Tekur tíma að jafna sig

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Áföll snúast um upplifun hvers og eins. Það sem einn getur upplifað sem risastórt áfall siglir annar í gegnum, þetta snýst alltaf um hvaða spor sitja eftir í líkama okkar og heila eftir áfall. Það hvort áfall skilur eftir sig þessi spor eða ekki fer eftir hvernig við vinnum úr áfallinu. Líkt og með líkamleg áföll, það hvernig brotinn fótur grær fer eftir því hvernig búið er um brotið,“ segir Lilja Sif Þorsteinsdóttir, sálfræðingur hjá Hæfi og formaður Snarrótarinnar, sem sérhæft hefur sig í að vinna með áföll, langvarandi verki, langvinnan heilsubrest og fólk með sögu um fíknivanda.

Lilja segir að sem betur fer sé líkaminn hannaður þannig að hann vilji gróa sára sinna, hvort sem það eru líkamleg eða andleg sár. „Því snýst þetta svolítið um að skapa þær aðstæður að hann geti það. Það tekur tíma að jafna sig og við myndum aldrei fara og stíga í brotinn fót af því við vitum að það tekur nokkrar vikur fyrir hann að gróa í gifsi. Á sama hátt eigum við ekki að pína okkur til að jafna okkur á áfalli,“ segir Lilja.

Hún segir að mikilvægt sé að halda rútínu þegar unnið sé úr áfalli, passa upp á svefn, hreyfingu og að borða, og einnig að viðhalda tengslum. „Svefninn er númer eitt, tvö og tíu. Til er bók sem heitir Af hverju sofum við? sem ég mæli heilshugar með. Þú lagar ekkert ef svefninn er í ólagi, hann hefur áhrif á öll kerfi líkamans til hins betra eða til hins verra. Ég veit að þetta er klisja, en að hreyfa sig er kraftaverkalyf, það að fara út að ganga eða hlaupa það er betra ráð en margir átta sig á,“ segir Lilja og bætir við að mikilvægt sé að viðhalda tengslum og það versta sem fólk geti gert sé að loka sig af og ræða ekki áfallið, það valdi því að áfallið „lokist inni“ hjá viðkomandi.

„Ef þú lendir í erfiðri reynslu og þú lokar hana innra með þér, ertu ekki í sérstaklega góðum málum.“

„Þú getur gert heilmikið einn, en af því að við erum svo miklar félagsverur þá snýst þetta um að vera séður í sínum sársauka og að fá áheyrn, að fá að segja sinn sannleika og fá að vita að það er allt í lagi að líða eins og manni líður. Ef þú lendir í erfiðri reynslu og þú lokar hana innra með þér, ertu ekki í sérstaklega góðum málum.“

Lilja segir að mikilvægt sé að einstaklingurinn sem lendir í áfalli fái og gefi sjálfum sér tíma til að verða heill og að hann sýni sjálfum sér skilning og samkennd. Mikilvægt sé að gefa sér rými til að vinna úr áfallinu og á sama hátt er mikilvægt að þeir sem standa viðkomandi næst gefi honum tíma og rými og átti sig á því að það að þrýsta á viðkomandi að vera kominn lengra en hann er í batanum, sé líklegt til að flækja bataferlið.

„Áfall snýst alltaf í grunninn um að viðkomandi missir stjórn, þannig að til að vinna úr því þá þarf hann að vera við stjórnvölinn. Það er gott að ræða atburðinn þegar þú kýst, við þá sem þú kýst. Þér má líða eins og þér líður, þú hefur rétt á þínum tilfinningum og líðan, en það er ekki þar með sagt að þú hafir rétt á hvernig hegðun sem er. Maður þarf rými og öryggi til að geta gróið sára sinna. Gott ef aðrir búa til einskonar rými, þar sem hægt er að ræða hlutina á þess að beita þrýstingi, bara láta viðkomandi vita að maður er til staðar, að hlusta án þess að ætla að koma með lausnir.“

Viðtalið er að finna í blaði Geðhjálpar

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira