„Ekkert okkar kemst áfallalaust í gegnum lífið“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Áföll snúast um upplifun hvers og eins. Það sem einn getur upplifað sem risastórt áfall siglir annar í gegnum, þetta snýst alltaf um hvaða spor sitja eftir í líkama okkar og heila eftir áfall. Það hvort áfall skilur eftir sig þessi spor eða ekki fer eftir hvernig við vinnum úr áfallinu. Líkt og með líkamleg áföll, það hvernig brotinn fótur grær fer eftir því hvernig búið er um brotið,“ segir Lilja Sif Þorsteinsdóttir, sálfræðingur hjá Hæfi og formaður Snarrótarinnar, sem sérhæft hefur sig í að vinna með áföll, langvarandi verki, langvinnan heilsubrest og fólk með sögu um fíknivanda.

„Skilgreiningin á áfalli hefur löngum verið „atburðir sem hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir eigin velferð og öryggi, eða velferð og öryggi nánustu ástvina,“ segir Lilja. „Það getur þó verið nokkuð misvísandi. Við höfum áttað okkur betur og betur á því að það eru ekkert endilega bara stóru hlutirnir eins og snjóflóð eða líkamsárásir sem geta skilið eftir sig djúp spor í mannslíkamanum. Áfall getur verið hvað sem er sem veldur því að einstaklingur missir stjórnina og upplifir hjálparleysi, varnarleysi eða umkomuleysi. Í enskri tungu er orðið „trauma“ notað yfir áfall. Orðið „trauma“ merkir í bókstaflegri þýðingu áverki og er í raun meira réttnefni því að það eru ekki atburðirnir sjálfir sem við vinnum með, heldur sporin sem sitja eftir í líkama og heila viðkomandi.“

Lilja segir að sárin á sálinni fylgi sömu lögmálum og líkamlegu sárin. „Ekkert okkar kemst áfallalaust í gegnum lífið en það hvort að áfallið grói rétt veltur á því bæði hversu alvarlegt áfallið er og ekki síður hvernig búið er um sárið eftir á. Við getum, sem dæmi, fengið ljót líkamleg sár, en fáum við rétta meðhöndlun, til dæmis ef sárið er hreinsað og saumað eða að brotin bein séu sett í gips, þá getur sárið gróið eins vel og það hefur tækifæri til miðað við alvarleika. Auðvitað skilja sum sár alltaf eftir sig ör og í sumum örum situr jafnvel smávegis sársauki eftir öðru hverju alla tíð. En sárið sjálft, ef meðhöndlunin hefur verið rétt, hefur náð að gróa á réttan hátt. Ómeðhöndluð sálræn áföll lúta sömu lögmálum. Ef ekki er búið rétt um þau þá eru ekki forsendur til að þau grói rétt. Því er það oft sem fólk kemur með illa gróin sár, jafnvel áratuga gömul, í meðferð til mín eða annarra meðferðaraðila,“ segir hún.

Sársauki varnarviðbragð líkamans

„Það er sárt að lenda í áfalli, líkt og þegar þú brýtur á þér fótinn þá er það sárt. Fólk upplifir oft doða í fyrsta því það tekur tíma að átta sig á því að áfallið hafi gerst, að maður hafi orðið fyrir áfallinu. Svo, þegar þessari aftengingu sleppir geta hlutirnir farið að hellast yfir mann í tíma og ótíma, endurlit áfallsins getur komið yfir mann hvenær sem er og það er sárt. Svefnerfiðleikar eru mjög algengir, martraðir og vondir draumar, sem eru þó af hinu góða, því draumsvefninn okkar, REM-svefninn, tengist mjög tilfinningalegri úrvinnslu og það hefur verið sýnt fram á að þeir sem ná að dreyma um erfiða atburði eftir að þeir gerast, eru í minni áhættu á að þróa með sér áfallastreituröskun,“ segir Lilja.

„Sársauki er varnarviðbragð mannslíkamans, sem við fáum gagngert til þess að við hlífum særða líkamshlutanum og það er eins með andlegu sárin og þau líkamlegu að við byrjum oft að „haltra“ eða með öðrum orðum, að hegða okkur á annan hátt en við áður gerðum til að forðast það að ýfa upp sárið. Þetta getur komið út í alls konar hegðunarbreytingum. Fólk sem áður átti auðvelt með að treysta, mun eiga erfitt með það, fólk sem áður var mannblendið forðast það að hitta aðra og svo framvegis. Þetta eru eðlileg viðbrögð við þeim sársauka sem fólk upplifir og því er enn mikilvægara að átta sig á því að til að endurheimta lífsgæði sín þurfi að meðhöndla sárið.“

„Sum sár eru bara þess eðlis að við náum ekki að vinna úr þeim ein og sér, við þurfum að hafa hjá okkur fólk og að fá samkennd í sársauka okkar.“

Áfall getur haft fleiri áhrif í för með sér eins og kvíða, þunglyndi, skapsveiflur og einbeitingarerfiðleika að sögn Lilju. „Maður setur bíllyklana í ísskápinn og man ekki eftir að sækja krakkana á leikskólann. Allt þetta eru dæmi um týpísk áfallaviðbrögð og fólk verður bara að sýna því skilning. Þetta er ferli til að sárin grói og það verður að leyfa því að eiga sér stað.“

Tekur tíma að jafna sig

Lilja segir að sem betur fer sé líkaminn hannaður þannig að hann vilji gróa sára sinna, hvort sem það eru líkamleg eða andleg sár. „Því snýst þetta svolítið um að skapa þær aðstæður að hann geti það. Það tekur tíma að jafna sig og við myndum aldrei fara og stíga í brotinn fót af því við vitum að það tekur nokkrar vikur fyrir hann að gróa í gifsi. Á sama hátt eigum við ekki að pína okkur til að jafna okkur á áfalli,“ segir Lilja.

Hún segir að mikilvægt sé að halda rútínu þegar unnið sé úr áfalli, passa upp á svefn, hreyfingu og að borða, og einnig að viðhalda tengslum. „Svefninn er númer eitt, tvö og tíu. Til er bók sem heitir Af hverju sofum við? sem ég mæli heilshugar með. Þú lagar ekkert ef svefninn er í ólagi, hann hefur áhrif á öll kerfi líkamans til hins betra eða til hins verra. Ég veit að þetta er klisja, en að hreyfa sig er kraftaverkalyf, það að fara út að ganga eða hlaupa það er betra ráð en margir átta sig á,“ segir Lilja og bætir við að mikilvægt sé að viðhalda tengslum og það versta sem fólk geti gert sé að loka sig af og ræða ekki áfallið, það valdi því að áfallið „lokist inni“ hjá viðkomandi.

„Þú getur gert heilmikið einn, en af því að við erum svo miklar félagsverur þá snýst þetta um að vera séður í sínum sársauka og að fá áheyrn, að fá að segja sinn sannleika og fá að vita að það er allt í lagi að líða eins og manni líður. Ef þú lendir í erfiðri reynslu og þú lokar hana innra með þér, ertu ekki í sérstaklega góðum málum.“

Lilja segir að mikilvægt sé að einstaklingurinn sem lendir í áfalli fái og gefi sjálfum sér tíma til að verða heill og að hann sýni sjálfum sér skilning og samkennd. Mikilvægt sé að gefa sér rými til að vinna úr áfallinu og á sama hátt er mikilvægt að þeir sem standa viðkomandi næst gefi honum tíma og rými og átti sig á því að það að þrýsta á viðkomandi að vera kominn lengra en hann er í batanum, sé líklegt til að flækja bataferlið.

„Áfall snýst alltaf í grunninn um að viðkomandi missir stjórn, þannig að til að vinna úr því þá þarf hann að vera við stjórnvölinn. Það er gott að ræða atburðinn þegar þú kýst, við þá sem þú kýst. Þér má líða eins og þér líður, þú hefur rétt á þínum tilfinningum og líðan, en það er ekki þar með sagt að þú hafir rétt á hvernig hegðun sem er. Maður þarf rými og öryggi til að geta gróið sára sinna. Gott ef aðrir búa til einskonar rými, þar sem hægt er að ræða hlutina á þess að beita þrýstingi, bara láta viðkomandi vita að maður er til staðar, að hlusta án þess að ætla að koma með lausnir.“

Lilja bætir við að ef einstaklingur sem lendir í áfalli býr ekki að tengslaneti hjá fjölskyldu og/eða vinum, þá sé mikilvægt að finna sér samfélag, þar sem viðkomandi fær tækifæri til að vaxa.

Tengslanetið skiptir máli

Lilja segir tengslanetið eitt það mikilvægasta sem einstaklingur búi að, þar sem við erum í grunninn félagsverur og hjarðdýr. „Tengingin á milli okkar mannkynsins sést ekki en hún er mikið til staðar og það þarf ekki nema eitt jákvætt eða neikvætt orð frá einhverjum þá fer allt af stað í líkamanum á okkur þannig að við erum ofboðslega samtengd. Þetta skiptir máli þegar kemur að atvikum sem þarf að melta, við þurfum hjálp við að melta þau og það gerum við með öðru fólki. Sum sár eru bara þess eðlis að við náum ekki að vinna úr þeim ein og sér, við þurfum að hafa hjá okkur fólk og að fá samkennd í sársauka okkar,“ segir Lilja.

Það sé af þeim sökum þekkt að sár af mannavöldum, og sérstaklega sár af völdum þeirra sem þú áttir að geta treyst og reitt þig á, séu annars eðlis en til dæmis náttúruhamfarir. „Þegar um náttúruhamfarir er að ræða kemur samfélagið oft saman í sorg sinni og ef þú lendir í bílslysi er líklegt að þú fáir stuðning fólksins þíns. En ef áfallið er hins vegar tilkomið af hendi þeirra sem standa þér næstir er sárið tvöfalt, því heggur sá er hlífa skyldi, og allt í einu stendur maður uppi einn með sársaukann sinn og skjólið er farið.“

Lilja bætir við að ef einstaklingur sem lendir í áfalli býr ekki að tengslaneti hjá fjölskyldu og/eða vinum, þá sé mikilvægt að finna sér samfélag, þar sem viðkomandi fær tækifæri til að vaxa. „Staðir eins og Hugarafl og Bergið Headspace, kórastarf þar sem þú ert að syngja með og samstilla þig með einhverjum, dans og söngur þar sem þú nýtir rytmíska hreyfingu, möntrukvöld, leikfélög og fleira. Það er mikilvægt að finna sér samfélag sem samþykkir þig eins og þú ert.“

Mikilvægt að hlúa að öruggum tengslum barna

Máltækið segir: „Lengi býr að fyrstu gerð“ og það á einnig við hér því Lilja segir að atvik úr æsku einstaklings geti haft mikil áhrif á alla ævi hans. „Ég vinn oft með atvik úr æsku fólks sem haft hafa risastór áhrif á viðkomandi alla ævina, atvik sem utan frá séð líta voða hversdagslega út. Bara það að lesa upp fyrir bekkinn eða týnast frá foreldrum í nokkrar mínútur getur haft mikil áhrif og setið lengi í fólki. Lítil atvik geta setið í börnum og þá er svo mikilvægt að búið sé til þannig umhverfi að barnið geti rætt atvikið og því sé hjálpað að melta það.“

Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir slík atvik? „Þetta er kannski ekki spurning um að koma í veg fyrir slík atvik því við munum alltaf detta og hrufla á okkur hnéð og við munum alltaf lenda í erfiðum atburðum. Það er hluti af lífinu að detta og meiða sig og læra á sársaukann sem af því hlýst. Það sem skiptir máli er það hvernig umhverfi barninu er búið svo að áverkinn grói vel. Hvernig sárið er meðhöndlað. Hvort sem barnið datt af hjólinu eða var skilið út undan í skólanum. Kemur það heim í opna arma, hlýju og skilning og fær þau skilaboð að það sé mikilvægt, að tilfinningar þess skipti máli, eða fær það þau skilaboð að sársauki þess og upplifun sé á einhvern hátt óviðeigandi? Fyrri viðbrögðin samsvara því að hreinsa sárið og setja plástur, sem hlífir þá sárinu og gefur því rými til að gróa, seinni viðbrögðin samsvara því að lemja í sárið og gera það verra.

Ef barn á foreldra sem eru næmir á þarfir þess og bregðast við á viðeigandi hátt þá nær barnið frá fyrstu stundu að mynda það traust til foreldranna að þeir verði til staðar og hugsi um það og beri hag þess fyrir brjósti. Barnið veit að foreldrarnir taka því vel og það getur rætt áföll við þá og ber síðan áfram þetta traust til annarra. Það er á ábyrgð foreldra að búa til þetta umhverfi og það eru alltaf foreldrarnir sem eru leiðandi í þessari vinnu að búa til umhverfið þar sem börnum finnst þau örugg.“

Erfiðleikar geta erfst kynslóð fram af kynslóð

Lilja segir að það geti haft áhrif á börn ef foreldri þess verður fyrir áfalli sem það vinnur ekki úr. „Millikynslóðasmit er staðreynd og rannsóknir sýna að óunnin atvik eða áföll foreldris munu koma fram í tengslum þess við barn sitt. Allir foreldrar gera sitt allra besta, en þeir hafa samt það veganesti sem þeir hafa frá sinni barnæsku. Ég nota stundum líkindi um nesti; þú getur ekki gefið barni betra nesti en þú átt til á heimilinu. Því er svo mikilvægt, ef foreldrar eru með óunnin áföll eða tilfinningalega erfiðleika, að þeir vinni með það, svo þeir beri ekki eigin sár áfram til barnsins síns.

Aldur barns skiptir máli. Heilinn þroskast í ákveðinni röð, rétt eins og annað í líkamanum, svo að rannsóknir hafa sýnt fram á mismunandi birtingarmyndir í hegðun barna eftir því hvers konar atlæti þau fá á mismunandi þroskaskeiðum,“ segir Lilja.

„Ég vinn oft með atvik úr æsku fólks sem haft hafa risastór áhrif á alla ævina, atvik sem utan frá séð líta voða hversdagslega út.“

„Á fyrstu tveimur til þremur æviárunum er lagður grunnurinn að andlegri og líkamlegri heilsu barns sem eftir er lífsins. Afkvæmi mannsins fæðast fyrir tímann miðað við önnur spendýr og við þurfum að taka út mikið af heila- og taugaþroska okkar fyrir utan það verndaða umhverfi sem móðurkviður er,“ segir Lilja og bætir við að rannsóknir sýni að mikilvægt sé að foreldrar séu næmir á þarfir barnsins og bregðist við með viðeigandi hætti. „Það er á þessum fyrstu tveimur til þremur árum sem tilfinningastöðvar okkar eru að þroskast. Fram að þessum aldri hafa börn hreinlega ekki líkamlega getu til að róa sig sjálf niður og því þurfum við á eldra og þroskaðra taugakerfi að halda til að tengja okkur við og róa okkur niður. Ef af einhverjum orsökum það eldra eða þroskaðra taugakerfi sem um ræðir, foreldrið, er ekki í jafnvægi sjálft, þá mun barnið ekki ná jafnvægi. Sé þetta viðvarandi ástand á þessum fyrstu árum mun þroski tilfinningastöðva okkar taka mið af því og barnið fær tilhneigingu til kvíða, þunglyndis eða annarra tilfinningalegra erfiðleika síðar á lífsleiðinni.“

Aldrei of seint að takast á við málin

Lilja tekur fram að börn séu næm á líðan og hegðun foreldra sinna. „Börn eru framlenging af foreldrum sínum, sérstaklega fyrstu vikurnar, mánuðina og árin. Ef það eru einhverjar raskanir á tengslamyndun við foreldri þá getur það sést á börnum frá sex vikna aldri, reyndar byrjar þetta að skipta máli strax í móðurkviði. Börn finna ef foreldri er undir álagi eða er að eiga við erfiða hluti. Barnið mun finna breytinguna á foreldri og það getur skilað sér í hegðunarerfiðleikum hjá barninu.“

Ef foreldri verður fyrir áfalli segir Lilja mikilvægt að leyfa barninu að vera með í hlutunum og útskýra fyrir því og svara spurningum þess miðað við aldur barnsins. „Það erum við fullorðna fólkið sem kennum börnum að umgangast tilfinningar sínar. Ef álagstímar eru í fjölskyldunni þar sem barninu er haldið fyrir utan það, hefur það engan grundvöll til að melta það sem er í gangi. Að auki eru börn með mjög sterkt ímyndunarafl. Þau finna að það er eitthvað ekki eins og það á að vera og ef þau fá engar upplýsingar geta þau farið að ímynda sér alls konar hluti og geta fengið alls konar ranghugmyndir – jafnvel að hlutirnir séu mun verri en þeir eru í raun. Alveg eins og með okkur fullorðna fólkið, snýst þetta um öryggi og fá að vera með í hlutunum og vera hluti af fjölskyldunni.

Tilfinningalegt jafnvægi foreldris stýrir tilfinningalegu jafnvægi barnsins, og þetta er á meðan heili barnsins er að þroskast og mótast, og þannig geta áföll og tilfinningalegir erfiðleikar erfst kynslóð fram af kynslóð, ef vítahringurinn er ekki brotinn og sárin grædd. En það er hægt að brjóta þennan hlekk með því að græða sárin sín, þekkingunni fleygir fram, og sálfræðileg aðstoð og þekking er í boði.“

Lilja segir að það sé aldrei of seint að ráðast í þessa vinnu. „Að græða eigin sár er að sjálfsögðu engin gulltrygging fyrir því að maður nái að græða tengsl við uppkomið fólk, sem hefur þá kannski sín eigin sár sem gætu komið í veg fyrir tengingu, en með því að vinna í eigin tilfinningalífi öðlast fólk alltaf betri tengingu við sjálft sig, sem er svo forsenda þess að maður geti tengst öðrum á heilbrigðan hátt og notið þeirra lífsgæða sem við eigum möguleika á.“

Viðtalið er að finna í blaði Geðhjálpar.

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira