Hraunað yfir Helgu dóttur Ölmu landlæknis

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Helga Kristín Torfadóttir, doktorsnemi í jarðfræði, lenti á milli tannanna á fólki í vikunni vegna viðtals sem hún veitti á Vísir.is. Tilefnið var lágflug Boeing 747 flugvélar Air Atlanta yfir borginni á mánudag. Félagið fékk leyfi til að fljúga vélinni yfir höfuðstöðvar sínar í Kópavogi fyrir lendingu í Keflavík, flugið vakti hins vegar óhug margra íbúa í Kópavogi þar á meðal Helgu Kristínar.

„Mitt mat á hæð flugvélarinnar miðað við húsið mitt var að hún var svona 20 til 30 metrum fyrir ofan húsþakið mitt,“ segir Helga Kristín, í viðtalinu við Vísi. „Ég var rosa hrædd sko og mér fannst eins og hún væri í alvöru að fara að stefna á húsið mitt.“

„Ég fékk ekkert boðskort um að það væri verið að fljúga hérna yfir og það var gjörsamlega ekki skemmtilegt frá minni hlið og annarra sem ég hef heyrt. Þetta var bara „traumatæsing“.“

Virkir í athugasemdum voru fljótir að taka við sér og skrifa niðrandi orð um Helgu Kristínu og upplifun hennar.

„Eitthvað hefur farið útskeiðis í uppeldinu þarna,“ skrifar einn. Sá hefur líklega ekki áttað sig á því frekar en aðrir að Helga Kristín er dóttir Ölmu Möller landlæknis, sem er ein þríeykisins sem hefur staðið í eldlínunni síðustu mánuði í COVID-19 faraldrinum og brýnt fyrir okkur góða siði og venjur. Hefur Ölmu meðal annars verið ítrekað hrósað fyrir að hún hefji sitt mál alltaf á að hrósa öðrum og benda á það sem vel er gert.

„Ég fékk ekkert að vita áður en síminn minn hringdi i gær, fékk alveg hland fyrir hjartað, brá svo rosalega, menn verða bara fara senda sms fyrst,“ segir annar. „Bómullarkynslóðin að fá áfall yfir að sjá flugvél í lágflugi,” skrifar einn.

„Æ andskotinn, það keyrði vörubíll hérna framhjá rétt áðan, allt nötraði og skalf. Ég man ekki eftir að hafa fengið boðskort um það!,“ skrifar annar. „Stelpuræfillinn, það verður ekki auðvelt lífið hjá henni ef það er þetta sem koma skal í framtíðinni hjá henni,“ skrifar sá þriðji.

Íbúi á Suðurnesjum nær að samtvinna jákvæðni um leið og hann skilur ekkert í þessu tuði: „Einn íbúa andskotans væll er þetta í fólkinu á Höfuðborgarsvæðinu. þetta er daglegt brauð hérna á Suðurnesjunum og ekki kvörtum við. lítum bara frekar jákvætt á þetta að í það minnsta einhverju fyrirtæki gengur vel á þessum erfiðu tímum.“

Meðal annars er gert grín að menntun Helgu og háskólamenntun almennt: „Sammála fréttum í dag um að háskólamenntun er ofmetin! Jarðfræðingur sem hefur ekki betra fjarlægðarmat en það að meta flugvél sem var í 1500 fetum í umferðarhring aðeins 20-30 metrum ofan við húsið sitt þarf að taka einhver próf aftur. Það vantar eitthvað mikið þarna!”

Fréttadeild Vísis tók greinilega til í athugasemdum, og hefur því eytt út slíkum sem voru dónalegri en þær sem hér eru að ofan og þær sem enn má lesa undir fréttinni. „Nokkur ómálefnaleg eða dónaleg innlegg við þessa frétt hafa verið fjarlægð. Við biðjum fólk um að sýna kurteisi í ummælum sínum.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira