Eins og stórt heimili þar sem fjölbreytileikinn fær að blómstra

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi og framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs, segir enga tvo daga vera eins í Hlutverkasetri. Hún lýsir setrinu sem stóru heimili þar sem léttleiki ræður ríkjum.

„Hlutverkasetur er opin vinnuvirknimiðstöð sem býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæði sín. Hlutverkasetur er opið fyrir alla en það fólk sem kemur hingað hefur gjarnan lent í einhverju áfalli eða erfiðleikum og er af einhverri ástæðu ekki alveg á þeim stað sem það vill vera á,“ segir Elín Ebba, alltaf kölluð Ebba, þegar hún er spurð út í hvað Hlutverkasetur sé.

Hún segir Hlutverkasetur vera góðan stað fyrir þá sem til að mynda eiga á hættu að einangrast. „Hér sameinast fólk úr öllum áttum í alls konar frábærri iðju,“ segir Ebba. Hún tekur listsköpun, myndlist, dans, jóga, sjósund, söng og leiklist sem dæmi yfir iðjur sem eru stundaðar í setrinu.

„Þrátt fyrir erfiðleika er alltaf hægt að hafa húmorinn að vopni og sjá ljósu punktana. Við þurfum jákvæðni til að geta tekist á við áskoranir.“

Ebba segir að í Hlutverkasetri skapist gott tækifæri fyrir fólk að finna út hvar styrkleiki þess liggur og að fólk ráði ferðinni sjálft. „Fólk velur sjálft hvaða iðju það vill stunda og hversu lengi. Hérna er þess ekki krafist að fólki hafi ákveðinn bakgrunn til að taka þátt og það andar enginn ofan í hálsmálið á neinum,“ útskýrir Ebba. Hún segir léttleika og gleði í bland við svolitla óreiðu ráða ríkjum í Hlutverkasetrinu. „Við fylgjum fastri dagskrá hérna en svo eru haldnar alls konar skemmtilegar uppákomur í bland þannig að enginn dagur er eins. Hér ríkir skemmtileg óreiða og óformlegheit.“

Með húmorinn að vopni

Ebba segir það að hafa eitthvað hlutverk í lífinu vera lykilinn að góðri geðheilsu. „Við þurfum öll að hafa eitthvað hlutverk og það vilja allir vakna, hafa eitthvað fyrir stafni, tilheyra hóp og vera einhvers virði.“

Hún segir alla þátttakendur geta fundið sér hlutverk innan setursins. „Við leggjum upp úr því að hér hjálpist allir að til að staðurinn fúnkeri. Svo leggjum við áherslu á að hérna sé gaman en án þess að gera lítið úr vandamálum fólks. Þrátt fyrir erfiðleika er alltaf hægt að hafa húmorinn að vopni og sjá ljósu punktana. Við þurfum jákvæðni til að geta tekist á við áskoranir.“

Eins og stórt heimili

Ebba lýsir Hlutverkasetri sem stóru heimili. „Hérna er alltaf eitthvað spennandi að gerast og fjölbreytileikinn fær að blómstra,“ segir hún.

Ebba segir lífið og tilveruna í Hlutverkasetri vera gefandi. „Hérna er vettvangur fyrir fólk að líta í eigin barm og minna sig á að við erum bara öll manneskjur og eigum alltaf eitthvað sameiginlegt með næsta manni. Maður er svo oft með fyrir fram ákveðnar hugmyndir um fólk og dæmir það. Ég get verið fordómafull sjálf,“ segir hún og hlær. „Það segir manni bara hvað maður getur verið mikill vitleysingur. Hérna er alltaf verið að minna mann á að fólk er alls konar og getur alltaf komið á óvart. Fjölbreytileikinn er skemmtilegastur.“

Áhugasamir geta kynnt sér starfsemi Hlutverkaseturs nánar á vefnum hlutverkasetur.is.

Viðtalið er að finna í blaði Geðhjálpar

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira