Skopmyndabók Steve Martin er eitt það besta við 2020

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Steve Martin gamanleikarinn góðkunni er orðinn 75 ára og sannar að það er aldrei of seint að reyna fyrir sér á nýju sviði. Martin er helst þekktur fyrir leik sinn í fjölmörgum gamanmyndum, en hann hefur einnig reynt fyrir sér í uppistandi, og sem rithöfundur, leikskáld og tónlistarmaður. Og nú var leikarinn að gefa út skopmyndabók.

Martin hóf nýlega samstarf með skopmyndateiknaranum Harry Bliss, sem teiknað hefur fyrir New Yorker. Kapparnir hafa nú skapað saman bókina A Wealth of Pigeons: A Cartoon Collection, sem kom út 17. nóvember. Bókin er 272 blaðsíður af teiknimyndum og teiknimyndasögum, og mun samstarfið hafa farið þannig fram að Martin baunaði út úr sér hugmyndum að textum og teikningum, sem Bliss teiknaði. Einnig má finna ýmsar athugasemdir í bókinni um þetta ólíklega, en skemmtilega samstarf.

„Þetta var alveg einstök reynsla,“ segir Martin um bókina og samstarfið í viðtali á CBS. „Þetta er nákvæmnisvinna, það er einnar sekúndu hlekkur milli myndar og orða, eða það er mynd án orða.“ Bliss bætti við: „Þetta er mjög hnitmiðað.“

Martin sagðist ekki hafa séð fyrir sér að hann myndi gefa út teiknimyndabók, hann hefði alveg nóg að gera í öðru.

Bliss og Martin unnu bókina hvor frá sínu heimili, Bliss í New Hampshire og Martin í New York. Tölvupóstar voru aðalsamskiptaformið þeirra á milli. „Ég til dæmis skrifaði til Harry eitthvað á borð við „geimskip,“ og hann svaraði mér „ég elska að teikna geimskip,“ segir Martin.

„Ég vakna frekar snemma, milli fimm og sex á morgnanna,“ segir Bliss. „Og þá var kannski tölvupóstur frá Steve sendur klukkan þrjú um nóttina. Og þá hló ég og bara „Ok hann hefur vaknað um miðja nótt með þessa hugmynd!“

Martin segir pressuna við bókaútgáfuna mun minni en að setja upp söngleik, líkt og hann gerði á Broadway árið 2016, eða fara sýningaferðalag, líkt og hann gerði nýlega með leikaranum Martin Short (og stefnir á að gera aftur). „Ef efnið fær okkur Harry báða til að hlæja, þá er það gott. Þetta er fyrsta gamanefnið sem ég hef gert sem treystir ekki á áhorfendur.“

Þrátt fyrir að bókin sé enn glóðvolg úr prentsmiðjunni, þá eru félagarnir þegar byrjaðir hugmyndavinnu að næstu bók.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira