir frá sér sitt fyrsta lag í dag, föstudaginn 25. september, en lagið er það fyrsta sem koma mun út á næstunni af EP plötu sem kemur út næsta vor. Lagið heitir Fullkomin og er uppgjör við ástina og fortíðina.

„Þetta er sjálfskoðun, uppgjör og það sem er að brjótast í höfðinu á ungum manni. Það er vandratað í hávaðanum og ofbirtunni sem villa manni sýn þarna úti í lífinu en þetta eru tilfinningarnar sem koma þegar maður slekkur á öllu, lokar augunum og hlustar á hjartað,“ segir HARALD.

HARALD er tuttugu og eins árs og kemur frá Kópavogi. Hann er er alinn upp umvafin tónlist og byrjaði snemma að læra á hljóðfæri og er jafnvígur á gítar og píanó, auk þess að syngja sjálfur. HARALD hefur komið fram víða þrátt fyrir ungan aldur og aðeins rétt rúmlega þrettán ára fór hann að troða upp einn síns liðs í miðborg Reykjavíkur fyrir gesti og gangandi.

HARALD

„Það var bara rosalega öflug og þroskandi leið til að hrista af sér alla feimni og allan framkomuskrekk. Ég fór bara í strætó niður í bæ, opnaði gítarkassann og stillti honum á götuna fyrir framan mig og byrjaði að spila og fólk hópaðist bara að mér og henti peningum í töskuna og söng með. Sumir strunsuðu bara fram hjá en aðrir gáfu sig á tal við mig og báðu mig um óskalög og gerði bara mitt besta að gleðja fólk,“ segir HARALD. „Síðan hef ég lagt mig fram um að koma fram og spila eins og ég get. Ég fór síðan í ferðlag um Argentínu í eitt ár og þar drakk ég í mig allskonar tónlistarmenningu og strauma,“ en árin 2018-2019 dvaldi HARALD langdvölum í Suður Ameríku.

„Svo er það bara að spila, semja og spá og spekúlera í tónlist og nú finnst mér ég vera kominn með hljóðheim sem mér líður vel með og er tilbúinn að deila þessu með fleirum,“ segir HARALD sem segir að það séu engin töfrabrögð í þessu, bara vinnusemi og þrautseigja.

„Ég bý að því að eiga nokkra mjög sjóaða ráðgjafa í mínum nánasta fjölskylduhring en þeirra ráðleggingar hafa alltaf verið á eina leið: „Spila, spila og spila meira og svo spila aðeins meira eftir það.“ Þeir hafa verið mjög skýrir á því við mig að þeir verði mér alltaf innan handar, en um leið sagt mér að það séu engar skyndilausnir í þessu frekar en öðru. Þess vegna hef ég lagt svo mikla áherslu á að finna minn hljóm og minn stað áður en ég færi að gefa eithvað út. En þess vegna er ég líka spenntur að sjá og heyra viðbrögð við þessu.“

Lagið Fullkomin er fáanlegt á Spotify og öllum helstu streymisveitum.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira