Áherslan á femíníska list – Sláandi að sjá hversu lítið hlutfall seldrar listar sé eftir konur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Á listamarkaði Flóru útgáfu, sem ber heitið Uppskera, er lögð áhersla á list eftir konur og kynsegin fólk og femíníska list. Listamarkaðurinn var opnaður í byrjun október og fer fjölbreyttur hópur listafólks sem hefur verk sín til sölu á honum sístækkandi.

„Við erum femínískur miðill og þegar við komumst að þeirri staðreynd að aðeins 2% af list sem er seld í heiminum væri eftir konur þá ákváðum við að þetta yrði áherslan – femínísk list og list eftir konur,“ segir Elinóra Guðmundsdóttir, ritstýra Flóru útgáfu.

„Þetta fannst okkur alveg sturluð staðreynd,“ segir Elinóra um þennan mikla kynjahalla þegar kemur að seldri list á heimsvísu. Hún segir staðreyndina þó ekki koma á óvart. „Þetta er mjög sláandi, en ef við skoðum þetta nánar þá kemur þetta heim og saman við það sem við þekkjum. Flest frægasta og þekktasta listafólk listasögunnar eru karlar.“

„Þetta fannst okkur alveg sturluð staðreynd.“

Elinóra tekur fram að þó að aðaláherslan sé lögð á list eftir konur og kynsegin fólk þá séu karlkyns listamenn líka að selja verkin sín á listamarkaði Flóru. „Núna eru tveir karlkyns listamenn að selja verkin á Uppskeru og við skoðum alla listamenn sem hafa samband við okkur, þó að list eftir konur sé í aðalhlutverki.“

Langaði að gefa eitthvað til baka

Spurð út í hugmyndina á bak við listamarkaðinn svarar Elinóra: „Þetta er flest listafólk sem hefur verið að vinna við myndskreytingar hjá Flóru útgáfu, þá í sjálfboðavinnu. Okkur langaði bara til að gefa eitthvað til baka til þeirra. Við sjáum um alla praktísku hlutina í kringum markaðinn og gefum listamönnunum þannig rými til að einbeita sér að því sem þeir eru góðir í, að skapa. Það er nefnilega svo algengt að listafólk leggur ekki í það að opna eigin heimasíður því þetta er svakalega mikið stúss og tekur mikinn tíma frá sköpuninni.“

„Þetta er sístækkandi hópur og við sjáum fram á að hann stækki enn þá meira með tímanum.“

Hún segir hópinn sem hefur verkin sín til sölu á Uppskeru vera fjölbreyttan og sístækkandi. „Þessi hópur á í rauninni ekkert eitt sameiginlegt þannig séð, fyrir utan það að hafa haft áhuga á feminískri baráttu Flóru útgáfu. Við byrjuðum með þrettán listamenn í október og vorum að bæta við tíu listamönnum til viðbótar, þannig að þetta er sístækkandi hópur og við sjáum fram á að hann stækki enn þá meira með tímanum.“

Tóku afstöðu gegn afsláttardögum

Núna þegar jólin nálgast er mikið um útsölur og afsláttardaga í verslunum og á mörkuðum en hópurinn sem stendur að Uppskeru tók meðvitaða ákvörðun um að taka ekki þátt í afsláttardögum. „Við viljum ekki taka þátt í afsláttardögum því það leiðir beint af sér að listafólkið fær minna fyrri sína list. Okkur finnst góðar gjafir vera þær sem lifa lengi, styðja við nærumhverfið og eru framleiddar á eins umhverfisvænan hátt og hægt er. Ekki eitthvað sem þú sparar sem mest á að kaupa,“ útskýrir Elinóra.

Elinóra hvetur fólk til að styrkja ungt listafólk í sinni listsköpun. Mynd / Hallur Karlsson

Hún tekur fram að þau hafi velt því fyrir sér að taka þátt í afsláttardögum en tekið ákvörðun um að taka afstöðu gegn því að selja listaverk á útsöluverði. „Við viljum frekar hvetja fólk til að styðja við listafólk og styrkja það í sinni listsköpun.“

Áhugasamir geta kynnt sér listamarkaðinn Uppskeru á uppskera-listamarkadur.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Ólafía Hrönn leikur Skugga-Svein

Leikfélag Akureyrar, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, setur gamanleikinn Skugga-Svein eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson á svið Samkomuhússins haustið...