Íslensk tónlistarveisla til að njóta í sumar

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Norræna húsið býður upp á tvennar tónleikaraðir í sumar, Pikknikk- tónleika á sunnudögum og Sumartónleika á miðvikudögum. Þeir fyrri eru gjaldfrjálsir og henta fyrir alla fjölskylduna.Á Sumartónleikana kostar aðeins 3.000 kr.

 

 

„Pikknikk-tónleikarnir hafa verið í boði hjá Norræna húsinu í mörg ár og eru alltaf jafnvinsælir. Tónleikaröðin í ár litast af léttri og sumarlegri stemningu, þar er að finna allt frá lágstemmdri popptónlist til þjóðlaga- og indítónlistar,“ segir Mikael Lind, listrænn stjórnandi Norræna hússins.

Fjöldi fólks að njóta sumarið 2019

Tónleikarnir fara fram í litlu og sætu gróðurhúsi og bjóða upp á eitt fallegasta útsýni bæjarins, yfir Vatnsmýrina og fuglafriðlendið.

Mikael Lind, listrænn stjórnandi Norræna hússins

Fyrstu tónleikarnir verða haldnir 5. júlí og standa þeir yfir alla sunnudaga kl. 15. fram til 9. ágúst og eru ókeypis. Tónleikarnir eru um 45 mínútna langir í hvert sinn.

Skemmtilegt og sumarlegt

„Þegar veðrið er gott gerir fólk sér gjarnan pikknikk á grasinu fyrir framan gróðurhúsið og nýtur tónleikanna undir berum himni. Það er mjög skemmtileg blanda, sérstaklega þegar hljóð úr náttúrunni blandast við tónlistina,“ segir Mikael. „MATR, kaffihús Norræna hússins, mun selja veitingar sem tilvalið er að taka með sér út og njóta um leið og góðrar tónlistar er notið í félagsskap fjölskyldunnar og/eða vina.“

Ellen og Eyþór

Sumartónleikar Norræna hússins fara fram í tónleikasal Norræna hússins þrjú miðvikudagskvöld í sumar. Þar koma fram þrenn dúó sem öll eru landsmönnum vel kunn. flestum Íslendingum kunnug. Fyrstu tónleikarnir verða miðvikudaginn 22. júlí þegar Ólöf Arnalds, söngkona og lagasmiður, og Skúli Sverrisson bassaleikari flytja einstaka tónlist sína, en þau léku fyrir troðfullu húsi á sumartónleikunum í fyrra.

Hjónin Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson stíga á stokk 12. ágúst og munu flytja íslensk sönglög, sálma og mörg af uppáhaldslögum Ellenar. Aðdáendur hjónanna vita að tónleikar þeirra eru hugljúfir og einlægir.

Kristjana og Svavar

Á þriðju tónleikunum, 19. ágúst, koma Svavar Knútur söngvaskáld og Kristjana Stefánsdóttir sem þykir ein besta djass- og blússöngkona landsins fram. Þau hafa ólíkan tónlistarbakgrunn, en saman skapa þau seiðandi og hugljúfa stemningu.

„Miðasala er hafin og við hvetjum fólk til að tryggja sér miða sem fyrst. Við setjum 50 sæti í sölu til að byrja með til að tryggja gott rými fyrir gesti,“ segir Mikael. „Það gerir í raun tónleikana mun meira spennandi og einstaka þar sem gestir fá að vera í návígi við tónlistarmennina,“

Allar upplýsingar má finna á vef Norræna hússins, nordichouse.is, eða í síma 551-7030.

Pikknikk- tónleikar
Rauður 5. júlí
Special-K 12. júlí
Unnur Sara 19. júlí
MIMRA 26. júlí
Markús Bjarnason 2. ágúst
Jelena Ciric 9. ágúst

Sumartónleikar
Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson 22. júlí
Ellen og Eyþór 12. ágúst
Svavar Knútur og Kristjana Stefáns 19. ágúst

Tónleikaröðin fer fram á miðvikudögum kl. 21.00
Takmarkað sætaframboð
Miðasala er hafin á tix.is
Miðaverð 3.000 kr.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira