Smitten íslenska stefnumóta-appið sem ætlar að vinna Tinder: Er munur á appelsínu og epli?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Smitten, nýtt stefnumóta-app, var kynnt til sögunnar í snjallsímum single-fólksins (og þeirra fráteknu sem vilja villa á sér heimildir) í gær.

Þrátt fyrir erlent nafn er appið alíslenskt, en það eru Ásgeir Vísir Jóhannsson hönnuður, Davíð Örn Símonarson framkvæmdastjóri og Magnús Ólafsson tæknistjóri sem standa að Smitten.

Í viðtali við Vísi í dag segjast þeir ekki ætla að ráðast á minnstu þúfuna í samkeppninni, heldur keppa við sjálfann risann í stefnumótaöppum, Tinder. Ólíkt Tinder, sem býður upp á lítið annað en að sópa til vinstri eða hægri, og senda skilaboð, með misdöprum árangri að mati undirritaðrar og allra vinkvenna hennar sem notast hafa við Tinder, lofa Smitten-menn meiru.

„Á Smitten verða fítusar sem koma og fara og tryggir því að það sé alltaf eitthvað spennandi að gerast fyrir nýja jafnt sem gamla notendur. Með því að fara út fyrir normið og nálgast „online dating,“ sem afþreyingu og skemmtun fyrir notendur, ætlum við að sprengja dyrnar af markaðnum. Með öðrum orðum, við ætlum að vinna Tinder,“ segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri Smitten í samtali við Vísi.

Mynd / Smitten.com

Heimaprófun á mánudagseftirmiðdegi

Undirrituð ákvað að sækja Smitten og jafnframt að benda einhleypum vinkonum, bæði þeim sem enn róa á Tinder og hinum sem hafa gefist upp og hent appinu út, að prófa Smitten.

Forritið sóttist eldsnöggt á Playstore og býður upp á að tengjast í gegnum Facebook. Þó að forritið sé alíslenskt eins og áður sagði eru þó upplýsingar þess á ensku.

Til að geta verið með þarf að fylla út prófíl eins og á öðrum sambærilegum öppum. Í tilviki Smitten þarf að svara ákveðnum fjölda spurninga, en alls komu 99 upp (má sleppa og fara yfir á næstu). „Ertu hrædd/ur við drauga“, „Ertu ævintýragjörn/gjarn“, „Finnst þér gaman að fara á tónleika,“ „Hefur þú sofið hjá fleiri en 10 einstaklingum“, „Horfirðu á íþróttir“, „Viltu lifa að eilífu“, eru á meðal nokkurra spurninga.

Notandi þarf að fylla út persónulegar upplýsingar Mynd / Skjáskot Smitten appið

Spurningalistar um búsetu, hæð, stjórnmálaskoðun, trúarskoðun, reykingar, drykkju og fleira fylgja í þremur liðum: auðveldar, miðlungs og erfiðar.

Fleiri listar eru í boði með alls konar viðfangsefnum, sem velja má og svara og láta birtast á prófílnum: „Heimilisstörf sem ég þoli ekki“, „Draumastörf“, „Uppáhalds kynlífsstellingar“, „Lönd sem mig langar að heimsækja“, og „Uppáhalds stjórnamálamenn“, eru bara nokkur dæmi.

Dæmi um lista Mynd / Skjáskot Smitten appið

Síðast en ekki síst þarf að setja inn minnst þrjár myndir, Smitten valdi prófílmyndina af Facebook, en notandi þarf að taka hinar 2 eða velja af myndum sem hann á til fyrir. Undirrituð valdi að sjálfsögðu 2 myndir úr albúminu, þar á meðal aðra þegar reynt var að veiða menn á stöng í miðbænum, því guð forði notendum frá ef myndirnar væru teknar í rauntíma, það er jú COVID og kona ótilhöfð í heimavinnu. Skal lofa að hafa mig til fari svo ólíklega að boð komi um stefnumót!

Sjö daga viðbragðstími

Þegar kemur að því að skoða notendur þá blasir við:

„Fresh faces“ er efsta val og má þar sjá nýjustu notendur af hinu kyninu, sem margir hafa langa fjöruna sopið í heimi einhleypra.

Fyrir neðan er svo „The Market“ sem tikkar á klukku sem telur niður. 100 notendur koma upp sem velja má á milli, á hverjum klukkutíma má bæta 10 nýjum notendum við.

Ólíkt Tinder þar sem notandi getur fengið „match“ við annan notanda og safnað fjölda slíkra án þess að senda viðkomandi nokkurn tíma skilaboð, eða svara fái viðkomandi skilaboð, þá er aðeins sjö daga rammi í að stofna til kynna á Smitten.

„Ef þú svæpar manneskju, sem þýðir að þú hafir áhuga, og hún segist hafa áhuga á þér til baka, verður til tenging sem lifir í sjö daga. Í þessa sjö daga getið þið spjallað saman, spilað leiki og kannað hvort að einhver neisti kviknar og þá ákveðið að framlengja spjallið. Ef spjall er ekki framlengt, þá hverfur tengingin,“ segir Davíð Örn.

Mynd / Skjáskot Smitten appið

Hvort sem tilgangurinn með notkun Smitten er að blaðra umhugsunarlaust við annan einstakling í eina kvöldstund, bjóða á stefnumót eða til einnar nætur kynna, eða finna hina einu réttu/hinn eina rétta, þá er ljóst að notendur verða að hafa hraðari hendur en á Tinder. Smitten menn lofa þó að þetta verði gaman.

„Smitten eru vængirnir þínir sem einhleyp manneskja. Það á að vera gaman að vera single og þú átt að elska að nota uppáhalds deiting-appið þitt. Það er gaman að skoða fólk og það er spennandi að velja einhvern og sjá hvort að hann eða hún hafi valið þig til baka. Við spyrjum okkur alltaf sömu spurningar áður en við tökum ákvörðun um að bæta einhverju nýju við í appið: Er þetta fáránlega skemmtilegt?“

„Jesús minn þetta er sama stöffið alls staðar 🤣,“ voru orð einnar vinkonu sem skráði sig á Smitten nú í kvöld.

„Í versta falli finnurðu ástina í lífi þínu,“ segir á vefsíðu Smitten, sem líka lofar að notendur fái eitt „match“ á dag, bara svona af því að appið elskar mann. „Við meira að segja pökkum því inn,“ segir ennfremur. Ekki amalegt á COVID-tímum, enda appið löngu komið með allar upplýsingar um mann, þar á meðal heimilisfangið, þrátt fyrir að þjóðskrá sé ekki með það, af því að rafrænu skilríkin duttu út hjá Íslandsbanka……..sem er samt allt önnur saga.

Við fyrstu sýn lofar Smitten góðu, fullt af álitlegum mönnum sé einungis miðað við myndir af þeim, en margir þeirra hafa eins og undirrituð áður notast við stefnumóta-öpp, ýmist til lengri eða styttri tíma. Hvort Smitten vinnur Tinder á eftir að koma í ljós, en við vonum klárlega að svo verði er það ekki? Íslenskt er jú best í heimi hvort sem það er hugvit, hitt kynið eða snjallsímastefnumótaapp.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Alma og Joey Christ og eiga von á barni

Parið Alma Gytha Huntingdon-Williams, jarðfræðingur, og Jóhann Kristófer Stefánsson, útvarpsmaður og rappari, eiga von á barni.Jóhann, sem...