Reykjavík í jólabúninginn – 200.000 perur lýsa upp jólaborgina

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Jólaborgin Reykjavík er að færast í glæsilegan jólabúning. Reykjavíkurborg bætir í skreytingar og stemningu til að gleðja íbúa á tímum heimsfaraldurs. Alls lýsa upp borgina á aðventunni 20 kílómetrar af seríum og samtals 200.000 perur. Það er þriðjungs aukning frá árinu 2018 þegar perurnar voru 150.000 talsins.

Til gamans má geta að bláa tréð í Fógetagarðinum er með 600 metra af seríum eða um 6.000 ljós og Oslóartréð um 450 metra eða 4.500 ljós. Allar hefðbundnu jólaskreytingarnar eru komnar upp en það er margt nýtt sem gleður augað sem bætist við á næstu dögum. Kemur þetta fram í tilkynningu á vef borgarinnar.

Jólalegir viðburðir verða á vísum stað í miðborginni en opnaður verður jólamarkaður á Hjartatorgi, Nova-svellið verður á sínum stað á Ingólfstorgi og í framhaldi af því verður annar jólamarkaður sem teygir sig yfir í Austurstræti. Einnig má búast við ýmsum óvæntum viðburðum sem skjóta upp kollinum hér og þar.

Oslóartréð verður tendrað á Austurvelli að venju fyrsta sunnudag í aðventu. Það verður skreytt óvenju  mikið og skemmtilega að þessu sinni og mun áreiðanlega gleðja gesti og gangandi þó engin formleg tendrunarathöfn fari farm.

Ýmsar furðuverur tengjast íslensku jólahaldi sem setja svip sinn á bæinn. Jólakötturinn er kominn á sinn stað á Lækjartorgi, jólavættirnar birtast á húsveggjum í desember og ein ný er meira að segja væntanleg.

Blátt tré, ljósakúlur og jólaþak

Starfsfólk reksturs- og umhirðu hjá umhverfis- og skipulagsviði borgarinnar hefur verið önnum kafið síðustu vikur að koma upp öllum þessum fjölda jólaljósa. Á meðal nýjunga er blá lýsing á voldugu tré í Fógetagarðinum sem hefur vakið mikla athygli. „Jólaþak“ verður sett á Austurstræti en þar verða seríur strengdar yfir götuna í anda gulu veifanna sem skreyttu götuna í sumar. Önnur nýjung eru ljóskúlur sem prýða Laugaveg og Hljómskálagarð.

Allt er þetta liður í að skapa jákvæða upplifun, búa til eitthvað sem kemur á óvart í umhverfinu. Með því að færa ljósaskrautið nær fólki eins og með kúlunum og jólaþakinu er lagður grunnur að betri upplifun gangandi vegfarenda og notalegri stemningu og enn fremur verður til skemmtileg leið að skautasvellinu á Ingólfstorgi.

Bætt var í skreytingarnar á Hverfisgötu í fyrra og hún verður áfram ljósaskreytt nú, Hjartatorg verður skreytt á skemmtilegan hátt og hið nýja og vinsæla Óðinstorg fer í jólabúning. Aukið verður við jólalýsingu á efsta hluta Laugavegar.

Víst er að það er órjúfanlegur þáttur í hefðum borgarbúa að heimsækja miðborgina fyrir jólinn og ljóst er að það verður enn meira að sjá en áður en þessi fagra jólaljósabirta er einstaklega þakklát á þessum dimmasta tíma ársins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira