Lítið mál að koma fram nakinn: „Nauðsynlegt að alls konar fólk sjáist“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Mér finnst þægilegt og gaman að vera nakinn og ef ég réði því væri ég það oftast,“ segir fjöllistamaðurinn Sindri Freyr Bjarkason sem fer með hlutverk í nýrri auglýsingu fjarskiptafyrirtækisins NOVA. Auglýsingin hefur vakið mikla athygli en þar sjást Íslendingar af öllum stærðum og gerðum kviknaktir við leik og störf.

Sindri Freyr Bjarkason leikur í nýju NOVA-auglýsingunni sem auglýsingastofan Brandenburg gerði, en hann er myndlistarmaður, dragdrottning, uppistandari og hefur fengist við handritaskrif og kvikmyndagerð. Þess utan hefur hann látið til sín taka í réttindabaráttu hinsegin fólks með áherslu á málefni BDSM fólks.

„Ég ætla nú ekki að segja að þetta sé ekkert mál,“ segir Sindri, spurður hvernig sé að koma svona fyrir sjónir almennings, en í auglýsingunni sést hann rölta eftir sundlaugarbakkanum í Sundhöllinni á adamsklæðunum einum. „Ég er auðvitað með mín líkamsímyndarvandamál og minn pakka bara eins og aðrir,“ tekur hann fram, „en á móti finnst mér nekt vera mjög náttúruleg þannig að ég átti í sjálfu sér ekkert erfitt með að koma fram nakinn.“

Hann segist hafa haft meiri áhyggjur af því hvernig viðtökurnar yrðu en nú þegar hann skoði athugasemdakerfin sjái hann að það var ástæðulaust. Fyrir utan eitt og eitt leiðindakomment, sem byggi flest á misskilningi eins og að auglýsingin ýti undir offitu þar sem hún sýni líka feitt fólk, þá séu viðbrögðin bara mjög góð.

„Ég vissi nú að makanum yrði alveg sama, en ég hafði smávegis áhyggjur af sumum í fjölskyldunni.“

„Hér er meira að segja athugasemd á Reddit frá aðila sem segist vera í áfalli yfir því að hafa séð mig í auglýsingunni og hugsað: Hei, við erum nokkuð líkir – án þess að hann hafi skammast sín fyrir það. Viðkomandi segir það vera nýja og ótrúlega góða tilfinningu. Maður fær nú bara tár í augun við að lesa þetta.“

Afslappað andrúmsloft á tökustað

En hvernig kom til að Sindra var boðið hlutverk í auglýsingunni?
„Ég sá nú bara auglýst eftir fyrirsætum á Hinsegin spjallinu. Þar var talað um nekt og það vakti forvitni mína að óskað var eftir alls konar fólki, það er að segja fólki af öllum gerðum og stærðum. Ég hef reynslu af því að leika en hafði aldrei komið fram nakinn. Hins vegar finnst mér þægilegt og gaman að vera nakinn og ef ég réði væri ég það oftast, þannig að ég ákvað bara að svara manneskjunni sem setti inn auglýsinguna og þetta gekk allt saman upp.“

Þú hefur ekki hugsað þig tvisvar um, ekki einu sinni þegar þú mættir á tökustað og sást allt fólkið?
„Nei, í rauninni ekki,“ svarar Sindri hreinskilinn. „Ég mætti bara í tökur í Sundhöllina klukkan sjö um morguninn, á afmælisdegi kærastans, nýbúinn að borða köku og peppaður af sykri. Reyndar kom móment þar sem ég hugsaði: Bíddu ef ég fer úr núna og fer fram er ég að brjóta einhverjar samfélagsreglur? Af því maður er ekki vanur þessu. En svo lét ég bara vaða og þetta var ekkert mál. Satt best að segja var frelsandi að sitja innan um hitt fólkið á tökustað. Það var gagnkvæm virðing í gangi og allir voða næs. Eina stressið var að ná að skjóta auglýsinguna á réttum tíma, en annars var andrúmsloftið bara mjög afslappað og þægilegt.“

Opinskár með kynhneigðina

Varstu ekkert hræddur um hvað þínum nánustu fyndist?
„Ég vissi nú að makanum yrði alveg sama, en ég hafði smávegis áhyggjur af sumum í fjölskyldunni,“ játar Sindri. „Og þá helst fólkinu sem er ekki opið gagnvart svona hlutum. Sjálfur er ég hins vegar mjög opinn með allt um sjálfan mig gagnvart minni nánustu fjölskyldu, um allt frá kynhneigð minni yfir í listsköpun mína. Ég hef ekkert að fela fyrir fólki, ég kem hreint fram enda veit hvernig ég vil lifa og reyni að gera það eftir fremsta megni, svo fólk sjái mig eins og ég er.“

Þegar blaðamaður spyr Sindra hvað hann eigi við með því segist hann vera BDSM-hneigður og kynsegin og hann sé opinn með það. Hann hafi meira að segja gert kvikmynd, Opening up, sem hafi verið lokaverkefni hans frá Myndlistarskólanum í Reykjavík, og þar hafi hann gert þessu ákveðin skil. Gaman sé að segja frá því að myndin hafi unnið til Punch in the Face-verðlauna á Reykjavík Fringe Festival í ár og frumsýning hennar á hátíðinni hafi opnað á umræður þar sem BDSM-hneigt fólk lýsti skömminni sem fylgdi því að horfast í augu við eigin kynhneigð, vegna þeirra fordóma sem væru enn í samfélaginu gagnvart BDSM. Fólki hafi fundist mjög frelsandi að sjá myndina tækla það. Það gefi til kynna að enn sé heilmikið verk að vinna í að uppræta slíka fordóma, þótt hlutirnir séu vissulega farnir að þokast í rétta átt með aukinni umræðu um málefni BDSM-fólks á Íslandi og auknum sýnileika.

Vill vera fyrirmynd fyrir aðra

Þannig að þessi verkefni, myndin þín og NOVA-auglýsingin, þú tekur þau að þér af hugsjón? spyr ég.
„Ég tek fyrst og fremst þátt í hlutum sem mér finnast skemmtilegir,“ svarar hann. „BDSM-senan hefur gefið mér mikið þannig að ég vil gefa til baka, bæði með gerð myndarinnar og með því að sitja í stjórn BDSM-félagsins á Íslandi og svo hefur listin gefið mér mikið. Þess vegna reyni ég að vera góð fyrirmynd fyrir aðra. Það getur vissulega verið þreytandi og auðvitað eru ekki allir sáttir við það sem maður er að gera. Þegar ég var yngri áttaði ég mig á því að ef ég stend ekki með sjálfum mér og virði mig eins og ég, gerir það enginn anna.“

„Reyndar kom móment þar sem ég hugsaði: Bíddu ef ég fer úr núna og fer fram er ég að brjóta einhverjar samfélagsreglur?“

Hvað auglýsinguna varðar segir Sindri tímabært og nauðsynlegt að fólk af öllum stærðum og gerðum fái að sjást í allri sinni dýrð. „Ég er ánægður með að í þessari auglýsingu skuli vera alls konar fólk því það eru svo miklar ranghugmyndir í gangi um líkama okkar. Þess vegna finnst mér frábært og bara alveg nauðsynlegt að alls konar fólk sjáist þarna, eins og það er skapað frá náttúrunnar hendi.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Sólveig og Jakob eignuðust dóttur

Jakob Birgisson uppist­and­ar­i og Sól­veig Ein­ars­dótt­ir hagfræðingur eignuðust frumburð sinn, dóttur, fyrir stuttu. Dóttirin hefur fengið nafnið...