Þjóðargersemin Ómar Ragnars er áttræður í dag: „Einn af demöntum í kórónu lífs míns“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ómar Þorfinnur Ragnarsson, fjölmiðlamaður með meiru, er áttræður í dag.

Ómar hefur á löngum ferli sínum starfað sem fréttamaður, skemmtikraftur, rithöfundur, flugmaður, lagasmiður og baráttumaður fyrir verndun náttúru og menningar.

Ómar varð fjórum sinnum Íslandsmeistari í rallakstri, árin 1975 til 1984 aásamt Jóni Ragnarssyni bróður sínum.

Ómar er frumkvöðull þegar kemur að skemmtanahaldi, en hann var með fyrstu skemmtikröftum sem sömdu allt sitt efni sjálfir. Ómar hefur gefið út eigin tónlist.

Sjónvarpsáhorfendur sem komnir eru á aldur muna vel Stiklur, sjónvarpsþætti Ómars, þar sem hann ferðaðist um landið aðallega á níunda áratugnum. Síðar gerði hann nýja stikluþætti með dóttur sinni Láru.

Ómar stofnaði Sumargleðina ásamt Ragnari Bjarnasyni árið 1971, en sveitin fór um landið á hverju sumri við feikna vinsældir til ársins 1986. Frá 1980 var Sumargleðin einnig haldin í Reykjavík á haustin og stundum fram í desember, fyrst á Sögu og síðan á Broadway. Helstu meðlimir Sumargleðinnar voru Ragnar og hljómsveit, Ómar, Bessi Bjarnason, Karl Guðmundsson eftirherma, Magnús Ólafsson, söngkonurnar Þuríður Sigurðardóttir og Sigrún Hjálmtýsdóttir, Halli og Laddi, Hermann Gunnarsson og Þorgeir Ástvaldsson.

Ómar var valinn maður ársins 2003 og 2006 hjá Rás, sama ár var hann maður ársins hjá tímaritinu Mannlíf og fréttastofu Stöðvar 2.

Síðast er alls ekki síst er Ómar eiginmaður, faðir, afi og langafi. Ómar giftist Helgu Jóhannsdóttur árið 1961 og eiga þau sjö börn. Börn þeirra Alma, Lára og Þorfinnur hafa unnið við fréttir og fræðslu.

Ómar, ásamt Láru dóttur sinni og Helgu dóttur Láru.

Ómar í áramótaskaupinu árið 1967, ásamt Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Þuríði Sigurðardóttur, Birgi Karlssyni og Magnúsi Ingimarssyni

Fjöldi þjóðþekktra einstaklinga óska Ómari til hamingju og bera honum vel söguna í færslum á Facebook.

„Einn af demöntum í kórónu lífs míns, það er Ómar Ragnarsson,“ segir Bubbi Morthens tónlistarmaður.

„Það verður landsmönnum ávallt ráðgáta hvernig hann hafði tíma til að semja Ligga-ligga-lá, Lok-lok-og-læs, Lax-lax-lax, Limbó-rokk, Litla jólabarn, Bítmúsík, Bítilæði, Bróður minn, Bar’að hann hangi þurr, Jóa útherja, Jón tröll, Jólin koma, Mér er skemmt, Minnkinn í hænsnakofanum, Ó Grýlu, Óla drjóla eða Óbyggðaferð — svo fáein sönglög séu nefnd — á meðan hann var frétta- og þáttagerðarmaður, skemmtikraftur, flugmaður, rallökumaður, aðgerðarsinni og sjö barna faðir! Ómar er ofurmenni,“ segir Stefán Hilmarsson tónlistarmaður.

Jón Ólafsson tónlistarmaður segist bugta sig og beyga fyrir afmælisbarni dagsins:

„Þúsundþjalasmiðurinn Ómar Þ.Ragnarsson er 80 ára í dag. Hann er ótrúlegur hæfileikamaður sem hefur barist fyrir verndun íslenskrar náttúru; gert heimildamyndir sem eiga sér fáar hliðstæður, samið texta sem þjóðin er löngu búin að festa í minni, gert lög af ýmsum gerðum (án þess að spila á hljóðfæri), fært okkur fréttir af mönnum og málefnum, skemmt kynslóðum um áratuga skeið með gamanefni og sprelli ýmiskonar og svona mætti lengi telja. Ómar er merkilegur maður sem á skilið vegtyllur, orður, athygli, hrós, klapp á bakið, koss á kinn, vinalegar kveðjur og þakkir fyrir sitt ómetanlega framlag. Til hamingju með daginn kæri. Ég bugta mig og beygi.“

Ómar Ragnarsson

Katrín Oddsdóttir lögfræðingur upplýsir að Ómar sé eini maðurinn sem hún hafi hringt í upp úr þurru til að þakka honum fyrir.

„Hér með upplýsisist að hann er eini maðurinn á Íslandi sem ég minnist þess að hafa hringt í upp úr þurru bara til þess að eiga grúppíulegt móment þar sem ég þakkaði honum óðamála fyrir baráttuna fyrir náttúruna. Þá þekkti ég hann ekki neitt, en hann hafði stuttu áður boðið þingfólki í flug yfir Kárahnjúkasvæðið til þess að veita þeim hina hlið málsins, en þeim hafði áður verið boðið af einhverju stóriðjubatteríi í svaka fínan útsýnisrúnt og veitingar. Ómar gat bara gefið þeim samlokur og sannleikann.

Seinna sátum við Ómar svo saman í stjórnlagaráði og ég gleymi aldrei hvað hann var ánægður með náttúruverndarákvæði nýju stjórnarskrárinnar. Nú er dagur náttúru Íslands, afmælisdagur Ómars sem sýnir að stundum áttar þjóð sig á því hvað einstaka einstaklingar hafa unnið henni mikið gagn áður en þeir eru farnir yfir móðuna miklu.

Þegar ég hitti Ómar í fyrra sagði hann eitt sem situr í mér. Hann var að tala um þau rök, sem stundum heyrast, að ástæða þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 sé hunsuð sé sú að þátttaka í atkvæðagreiðslunni hafi ekki verið nægileg (49% tóku þátt).

Ómar sagði að ef þessi rök ættu að halda hefði:
– Enginn forseti Bandaríkjanna hefur verið réttkjörinn.
– Ísland væri ekki fullvalda þjóð, því um 44% tóku þátt í fullveldisatkvæðagreiðslunni 1918.
– Áfengisbannið væri enn í gildi, vegna þess að þegar greidd voru atkvæði um afléttingu á því árið 1937 tóku 45% þátt. Stundum er hressandi að skoða aðeins stóra samhengið.

Öllum þessum árum síðar, er ég í öllu falli ennþá grúppían hans Ómars (meira að segja líka þegar börnin krefjast þess að hlusta á „lok, lok og læsi og allt í stáli“ í hundraðasta skipti í bílnum). Til hamingju með afmælið elsku Ómar og takk fyrir allt.

„Ég elska orkuna sem Ómar er – stöðugt á hreyfingu með fallegt hjartalag,“ segir Ellý Ármanns athafnakona.

„Það er og verður aðeins einn Ómar. Þjóðargersemi,” segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV.

Gunnar Þorsteinsson, oft kenndur við Krossinn, segir: „Þessi maður er þjóðargersemi og hann á afmæli í dag. Guð blessi Ómar Ragnarsson.“

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur segir að Ómar sé sannkölluð fyrirmynd og náttúrukraftur.

„Fjöllistamaður og baráttumaður fyrir betri jörð – alltaf jákvæður og góðviljaður. Hann er glöggur maður með stóra sýn sem stöðugt spyr spurninga, rannsakar og uppgötvar. Það er mikill heiður að ganga með honum götuna. Og að vinna með honum í gamla daga á Stöð tvö var alltaf lærdómur og gleði. Við deilum dálæti á allskonar sniðugum jeppum og þá sérstaklega súkkum. Til hamingju með daginn þinn, kæri Ómar, og til hamingju með Dag náttúrunnar, allir! Gerum betur.“

Heimildarmynd um baráttu Ómars gegn virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka verður sýnd á RÚV í kvöld. Ómar barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunnar og gaf út bókina Kárahnjúkar – með og á móti árið 2006. Að kvöldi 26. september sama ár leiddi hann ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Ómar stóð fyrir pólitískum flokki; Íslandshreyfingin, í baráttu sinni fyrir umhverfisvernd. Í tengslum við sjötugsafmæli hans 2010 ákvað ríkisstjórnin að gera afmælisdag hans 16. september að Degi íslenskrar náttúru.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira