Hætti að kaupa ný föt þegar hún sá hvað Norðurlandabúar hentu miklum textíl árlega

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, dró verulega úr fatakaupum árið 2013 þegar hún rannsakaði textílsóun á Norðurlöndunum. Hún segir umhverfisvitund í íslensku samfélagi vera að aukast en óttast að margt fólk sé ekki tilbúið að færa fórnir og gera breytingar á eigin lífsstíl til að draga úr sóun textíls. Birgitta reynir að vekja fólk til umhugsunar um skaðleg umhverfisáhrif textíliðnaðarins.

Birgitta mun halda erindi á Spjaraþoni, tveggja daga hugmyndasmiðju, sem Umhverfisstofnun heldur 28. og 29. ágúst, þar sem hún fjallar um líftíma fatnaðar og talar um hvernig hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins getur nýst til að finna lausnir.

„Þar erum við bæði að tala um að hvetja fólk til að kaupa minna en líka að deila, leigja, gera við, kaupa notað og viðhalda gæðum með réttri umhirðu,“ segir Birgitta um erindi sitt. „Fyrirlesturinn sem ég flyt byggir á vinnunni sem við hjá Umhverfisstofnun höfum verið í. Við höfum verið að safna gögnum og setja fram skiljanlegt fræðsluefni um umhverfisáhrif textíls.“

Birgitta bendir á vefsíðuna samangegnsoun.is, þar er að finna fjölbreyttan fróðleik.

Íslendingar henda heilum og góðum flíkum

Lausnir gegn textílsóun hafa verið Birgittu hugleiknar síðan hún vann að rannsókn sem snerist um flæði textíls á Norðurlöndunum árið 2013. Niðurstöðurnar komu henni á óvart og hún dró snarlega út fatakaupum.

Birgitta heldur fyrirlestur á Spjaraþoni, tveggja daga hugmyndasmiðju þar sem þátttakendur læra um vanda textíliðnaðarins og þróa og skapa í framhaldinu lausnir sem sporna gegn textílsóun. Mynd / Hákon Davíð

„Ég var mjög hissa að sjá hvað Íslendingar og aðrir Norðurlandabúar keyptu og hentu miklum textíl árlega. Eftir það hætti ég að mestu að kaupa mér ný föt,“ segir Birgitta. Hún segir sokka, nærföt og stöku íþróttaflíkur vera undantekninguna. „Ég fæ aðallega föt af vinkonum mínum sem þær eru hættar að nota en núna er ég líka farin að bæta aðeins við fataskápinn með því að kaupa föt í Rauðakrossbúðunum og Extraloppunni. Íslendingar losa sig við mikið magn af fötum og öðrum textíl í mjög góðum gæðum sem geta enst í mörg ár í viðbót.“

„Ég fæ aðallega föt af vinkonum mínum sem þær eru hættar að nota…“

Færri tilbúnir til að gera breytingar á eigin lífsstíl

Aðspurð hvort henni þyki fólk almennt vera meðvitað um vandamálið sem textílsóun er segir Birgitta: „Almennt er umhverfisvitund að aukast í samfélaginu, en það hefur kannski ekki verið mikil umræða um textílsóun og neysluhraðann sem slíkan. Ég held að margt fólk sé meðvitað um öll neikvæðu áhrifin sem framleiðslan hefur á umhverfið og nærsamfélögin í framleiðslulöndunum og við vitum að það þarf að framleiða hlutina með betri hætti en fæstir pæla í því að ein af lausnunum sé að draga úr neyslu. Mín tilfinning er að stór hluti fólks sé meðvitaður um vandamálin en það eru kannski færri sem eru tilbúnir til að gera þær breytingar sem við þurfum að gera á eigin lífsstíl. Að versla er líka orðið áhugamál og dægrastytting hjá mörgum og föt skipa þar stóran sess þar sem þau eru tjáningarform og geta verið stór hluti af sjálfsmynd okkar.“

„Ef maður skoðar síðustu áratugi þá hefur framleiðsla á fötum tvöfaldast síðan árið 2000.“

Birgitta segir að fræðsla sé mikilvæg. „Hugsanlega þurfum við líka að gera betur í að leiðbeina fólki.“ Hún bætir við að þess vegna sé mikilvægt að halda viðburði á borð við Spjaraþon. „Ef maður skoðar síðustu áratugi þá hefur framleiðsla á fötum tvöfaldast síðan árið 2000. Neyslan hefur aukist og er alltaf að verða hraðari, við kaupum meira og losum okkur fyrr við hlutina. Eitt af markmiðum Spjaraþonsins er að skapa meiri umræðu um umhverfisáhrif textíliðnaðarins og vekja fólk til umhugsunar um hvaða áhrif neysla okkar hefur. Sem dæmi þá vita sennilega fáir að við framleiðslu á einu stykki af gallabuxum fara 10.000 lítrar af vatni. Við viljum líka ýta undir nýsköpun og fá skapandi fólk með okkur í lið til að reyna að finna fjölbreyttar lausnir við áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.“

Áhersla á textíl árin 2020 og 2021

Á Spjaraþoni munu þátttakendur mynda teymi sem vinna að nýskapandi lausnum um textíl. „Við hjá Umhverfisstofnun hvetjum alla til að skoða meira á spjarathon.is. Spjaraþonið er hluti af verkefnum sem Umhverfisstofnun er að vinna undir merkjum Saman gegn sóun, en það er stefna ríkisins í úrgangsforvörnum. Í þeirri stefnu er áherslan á textíl árin 2020 og 2021,“ segir Birgitta spurð nánar út í Spjaraþon.

Hún hvetur áhugasama til að fylgjast með verkefninu á samfélagsmiðlum, Instagram og Facebook.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Kvenleg orka ræður ríkjum í verkum Dýrfinnu

Dýrfinna Benita Basalan opnar á morgun sýninguna Náttúrlega brothætt / Natural Fragility í  Þulu listagalleríi. Þar mun hún sýna bæði teikningar og málverk. „Þegar ég...