Vitundarvakning og viðtöl vekja athygli: Setjum geðheilsu í forgang

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Geðhjálp stendur nú fyrir vitundarvakningu um orsakaþætti geðheilsu. Í liðinni viku kom blað Geðhjálpar út, sem lesa má hér, og verður því jafnframt dreift á valda staði.

Geðhjálp hefur einnig í samstarfi við Píeta-samtökin hrundið af stað undirskriftasöfnun á vefsíðunni www.39.is. Skorað er á stjórnvöld og samfélagið allt að setja geðheilsu í forgang.

Átakið kallast 39, og er sú tala jafnframt á forsíðu blaðsins. Talan vísar til fjölda þeirra einstaklinga sem féll fyrir eigin hendi árið 2019. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir brýnt að færa geðið inn í ljósið og setja geðrækt í fyrsta sætið.

Á fyrsta sólarhring söfnuðust yfir 10.000 undirskriftir. „Við hjá Geðhjálp erum bæði hrærð og þakklát fyrir hug og samstöðu fólks. Geðheilsan er það verðmætasta sem við eigum. Hlúum að henni og hugum jafnframt að fólkinu í kringum okkur. Rjúfum einangrun og fordóma – færum geðið inn í ljósið,“ segir í tilkynningu frá Geðhjálp.

Sjá einnig: 10 þúsund hafa skrifað undir: „Erum bæði hrærð og þakklát fyrir hug og samstöðu fólks“

Blað Geðhjálpar 

Í blaðinu má finna fjölda áhugaverðra greina og viðtala unnin af formanni og framkvæmdastjórum Geðhjálpar og blaðamönnum Birtíngs.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, skrifar leiðara blaðsins. „Nú, þegar nær átta mánuðir eru liðnir frá því að COVID byrjaði að breyta hugsana- og hegðunarmynstrum okkar, er ljóst að áhrifin á félags- og efnahagslega orsakaþætti geðheilsu verða mikil. Geðheilbrigði er margvítt hugtak og það, ásamt greiningum á frávikum þess, er byggt á hugsun, einhverju sem við höfum þó aldrei getað skilgreint og oft ekki skilið. Það liggur því í eðli hugtaksins og frávika þess að það eru fáir mælikvarðar til á geðheilsu, segir Héðinn meðal annars.

Leiðarann má lesa í heild sinni hér: Góð viðleitni

Þekktir íslendingar segja frá hvernig þeir hlúa að eigin geðheilsu, á meðal þeirra sem verða fyrir svörum má nefna Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, GDRN tónlistarkonu, Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur borgarfulltrúa.

Guðni Th Jóhannesson
Mynd / Hallur Karlsson

„Geðheilsa er gulli betri. Sjálfum líður mér best þegar ég ofgeri mér ekki í vinnu, fylgi eigin skipulagi og reyni að hreyfa mig – fer út að ganga, hlaupa eða hjóla. Ég nýt þess líka að vera með fólkinu mínu, fjölskyldu og vinum, en mætti vera duglegri við að leita þar stuðnings þegar svo ber undir,“ segir forseti okkar.

Sigríður Gísladóttir, varaformaður Geðhjálpar. Mynd / Hallur Karlsson

Sigríður Gísladóttir, varaformaður Geðhjálpar, segir eitt brýnasta verkefni samtakanna vera að efla fræðslu og stuðning við börn sem alast upp hjá foreldrum með geðrænan vanda. Nánast engin úrræði séu í boði fyrir þann hóp. Sigríður ólst sjálf upp hjá móður með geðrænan vanda og þekkir því af eigin raun áhrif þess að alast upp við slíkar aðstæður.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér: Ekkert úrræði til fyrir börn foreldra með geðrænan vanda

Signý Rós Ólafsdóttir. Mynd / Hallur Karlsson

Signý Rós Ólafsdóttir hlaut verðlaun sem Outstanding woman director á kvikmyndahátíðinni Winter Film Awards International Film Festival í New York í vor fyrir útskriftarverkefni sitt úr Kvikmyndaskóla Íslands, aðeins tvítug að aldri. Fyrir nokkrum árum hefði hana þó ekki grunað að hún yrði á þessum stað í tilverunni því hún passaði engan veginn inn í skólakerfið og segist í grunnskóla sífellt hafa fengið þau ósögðu skilaboð að hún væri heimsk. Í tíunda bekk kom í ljós að hún er með lesblindu og  athyglisbrest, sem í dag er greint sem ADHD sem hafði verið ógreint öll þessi ár og það breytti ýmsu. Nú hefur Signý Rós gengið til liðs við Geðhjálp og mun í vetur ferðast milli grunnskóla landsins og segja sögu sína til að hvetja og styrkja þau börn sem verða út undan í skólakerfinu.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér: Signý glímdi við ADHD: „Mér fannst ég alltaf vera að bregðast“

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, skrifar í grein sinni um nálgun samfélagsins þegar kemur að geðheilbrigði, sem um langt árabil hefur að nær öllu leyti verið einkennamiðuð, en lítið hugað að og hugsað um orsakaþætti. „Það er mun flóknara að vinna með orsakir og byggja meðferðina á þeim. Það gæti hins vegar komið í veg fyrir endurtekin einkenni,“ segir Grímur.

Greinina má lesa í heild sinni hér: Fyrir neðan fossinn

Lilja Sif Þorsteinsdóttir, sálfræðingur hjá Hæfi og formaur Snarrótarinnar, sem sérhæft hefur sig í að vinna með áföll, langvarandi verki, langvinnan heilsubrest og fólk með sögu um fíknivanda, segir í viðtali frá áföllum, hvaða áhrif þau hafa og get haft á börnin okkar, og hvernig best er að takast á við áföll. „Sum sár eru bara þess eðlis að við náum ekki að vinna úr þeim ein og sér, við þurfum að hafa hjá okkur fólk og að fá samkennd í sársauka okkar.“

Rætt er við Elínu Ebbu Ásmundsdóttur, iðjuþjálfa og framkvæmdastjóra Hlutverkaseturs og Auði Axelsdóttur, framkvæmdastjóra Hugarafls, og Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins lítur um öxl og skoðar framvindu geðheilbrigðismála síðustu 50 ár.

Bent er á bækur og hlaðvörp sem fjalla um geðheilbrigði.

Við hvetjum þig til að leggja átakinu lið, kynna þér málið inn á www.39.is og á gedhjalp.is, lesa blaðið og hlúa að geðheilbrigði þínu og annarra.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira