Lára og Nadía Sif segja Sölva söguna alla: „Ég vona að fjölskyldan þín deyi hægt úr krabbameini“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Frænkurnar og vinkonurnar Lára Clausen og Nadía Sif Líndal hafa vakið mikla athygli og umtal undanfarið hér heima og í Bretlandi eftir að þær þáðu stefnumót við fótboltamennina og meðlimi enska landsliðsins í knattspyrnu, Phil Foden og Mason Greenwood. Fótboltamennirnir gistu á Hótel Sögu, þangað sem þeir buðu Láru og Nadíu Sif, en þar voru þeir í sóttkví.

Lára og Nadía Sif mættu til Sölva Tryggva í hlaðvarp hans, þar sem þær segja söguna alla í fyrsta sinn saman í íslenskum fjölmiðli.

Nadía Sif segir svo frá að hún hafi sótt um að vera á appi fyrir fræga fólkið, og hún hafi komist í gegnum inngönguferlið, appið virki svipað og Tinder, og þar „matchar“ hún við Mason Greenwood. Hann sendir henni síðan fyrstu skilaboðin og þau byrja að spjalla saman, þar sem hann segist vera á Íslandi en fara daginn eftir.

Segir hún að vinir hennar hafi ýtt á hana að fara, þar sem þetta sé „once in a lifetime opportunity.“ Nadía Sif pantar sér herbergi á sjöundu hæð, en strákarnir séu á þeirri þriðju. Lára skutlar henni og ætlar ekki með inn á hótelið, en þar sem Phil Foden mætti með Mason Greenwood á herbergið til Nadíu Sifjar þá var ákveðið að hringja til Láru og fá hana líka í heimsókn. Hún samþykkti það og pantaði sér líka herbergi. Lofaði Phil Foden að borga fyrir herbergið fyrir Láru, en þegar Sölvi spyr hvort þeir hafi greitt fyrir herbergin svara þær því neitandi: „Og við ætlum ekki að senda þeim rukkun!“

Allir tóku myndir á stefnumótinu

Lára og Nadía Sif segja þá félaga aldrei hafa sagt þeim að þeir væru í sóttkví eða að þeir þyrftu að fylgja einhverjum reglum, nema einni: þeir máttu ekki yfirgefa hótelið. Þeir hafi aldrei nefnt að ekki mætti taka myndir af þeim eða deila þeim á samfélagsmiðlum. Þeir hafi tekið myndir og myndbönd af þeim allt kvöldið.

„Við héldum að þeir væru að gera akkúrat það sem þeir mættu,“ segir Lára. „Maður hugsaði ekki alveg út fyrir rammann því miður,“ segir Nadía Sif.

„Þeir voru takandi myndir og myndbönd af okkur allt kvöldið,“ segir Nadía Sif og segja þær að slíkt sé ekkert óalgengt á meðal ungs fólks í dag. „Vinir okkar voru að fríka út,“ segir hún og gerir þær ekkert hafa gert sér grein fyrir því hversu þekktir þeir félagar eru, „þetta eru bara einhverjir fótboltastrákar.“

„Við vorum bara í einhverjum galsa og fannst þetta fyndið og spennandi og vissum ekkert nákvæmlega hversu frægir þeir væru. En við vissum að þeir voru eitthvað þekktir en vissum að vinir okkar vissu hverjir þeir væru,“ sagði Lára.

„Ekki grænan, hann nefndi ekki einu sinni að hann ætti barn eða kærustu eða ekki neitt“ segir Lára aðspurð um hvort hún hafi vitað að Foden ætti kærustu. „Ég hefði ætlast til að ef að kærasta væri í myndinni þá hefði Mason ekki ýtt undir það,“ segir Lára og segir hann hafa tekið myndir af henni og Foden að kyssast.

Nýsofnaðar þegar þær voru vaktar með látum

Lára og Nadía Sif segjast hafa farið seint að sofa, enda verið í galsa eftir kvöldið og rætt saman um hvað þeir félagar sögðu við hvora þeirra. Þær sofnuðu í sama herbergi, og stuttu seinna var barið með látum á hurðina á herbergi þeirra. Þjálfari landsliðsins Southgate, annar eldri maður og kona sem starfar hjá Securitas voru mætt og ruddust inn á herbergið að leita að einhverju eða einhverjum.

„Hverjum eru þeir að leita af? Eru þeir að leita af Phil eða eru þeir að leita að einhverjum öðrum leikmönnum? Málið er að þessi Securitas manneskja er á hæðinni þeirra og ef hún tekur eftir því að strákarnir hverfa í klukkutíma og fara svo aftur í þrjá tíma. Af hverju segir hún ekki neitt ef þeir eru að gera eitthvað rangt?,“ segir Nadía Sif.

Stefnumótin komust í fjölmiðla þegar DV hringdi í þær, en myndband sem Lára sendi vinum sínum, 20-30 manns, var tekið upp og sent til DV. Segist Lára hafa eytt myndbandinu eftir að DV hringdi og óskað eftir að engar fréttir eða myndir yrðu birtar.

„Við vorum ekki einu sinni að hugsa um okkur við vorum að hugsa um þá og hvaða afleiðingar þetta gæti haft fyrir þá,“ segja þær og segjast fyrst hafa frétt frá blaðamanni DV að fótboltamennirnir ættu að vera í sóttkví.

„Einn skellur og Instagrammið springur,“ segir Lára. „Fyrsta daginn vorum við með æluna í hálsinum, hættum ekki að titra og vissum ekki hvað við áttum að gera,“ segir Nadía Sif þegar Sölvi spyr hvernig þeim hafi liðið. Segja þær mánudaginn hafa verið mjög erfiðan, þær kallaðar vændiskonur, því borið við að fótboltamennirnir hafi greitt fyrir stefnumótið og fleira. Þær séu hins vegar í mínus eftir kvöldið.

„Við borguðum þetta allt sjálfar. Meira að segja þegar Lára var í Hagkaup í Garðabæ þá voru þeir eitthvað, „Hey nennirðu að biðja hana um að kaupa nammi og ég eitthvað já já og legg inn á Láru fyrir nammi og hún kaupir nammi fyrir 3 þúsund krónur. Ég eyddi 13 þúsund kalli í þessa drengi maður“ segir Nadía. „Og ég borgaði 10 þúsund kall í hótel og bensín. Ég er ekki með milljón á mánuði,“ segir Lára.

Segjast þær aldrei hafa lent í öðru eins áreiti og segist Lára hafa verið stoppuð út í búð og fólk verið með leiðindi við hana þar.

Ekki rétt að taka laumumyndina

Sölvi spyr Láru um „laumumyndina“ og vísar þar til myndar sem hún tók af Foden, þar sem sjá má í beran afturenda hans, en sú mynd hefur farið víða, meðal annars á forsíður fjölmiðla í Bretlandi. „Ekki rétt hjá mér, ég tek það á mig, hugsunarleysi, ég gerði mér ekki grein fyrir því,“ segir Lára og segist ekki hafa sett myndirnar í story. Segja þær að þeir hafi einnig tekið myndir af þeim, sem þær vita ekki hvort þeir sendu eitthvað og ef svo er þá hvert.

Segjast þær hafa fengið skilaboð frá fjölda Breta, þar sem þeim er ekki óskað velfarnaðar. „Ég vona að fjölskyldan þín deyi hægt úr krabbameini,“ segir Nadía Sif. „Bara basically drepið ykkur, þið eigið ekki skilið að lifa, þið hafið eyððilagt ferilinn hjá strákunum,“ bætir Lára við.

Athugasemdir hafa verið skrifaðar undir myndir hjá þeim á Instagram, TikTok, þær fengið skilaboð, sms og fleira. „Ég bara get ekki hætt að telja,“ segir Lára. Segja þær fullorðið fólk kalla þær vændiskonur, heimskar ljóskur og öllum illum nöfnum, sem Sölvi segir áhugavert í ljósi þess að þær séu í mínus. „Voða cheap hórur,“ segja þær og hlæja.

Segir Nadía Sif að hún hafi birt færslu á Facebook og móðir hennar líka, og eftir það hafi þær mætt stuðningi úr samfélaginu. Segir hún að Bubbi hafi síðan tvítað stuðningi við þær, „þá varð ég starstruck,“ segir hún og Lára tekur undir. „Ég hlusta á lögin hans, ég horfi ekki á leikina þeirra,“ segir hún og vísar til Foden og Greenwood.

„Ég er búin að fá helling af ást og tek það frekar inn en hate,“ segir Lára, og segist fá fjölda símtala og sms-a og ekki hafa undan eða geta blokkað öll símtöl, sms eða haturspósta.

Báðar hafa sagt sögu sína í breskum miðli og segja það hafa verið stóra ákvörðun að taka. „Það sem seldi mig pínu að tala við bresku pressuna er það að þetta er viðkvæmt mál og ef fólk ætlar að dæma það þá getur það gert það af sannleikanum. Það truflar mig ekki ef að fólk dæmir sannleikann,“ segir Lára. Nadía Sif tekur undir og segir bresku pressuna hafa ruglað söguna mikið.

„Okkur líður illa yfir því að þetta hefði basically ekki gerst ef við hefðum ekki farið að pósta,“ segir Nadía Sif, en þær bæta við að þeir hafi sett þær í erfiða stöðu líka, enda ekkert sagt þeim að þeir væru í sóttkví eða annar þeirra ætti konu og barn.

Viðtal Sölva er tekið eftir að þær fóru í viðtöl við sitt hvorn breska miðilinn, en áður en þau viðtöl birtust, og segir Lára að líklega komi annar skellur eftir að þau birtist, en það sé vonandi lokaskellurinn.

„Við vorum ekki að hitta þá til að verða frægar,“ segir Nadía Sif. „Við erum bara ósköp venjulegar stelpur, sem höfum aldrei gert neitt svona áður,“ segir Lára.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira