Sara segir frá ævintýralegri sambúð með Rich: Sterakassar og reiðufé falið um alla íbúð |

Sara segir frá ævintýralegri sambúð með Rich: Sterakassar og reiðufé falið um alla íbúð

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sara Piana er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Sara, sem hefur í gegnum árin verið umtöluð á Íslandi, hefur hingað til ekki farið í viðtöl í íslenskum fjölmiðlum, en fannst tími til kominn að segja sögu sína, einkum og sér í lagi þar sem hún er nú alfarið flutt til landsins og ætlar að hefja hér næsta kafla í sínu lífi. Hún segir í þættinum sögur af þvi hvernig heimili hennar og Rich Piana var fullt af peningum og sterum í öllum hornum þegar líferni Rich náði hámarki:

,,Hann var með vin sinn sem framleiddi sterana, alls konar tegundir og kom alltaf með þá. Hann keypti stera af þessum strák fyrir 30 milljónir íslenskar mánaðarlega. Og seldi það svo áfram til annarra. Það voru sterakassar úti um alla íbúð og þegar verst var gat maður ekki þverfótað fyrir þessu helvíti. Þetta var bókstaflega úti um allt. Svo kom fólk heim til okkar eða hitti á hann í ræktinni til að kaupa af honum. Hver og einn aðili keypti mjög mikið magn, sem þeir voru síðan sjálfir að selja. Auðvitað var ég ekkert ánægð með þetta og maður er ekki öruggur með þetta í húsinu. Maður veit aldrei hvort eða hvenær löggan kemur og bara að ég sé á staðnum þýðir að ég sé ekki í góðum málum,” segir Sara, sem segir að þetta hafi smátt og smátt aukist og að hún hafi verið orðin allt of samdauna þessu líferni.

Rich Piana lést 25. ágúst 2017, tæpum mánuði fyrir 47 ára afmælisdag sinn. Hjónin skildu ári áður.

,,Ég komst ekkert að þessu í byrjun sambandsins, það var ekki fyrr en við byrjuðum að búa saman sem þetta kom upp á yfirborðið og var í miklu miklu minna magni fyrst um sinn. En strákurinn sem var að búa þetta til fyrir hann var með verksmiðju til að gera þetta allt saman sem að ég kom aldrei inn í. En svo sá ég bara magnið þegar þetta kom til okkar mánaðarlega og það var ekkert smáræði. Svo fylgir þessu auðvitað mikið reiðufé og hann geymdi peninga úti um allt. Hann faldi seðla í boxpúðum, ljósakrónum og á fleiri stöðum um alla íbúð. Hann var mjög á móti því að grafa peningana, þannig að þetta var falið alls staðar þar sem hægt var að geyma peninga.”

Rich Piana var þekktur fyrir að vera hrikalegur í útliti og Sara segir að hann hafi ekki bara verið svona stór og mikill af lyftingum og steranotkun:

,,Hann sprautaði líka PMMA í vöðvana, sem virkar svipað og silikon og stækkaði hann allan. Ég kann ekki alveg að útskýra hvernig það virkar, en hann sprautaði því á marga staði í líkamann á sér. Hann var bara rosalega ,,Extreme” með allt í sínu lífi. Það var bara farið alla leið.”

Sara segist ekki hafa hugsað sér þessa tegund af lífi þegar þau kynntust og segir eftir á að hyggja hafi þetta verið mjög skrautlegt á köflum, en að á endanum sé þetta allt saman lífsreynsla og að hún sjái ekki eftir neinu.

Sjá einnig: Sara lýsir ofbeldissambandi með alræmdum handrukkara: „Ég var gjörsamlega í tætlum“

Ofangreint er aðeins brot af viðtalinu við Söru. Í þættinum ræða Sölvi og Sara um tímabilið þegar hún fór langt inn í Fitness-heiminn eftir að hún flutti til Bandaríkjanna og síðan frá skrautlegu líferni hennar með Rich Piana, sem oft var öðruvísi en það virkaði út á við. Sara lærir nú hjúkrunarfræði og hlakkar til næsta kafla í sínu lífi, eftir að hafa fengið margfaldan æviskammt af dramatík, eins og hún segir sjálf.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira