Lay Low sendir frá sér nýtt lag ​við aðfaraorð nýju stjórnarskrárinnar

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Tónlistarkonan Lay Low gefur í lag út nýtt lag, Aðfaraorð og er það aðgengilegt á helstu streymisveitum.

Lay Low samdi lag við aðfaraorð nýju stjórnarskrárinnar og er hluti af tón- og myndlistarverkinu Í leit að töfrum og er samstarfsverkefni Töfrateymisins.

„Lykilmarkmið ritunar nýrrar stjórnarskrár var að stuðla að lýðræðislegra og réttlátara samfélagi og vakti ferlið heimsathygli fyrir framsýna og lýðræðislega nálgun. 20. október 2012 kaus almenningur með nýju stjórnarskrártillögunni í þjóðaratkvæðagreiðslu en þrátt fyrir það hefur hún þó enn ekki verið lögfest af Alþingi.“

Lay Low er vart nauðsyn að kynna en hún gaf fyrst út efni árið 2006 þegar Please Don’t Hate Me kom út. Auk þess að gefa út sitt eigið efni þá hefur hún einnig samið fyrir sjónvarp og leikhús, lög við ljóð og flutt lög með öðrum flytjendum.

Töfrateymið er hópur yfir 100 tónskálda, tónlistar- og myndlistarmanna, ásamt aðgerðarsinnum, sjálfboðaliðum, samtökum og almenningi sem tók þátt í undirbúningi, framkvæmd og flutningi verksins 3. október í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi og úti á götum höfuðborgarinnar. Gjörningurinn endaði við Alþingishúsið á Austurvelli þar sem hífður var upp með krana stór bleikur borði með textanum Nýju Stjórnarskrána takk!

Aðfaraorð
Við sem byggjum Ísland
viljum skapa réttlátt samfélag
þar sem allir sitja við sama borð.

Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina
og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna,
landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki
með frelsi, jafnrétti, lýðræði
og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins,
efla menningu þeirra
og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld,
öryggi, heill og hamingju
á meðal okkar og komandi kynslóða.

Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum
að friði og virðingu fyrir jörðinni
og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá,
æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira