„Við viljum hafa meira samtal, meiri kærleika og umhyggju og minni sjúkdómsvæðingu“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hugarafl heldur úti hlaðvarpinu Klikkið, sem fjallar um geðheilbrigði og bata, geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og fleira byggt á fræðilegum grunni og þekkingu fagfólks og reynslusögum einstaklinga sem náð hafa bata.

„Klikkið snýst um okkar hugmyndafræði, okkar viðhorf og hverju við viljum koma á framfæri. Við erum að varpa ljósi á allt sem snertir geðheilsu, mannlega þáttinn, fjölskylduna og mikilvægi hennar fyrir einstakling sem er að ganga í gegnum geðrænan vanda. Við viljum nota Klikkið til að nota reynslu fólks á framfæri, en líka áleitnum skoðunum um lyfin, sjúkdómsvæðingu og fleira. Við viljum líka vera aðhald fyrir þjónustuna sem er í boði fyrir þennan hóp og við höfum gagnrýnt hefðbundið geðheilbrigðiskerfi. Okkur finnst þjónustan ekki alltaf byggð á virðingu, valdeflingu og mannréttindum. Við höfum bent á að það megi breyta þjónustunni og hafa hana réttindavænni og kærleiksríkari. Við viljum hafa meira samtal, meiri kærleika og umhyggju og minni sjúkdómsvæðingu,“ segir Auður Axelsdóttir framkvæmdastjóri Hugarafls, en Klikkið má finna á hugarafl.is og stundin.is.

„Mér finnst við of dugleg að sjúkdómsvæða líðan fólks.“

„Við erum líka að upplýsa almenning um að batalíkur eru mjög miklar, og ef við valdeflum fólk eru batalíkur enn meiri. Markmiðið hjá Klikkinu er mjög metnaðarfullt.“

„Við notuðum Klikkið mikið í COVID-ástandinu til að varpa ljósi á bjargráð, aukið ofbeldi og fleira. Við reynum að nota Klikkið sem spegil á daglegt líf og hvað er að gerast í samfélaginu,“ segir Auður og bætir við: „Við reynum að taka fyrir allar hliðar og þar kemur reynsla einstaklinga sem hafa gengið í gegnum geðræna erfiðleika mjög sterk inn.“

Hvað er að gerast alþjóðlega?

„Við erum líka að varpa ljósi á hvað er að gerast alþjóðlega og eigum ansi marga tengiliði erlendis. Við höfum til dæmis haft Daniel Fischer, sem er mentor Hugarafls og við höfum notað hans batanálgun. Við höfum líka varpað ljósi á lyfjalausa geðdeild í Noregi með viðtali við yfirlækni þar.“

Samstarf við Háskóla Íslands er mjög gott og Sigrún Ólafsdóttir prófessor í félagsvísindadeild mætir reglulega í Klikkið. „Hún hefur mikla þekkingu á hvernig samfélagið er hvað varðar geðræna erfiðleika, aðstæður fólks og fátækt, COVID-19 og margt fleira.“

Fordómar enn til staðar

Aðspurð um hvort fordómar séu enn við lýði gagnvart geðrænum vanda svarar Auður því játandi. „Já þeir eru enn til staðar og ótti aðallega við tilfinningar. Mér finnst við of dugleg að sjúkdómsvæða líðan fólks. Fordómarnir felast aðallega í því að einstaklingur sem hefur fengið geðgreiningu sé á einhvern hátt vanhæfari um margt eins og atvinnu eða sé ekki treystandi. Þetta er auðvitað alrangt. Einstaklingur getur verið ófær um að framkvæma ákveðna hluti í miklli vanlíðan, en það líður hjá og getan kemur aftur og er sú sama og áður. Því miður er einnig að finna fordóma í heilbrigðiskerfinu og þeir byggja að mestu leiti á þessu sama. Við verðum að útrýma þessum villum.“

Viðtalið er að finna í blaði Geðhjálpar

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira