Jólamatur Nönnu Rögnvaldar

Jólamatur Nönnu Rögnvaldar

TILBRIGÐI VIÐ KLASSÍK

 

Ris a l’amande og tvenns konar sósur

risalamande

Ris a l’amande er danskur réttur þótt nafnið sé komið úr frönsku. Hann kom fyrst fram á 19. öld en ýtti þó ekki grjónagrautnum, sem lengi hafði verið helsti jólaeftirrréttur Dana, til hliðar fyrr en í síðari heimsstyrjöld. Þá jukust vinsældir ris a l’amande skyndilega því erfitt var að fá hrísgrjón en nóg til af rjóma svo að hagsýnar húsmæður drýgðu grjónagrautinn með rjómanum.

Hérlendis þykir mörgum rétturinn ómissandi hluti af jólahaldinu. Sjálf ólst ég ekki upp við ris a l’amande en kann vel að meta hann ef sósan er góð. Kirsiberjasósa er algengust en það má nota ýmsar aðrar ávaxtasósur, svo og karamellusósu og fleira.

Yfirleitt er einhver sykur í réttinum og sósurnar eru oft dísætar. Það er þó mjög einfalt að sleppa sykrinum alveg og fá sæta bragðið e.t.v. í sósunni. Hér er uppskrift að sykurlausu ris a l’amande og tveimur sósum, annarri sykurlausri, hinni ekki.

Sykurlaust ris a l’amande
Fyrir 4−6

600 ml mjólk
90 g grautargrjón
50 g möndlur, heilar en afhýddar
1 vanillustöng
örlítið salt
250 ml rjómi

 

 

Settu mjólkina í þykkbotna pott sem er með þéttu loki og hitaðu hana rólega. Helltu grjónunum smátt og smátt út í og hrærðu á meðan. Settu lokið á pottinn þegar sýður, lækkaðu hitann eins og hægt er og láttu malla mjög rólega í 45−60 mínútur, eða þar til kominn er þykkur grautur. Helltu honum í skál og láttu kólna, gjarna yfir nótt.

Grófsaxaðu möndlurnar í matvinnsluvél eða blandara og settu þær út í. Kljúfðu vanillustöngina, skafðu kornin úr henni, settu þau út í og hrærðu þeim vel saman við ásamt ögn af salti. Stífþeyttu rjómann og blandaðu honum gætilega saman við með sleikju. Helltu grautnum í fallega skál og kældu.

Berjasósa

250 ml dökkur berjasafi (ég notaði Superberry juice frá The Berry Company)
100 g hindber, frosin
2 tsk kartöflumjöl
2 msk kalt vatn

Settu safann og hindberin í pott, hitaðu að suðu og láttu malla í fáeinar mínútur. Hrærðu kartöflumjölið út í köldu vatninu, taktu pottinn af hitanum og hrærðu jafningnum saman við. Láttu kólna.

Saltkaramellusósa

80 g smjör
100 ml rjómi
100 g púðursykur
½ tsk vanilluessens
½ tsk flögusalt, eða eftir smekk

Settu smjör, rjóma og púðursykur í pott, hitaðu að suðu og láttu malla við meðalhita þar til sósan er gullinbrún og farin að þykkna (gæti tekið 8−10 mínútur). Hrærðu vanillu og salti saman við og taktu af hitanum. Berðu sósuna fram volga eða kalda.