Ævintýralegar veiðiferðir um allan heim

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

María Anna Clausen hefur haft ástríðu fyrir veiði nánast síðan hún man eftir sér og þegar hún kynntist ástinni í lífi sínu, Ólafi Vigfússyni, smitaði hún hann svo rækilega af veiðibakteríunni að síðan má segja að allt þeirra líf hafi snúist um veiði. Auk þess að reka Veiðihornið í Síðumúla, þar sem þau selja allt sem til veiðinnar þarf, nota þau hverja frístund til að veiða og hafa undanfarin ár farið í veiðiferðir til sex heimsálfa, þar sem þau þau hafa meðal annars lært að verjast árásum hákarla og sjóræningja.

Fyrir nokkrum árum byrjuðu María og Ólafur að fara í veiðiferðir út um allan heim, hafa þegar hér er komið sögu stundað veiði í sex heimsálfum og eru að hennar sögn bara rétt að byrja, hvernig stóð á því að þau fóru að leita út fyrir landsteinana eftir veiði?

„Það hófst nú eiginlega fyrir hálfgerða tilviljun fyrir um það bil tíu árum síðan,“ útskýrir María og hlær. „Þá fórum við að halda nokkurs konar vorhátíð og þangað komu meðal annars fulltrúar fyrirtækja sem við kaupum vörur af. Einn af þeim var stangahönnuður frá Sage og þegar ég er að skutla honum upp á hótel einn daginn segir hann mér að hann og konan hans séu að fara með hóp af veiðimönnum til Bahamas, það séu tvær stangir lausar og hvort við viljum ekki bara skella okkur með. Ég sagði bara strax já og bað hann að bóka okkur, var ekkert að spyrja eiginmanninn álits, en hann var alveg til í að prófa þetta þegar ég sagði honum frá því. Þannig að við fórum þangað og eftir það varð ekkert aftur snúið, þetta var svo hrikalega skemmtilegt.“

Síðan hafa þau hjónin farið í veiðiferðir tvisvar til þrisvar á ári, út um allar jarðir, en hvað stangveiðina varðar segir María að uppáhaldsstaðurinn sé sennilega Christmas Island.

„Við höfum flogið þangað í gegnum Havaí og yfirleitt stoppað á Havaí í nokkra daga og verið á Waikiki ströndinni,“ segir hún. „Þaðan er þriggja tíma flug til Christmas Island sem er eins og að koma í annan heim. Þetta er lítil eyja með um það bil þúsund íbúum og allt frekar frumstætt. Veiðin er þannig að maður fer út með bát klukkan sex á morgnana, tekur með sér samloku í nesti og er úti í sjó allan daginn. Sjórinn er ylvolgur og þarna eru hvít sandrif og maður horfir ofan í tæran sjóinn og kastar á þá fiska sem maður sér. Það er alveg himnesk upplifun.“

Umhverfið sem þau hjónin veiða í virðist geta verið dálítið ógnvekjandi, hafa þau einhvern tímann lent í hættulegum aðstæðum í þessum ferðum?

„Ég viðurkenni að mér hefur stundum ekki alveg staðið á sama,“ segir María og brosir. „Sérstaklega ef það eru hákarlar að synda nálægt manni. Maður er mikið að vaða í sjónum og á Seychelles lenti ég í því að vera að elta fiskitorfu með leiðsögumanni, torfan synti alltaf lengra og lengra út og ég elti. Svo sér hann hákarl og segir við mig að ég verði að snúa stönginni öfugt og lemja hann í hausinn með hinum endanum. Ég hlýddi og var alveg tilbúin en það kom ekki til þess því hákarlinn var bara synti rólega burt. Ég varð samt smá smeyk. Verð að viðurkenna það. Við vorum auðvitað búin að fá fyrirlestra um það hvernig ætti að bregðast við ef hætta steðjaði að. Þegar við veiddum Providance-kóralrifið við Seychelles, dvöldum við um borð í Maya DuGong sem er gamalt rannsóknarskip sem hefur verið breytt í vistarverur fyrir veiðimenn á svæðinu. Þegar allir veiðimenn vikunnar voru komnir um borð var fyrirlestur í matsalnum þar sem farið var yfir ýmsar hættur sem gætu orðið á vegi okkar. Til dæmis hvernig ætti að bregðast við ef stór hákarl nálgaðist okkur þar sem við værum að vaða í sjónum. En þá átti ég sem sagt að vera pollróleg, standa kyrr og berja stangarhandfanginu í trjónu hákarlsins. Svo var bent á bjöllu sem var þarna og okkur sagt að ef hún hringdi þá væru sjóræningjar að nálgast og þá ættum við að fara niður í stefnið og bíða þar þangað til hættan væri liðin hjá. Það kemur sem betur fer sjaldan fyrir núorðið að sjóræningjar ráðist til atlögu en fyrir nokkrum árum þurfti að loka veiðisvæðinu um tíma út af sjóræningjum frá Sómalíu sem herjuðu á veiðiskipin. En maður er samt ekkert hræddur, starfsfólkið veit hvað það er að gera og fer mjög varlega og maður treystir því að það muni ekkert gerast. Og ef svo færi þá er öryggi í því að vita að það er þarna herbergi í stefninu þar sem er matur og fjarskiptabúnaður og hægt að leita skjóls.“

Lestu allt viðtalið við Maríu Önnu í Vikunni sem kom í búðir í dag.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira