Rúnar Ingi yngdi Þröst Leó um 40 ár með nýrri tækni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Hugmyndin kemur aftur frá þessum pælingum um tímann, það sem er og var og kemur kannski aldrei aftur. Minningar sem við eigum og fylgja okkur alla tíð. Hér er það sýnt í einföldu myndmáli, það er að segja farið aftur í tímann og vonandi þá þannig að fólk tengi við og hugsi til sinna lykilmómenta. Hér er tækninni því beitt á jákvæðan hátt,“ segir Rúnar Ingi Einarsson leikstjóri um tæknina sem hann notar þar sem leikarinn Þröstur Leó Gunnarsson yngist um fjölda ára í auglýsingu fyrir SÍBS.

„Mér skilst að þetta sé í fyrsta sinn sem þessi tækni er notuð á Íslandi. Og yfirleitt er þessi tækni hugsuð í neikvæðum skilningi um þá hvernig henni er beitt, og það réttilega.“

Auglýsingin er hluti af nýrri herferð SÍBS sem hófst á fimmtudag, en í henni koma þekktir Íslendingar fram og ráðleggja ungu fólki. Herferðin snýr að því að læra reynslu: „hvað myndir þú segja við yngri þig.“

„Þá hófst kapphlaupið“

Í auglýsingunni með Þresti Leó segir hann frá því þegar hann eignaðist sitt fyrsta barn nítján ára gamall. Þá hófst kapphlaupið og hann hefur ekki hætt að hlaupa síðan þá. Ef hann ætti að ráðleggja yngri sér eitthvað væri það að slaka aðeins á og njóta augnabliksins.

Í auglýsingunni er notast við nýja tækni þar sem teknar eru gamlar myndir af Þresti og þær keyrðar í gegnum tölvuforrit og inn í auglýsinguna. Fyrir vikið þá yngist Þröstur Leó eftir því sem líður á auglýsinguna og er eins og hann var 19 ára þegar auglýsingin klárast. Auglýsingin er tekin upp í gamla St. Jósepsspítala í Hafnarfirði. Veggir hússins, innanstokksmunir og annað, sem er heldur illa farið, breytast líka og færast til baka í tíma og verða fallegri eftir því sem líður á auglýsinguna.

Tengdi sjálfur við auglýsinguna

Rúnar Ingi segir að hugmyndin að auglýsingunni hafi orðið til í sameiningu hjá honum og auglýsingastofunni H:N Markaðssamskipti sem nálgaðist hann til að þróa verkefnið saman. „Hugmyndin verður til í sameiningu með stofunni út frá grunnspurningunni sem þau bjuggu til um „Hvað myndirðu segja við yngri þig?,“ segir Rúnar Ingi.

„Ég held að velflestir hafi verið að ganga í gegnum ákveðna sjálfskoðun á þessu ári og sjálfur er ég engin undantekning. Mér er stöðugt umhugað um tímann og hvað við gerum með hann. Ég og konan mín vorum sjálf að eignast okkar fyrsta barn og það er svo margt sem rennur í gegnum hugann á slíkum tíma. Einhvern veginn varð það svo að þessi mónólógur sem Þröstur fer með kom náttúrulega í ferlinu og hélst óbreyttur alla tíð. Og Þröstur tengdi líka mikið við textann og gerði hann svo að sínum.“

Sáttur með útkomuna

Aðferðin sem notuð er á Þröst Leó hefur ekki verið notuð áður hér á landi eins og fyrr segir, þó að hún hafi sést í erlendum kvikmyndum, þar á meðal The Irishman. En hvernig var að vinna með þessa tækni?

„Þetta var hreint út sagt bara mjög stressandi. Algjört villta vestur. Einhver sagði við mig í miðju ferlinu og í algjöru kvíðakasti að þetta væri ákveðinn Everest að klífa. En eins og velflestar góðar fjallgöngur, þá tekur maður með sér góða ferðafélaga allt frá kvikmyndatöku til eftirvinnslu þar sem allir lögðu hönd á plóg og gerðu þetta glimrandi vel. Ég er ótrúlega sáttur með útkomuna og þakklátur fyrir vegferðina.“

Býður þessi tækni upp á það að eldri leikarar geti nú keppt við yngri leikara ef svo má segja. Að það sé einfaldlega hægt að taka Eddu og Ladda og láta þau líta út fyrir að vera þrítug sem dæmi í stað þess að ráða þrítuga leikara?

„Það er nefnilega málið! Það væri áhugavert að sjá The Irishman útgáfuna á Eddu og Ladda í einhvers konar Stellu í orlofi epík sem spannar 50 ára sögu. Læt kannski aðra um að skrifa þá sögu. En möguleikarnir eru endalausir.“

SÍBS eru góð­gerðar­sam­tök sem vinna að bættri lýð­heilsu og vel­líðan fólks. Samtökin  reka meðal annars Reykja­lund þar sem fólk fer í endur­hæfingu út af ýmsum kvillum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira

Hermann og Alexandra eignast son

Hermann Hreiðarsson, þjálfari og fyrrum atvinnumaður í fótbolta, og Alexandra Fanney Jóhannsdóttir, fyrrum flugfreyja hjá Icelandair, eignuðust...