„Allt svo léttara og öðruvísi í Hólminum“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Unnur Steinsson tók sig upp og flutti með eiginmanni sínum og dóttur frá Reykjavík til Stykkishólms þar sem hún rekur nú hótel Fransiskus í húsnæði sem kaþólska kirkjan í Stykkishólmi notaði áður fyrir dagvistun barna og íbúðir klausturs Fransiskussystra. Unnur varð landsþekkt þegar hún var kjörin fegurðardrottning Íslands árið 1983 og segir kjaftasögur um sig ekki hafa farið fram hjá sér en hún hafi alltaf látið þær sem vind um eyru þjóta. Unnur var í forsíðuviðtali Vikunnar í júní síðastliðnum.

„Það var í raun við dánarbeð móður minnar sem ég tók þá ákvörðun að selja verslunina sem ég hafði rekið um árabil og fara að gera eitthvað annað í lífinu,“ segir Unnur þar sem við sitjum í notalegri setustofu hótels Fransiskus. „Verslunarreksturinn var endalaus vinna og það var komið að því að breyta til. Mér finnst mamma eiginlega hafa tekið með mér þá ákvörðun að söðla um.“

Unnur segist alla tíð hafa verið mjög náin móður sinni, Jórunni Karlsdóttur, sem lést árið 2005. „Mamma var mitt akkeri, við bjuggum alltaf nálægt hvor annarri, annaðhvort í næsta húsi hvor við aðra eða sama húsi. Það voru auðvitað mikil forréttindi að hafa mömmu svona nálægt og hún reyndist okkur ómetanleg hjálp, til dæmis tók hún alltaf á móti börnunum mínum þegar þau komu heim úr skólanum og passaði eldri börnin þegar ég fór að vinna sem flugfreyja.“

„Ég hefði til dæmis alveg getað hugsað mér að vakna fyrir allar aldir til að mjólka beljur en mig dreymdi mjög lengi um að verða kúabóndi.“

Jórunn fékk heilablóðfall milli jóla og nýárs árið 2004. „Hún hafði alltaf verið svo vel á sig komin líkamlega, var mikill göngugarpur og spilaði golf, svo hjartað gaf sig ekki fyrr en 11. janúar 2005. Það var auðvitað mjög erfitt að horfa upp á hana í þessum aðstæðum en ég er samt þakklát fyrir að hafa fengið tíma með henni og til að kveðja hana.“

Unnur þagnar um stund. „En þarna rann upp fyrir mér að það var kominn tími á breytingar,“ heldur hún áfram. „Mig hafði alltaf langað að prófa að búa einhvers staðar úti á landsbyggðinni, eldri systir mín hefur búið úti á landi og ég var mikið hjá henni þegar ég var unglingur og fannst það alltaf yndislegt. Mér fannst einhver ljómi yfir því að búa úti á landi og þegar mamma veiktist rann það upp fyrir mér að við fáum bara eitt líf, sem við vitum um. Við erum heppin ef erum hraust og heilbrigð því þá fáum við að lifa svolítið lengur, en vitum ekkert hvað verður og hví ættum við þá að vera að bíða með að prófa eitthvað, þegar okkur dettur það í hug?“

Dreymdi lengi um verða kúabóndi

Unni þarf líklega varla að kynna fyrir lesendum. Hún var kjörin fegurðardrottning Íslands árið 1983 og sama ár varð hún í fjórða sæti í keppninni Ungfrú heimur. Hún hefur unnið við sjónvarp, auglýsingar, sem flugfreyja, fyrirsæta, í verslunarrekstri og nú í hótelrekstri.

Unnur segir að hún hafi alltaf verið náttúrubarn og innst inni hafi hún verið dreifbýlistútta. „Ég er ekki úr Reykjavík,“ segir hún hlæjandi þegar blaðamaður spyr hvar í Reykjavík hún hafi slitið barnsskónum. „Ég er af Seltjarnarnesi, fædd þar og uppalin, yngst fjögurra systkina. Ég á tvær eldri systur og svo bróður sem er næstur mér í röðinni en hann er níu árum eldri en ég. Hann segir stundum að mamma og pabbi hafi ekki vitað hvað ég ætti að heita svo þau hafi bara skírt mig í höfuðið á götunni sem við bjuggum í, Unnarbraut,“ segir hún og hlær.

„Ég bjó á Nesinu í 35 ár áður en ég flutti í Árbæinn í Reykjavík og svo hingað í Hólminn. Mér finnst yndislegt að búa aftur svona nálægt sjónum, ég fann það þegar við komum hingað hvað sú tenging á vel við mig.“

Unnur starfaði sem flugfreyja í fimmtán ár en segir vinnutímann hafa orðið til þess að hún lagði flugfreyjuskóna á hilluna. „Ég meikaði ekki næturflugin, það átti alls ekki við mig að vaka á nóttunni. Ég er svo mikil A-manneskja, fer snemma að sofa og snemma á fætur. Ég hefði til dæmis alveg getað hugsað mér að vakna fyrir allar aldir til að mjólka beljur en mig dreymdi mjög lengi um að verða kúabóndi,“ segir hún og skellir upp úr.

Heilluðust af Stykkishólmi þótt það væri ekki inni í myndinni að flytja þangað

Sem fyrr segir var það árið 2005 sem mikil straumhvörf urðu í lífi Unnar. Hún hafði um árabil rekið verslunina Kello í Kringlunni en seldi hana og ákvað að venda sínu kvæði í kross. „Ég sá auglýst starf í Stykkishólmi þar sem var verið að leita að framkvæmdastjóra Eflingar, sem ég hugsaði fyrst að væri stéttarfélag, en var félag atvinnulífsins í Stykkishólmi og markmið þess var að vinna að framfaramálum á sviði atvinnu- og menningarlífs á svæðinu.“

Unnur vann hjá Eflingu frá því í apríl og fram á haustið og fór eftir það að vinna hjá Lyfju þar sem hún sá um innkaupamál, vörustjórnun og markaðsmál. Eiginmaður hennar, Ásgeir Þór Ásgeirsson, hafði verið að vinna hjá Embætti ríkislögreglustjóra en Unnur segir alltaf hafa blundað í honum þörf fyrir að byggja og smíða.

„Maður hafði auðvitað áhyggjur af því að þetta myndi höggva í börnin þegar fréttir af skilnaðinum komu í blöðunum.“

„Við heilluðumst af Stykkishólmi þegar við komum hingað í rómantíska ferð árið 2001 og keyptum í kjölfarið gamalt og illa farið hús í gamla miðbænum sem við erum nú búin að gera upp í upprunalegri mynd. Það var aldrei inni í myndinni að flytja til Stykkishólms en málin þróuðust þannig að Ásgeiri var boðið að vinna við breytingar á gamla klaustrinu sem breyta átti í hótel. Þetta var sumarið 2014 og hann dvaldi þar meira og minna einn áður en ég og dóttir okkar fluttust þangað vorið 2015.“

Þá hafði Unni boðist að taka við sem hótelstjóri nýja hótelsins í Stykkishólmi, Hótel Fransiskus.

„Allt svo léttara og öðruvísi hérna í Hólminum“

Fransiskus hótelið er í húsnæði sem kaþólska kirkjan í Stykkishólmi notaði áður fyrir dagvistun barna og íbúðir klausturs Fransiskussystra, en St. Francis-nunnur áttu og byggðu húsið. Hótelið er sambyggt sjúkrahúsinu í Hólminum, sem er einnig kennt við reglu systranna, þar sem þær sinntu lengi hjúkrun. Hótelið er í hjarta bæjarins, með ótrúlega fallegu útsýni yfir höfnina og nágrenni og veitingastaðir, söfn og verslanir eru í göngufæri.

Mynd / Hallur Karlsson

Blaðamaður hefur orð á fallegri kapellunni sem er staðsett á fyrstu hæð hótelsins, en þar inni er dásamlegur hljómburður og varla hægt að standast freistinguna að taka lagið þar inni. „Já, hún er ótrúlega falleg og mjög vinsæl meðal ferðamanna, enda einstakt að hafa kapellu við hlið móttökunnar á hóteli,“ segir Unnur kímin. „Hún er opin öllum sem vilja fara þangað inn og eiga notalega stund og svo er haldin kaþólsk messa öll laugardagskvöld og alla sunnudagsmorgna. En þótt hótelið sé í eigu kaþólsku kirkjunnar er það opið öllum og er á allan hátt eins og önnur hótel. Hér er 21 herbergi, setustofa með bar og morgunverðarsalur. Hótelið var tekið í gegn, eins og ég sagði áðan á árunum 2013-2016 en það var í frekar slæmu ásigkomulagi áður en framkvæmdir hófust.“

Hvað var það við Stykkishólm sem heillaði ykkur hjónin?
„Kostirnir við að búa hér eru margir en sagan sem þessi gamli bær hefur að geyma heillaði okkur, byggingarstíllinn og þessi gamli miðbær sem er engum líkur. Hér er líka margt hægt að gera og stutt í alla afþreyingu; hér er frábær sundlaug með náttúrulaugum, eða heitum pottum, hér eru ýmis söfn sem gaman er skoða, frábærar gönguleiðir, það er hægt að dorga niðri á bryggju, fara í siglingu, spila golf, skreppa á kaffihús og allt er umvafið þessari dásamlegu náttúru sem er hér allt um kring á Snæfellsnesinu. Við erum líka hestafólk og áður en við fluttum hingað vorum við með hestana okkar hér á sumrin og á haustin en tókum þá alltaf í bæinn yfir vetrarmánuðina. Það tekur mig tvær mínútur að skjótast upp í hesthús og það er alveg frábært að geta sinnt hestunum svona mikið. Við bjuggum svo sem ekki langt frá þeim í Árbænum en þetta er bara einhvern veginn allt svo léttara og öðruvísi hérna í Hólminum. Ég held hreinlega að klukkan gangi hægar hér en í Reykjavík, alla vega fannst okkur við græða nokkra tíma á sólarhring eftir að við fluttum í Hólminn.“

Mynd / Hallur Karlsson

Unnur skellir upp úr þegar blaðamaður spyr hvort það hvarfli samt aldrei að henni að flytja aftur til Reykjavíkur. „Jú, þeirri hugsun skýtur reglulega upp kollinum en maður er fljótur að átta sig á því að það er ekkert endilega betra að vera þar. Vissulega finnst mér oft erfitt að geta ekki verið meira til staðar fyrir börnin mín og barnabörnin en ég reyni að tala við þau í hverri viku og ég skýst oft í bæinn til að hitta þau og vinkonur mínar, fara í saumaklúbba og svona, eins og maður gerir. En það er svo fyndið, að alltaf þegar ég fer til Reykjavíkur er ég búin að skrifa lista yfir það sem ég þarf að afgreiða í bænum, bæði í einkaerindum og fyrir hótelið, en ég kemst aldrei yfir nema örfá atriði því það tekur svo ótrúlegan tíma að fara á milli staða. Maður var fljótur að gleyma hvað það tekur mikinn tíma að fara á milli staða í höfuðborginni. Ég finn líka hvað það er þreytandi að standa í svona snatti í umferðinni og ég hreinlega get ekki beðið eftir að komast í Ártúnsbrekkuna á leið út úr bænum aftur.“

„Hestamennskan bjargaði geðheilsu minni“

Talið berst aftur að hestamennskunni sem hefur verið stór hluti af lífi Unnar alla tíð. Hún segist þó reyndar hafa tekið sér nokkurra ára hlé frá henni án þess að átta sig á því hvað hestamennskan skipti hana í raun miklu máli.

„Ég hafði ekki átt hest í nokkur ár þegar mér bauðst að fara í hestaferð með Brynju Þorgeirsdóttur sem var þá að gera þætti sem hétu Kóngur um stund. Þá áttaði ég mig á því hvað stóran part vantaði í líf mitt að hafa ekki hestana. Ég hafði auðvitað verið í hestamennsku frá því ég mundi eftir mér, foreldrar mínir voru hestafólk og ég og fyrrverandi maðurinn minn höfðum átt hesta og börnin okkar voru alin upp í hestamennskunni líka. Stuttu eftir ferðina kom Ásgeir mér rækilega á óvart, og það á 45 ára afmælinu mínu, þegar hann gaf mér hest. Þetta var alveg geggjað. Hann var sjálfur ekki hestamaður en ég hugsaði mikið um það hvernig ég gæti fengið hann í þetta með mér því hestamennskan er svo mikið fjölskyldusport. Nokkrum vikum seinna bauð ég honum í hestaferð á Löngufjörur á Snæfellsnesi og þá var ekki aftur snúið fyrir hann. Enda ekki annað hægt; það var átján stiga hiti og glampandi sól og við riðum á móti jökli í kvöldsólinni í gylltum sandinum. Ásgeir keypti þetta bara á staðnum og hélt að hestamennskan væri alltaf svona,“ segir Unnur og hlær. „Nú eigum við sex hesta og erum á fullu í þessu saman, sem mér finnst ómetanlegt.“

„Ég lít alltaf á það þannig að maður uppsker eins og maður sáir; ef maður hefur komið sér í einhver vandræði þá þarf maður bara að koma sér úr þeim sjálfur.“

Unnur segir hestamennsku sannarlega vera mikla vinnu en ákaflega gefandi. „Ég segi alltaf að hestamennska sé ekki venjulegt áhugamál. Golf er áhugamál því maður getur tekið kylfurnar og sett þær upp í hillu og gleymt þeim þar um stund en hrossin eru alltaf í huga okkar … Það þarf að hugsa fyrir hagabeit á sumrin, haustbeit á haustin, eiga hey fyrir veturinn, vera með húsnæði og sinna þeim dags daglega fyrir utan náttúrulega að hreyfa þau. Hestamennskan bjargaði geðheilsu minni, og örugglega margra, þegar COVID-19 stóð sem hæst í vetur. Samkomubannið átti ekki við þar nema að litlu leyti og því gat maður verið daglangt að njóta þeirra samvista. Ég var alla vega mjög þakklát fyrir hestana mína.“

Á meðan við Unnur sitjum í setustofu hótelsins hefur síminn hringt með reglulegu millibili og Unnur gert hlé á máli sínu til að taka niður bókanir. Skyldu Íslendingar vera duglegir að bóka gistingu fyrir sumarið?

„Já, það eru margir Íslendingar að bóka núna en við förum eftir veðrinu og ég held að það skipti ekki máli hvort við gistum í tjaldi eða á hóteli, við viljum bara hafa sól og gott veður. En það er gleðiefni að það er að bókast vel í sumar. Við fundum auðvitað fyrir því að útlendingarnir urðu að hætta við, það var sama staðan alls staðar í heiminum, en við buðum fólki að fá inneign sem gildir út árið 2021 og margir þáðu það. Mér finnst greinilegt að fólk ætlar ekki að láta þetta stoppa sig, auðvitað er fólk misjafnlega statt og því miður margir búnir að missa vinnuna og svona svo það þarf að fara þetta í hænuskrefum. En þetta mun lagast, það kemur að því að þetta verður gott á ný. Ég held að það hafi jafnvel bara verið gott fyrir landið okkar að fá dálitla hvíld og fyrir fólk í fjarlægum löndum að sjá til himins. Kannski var jörðin bara aðeins að lagfæra sig,“ segir hún og brosir.

Unnur Birna hélt að eitthvað hræðilegt hefði gerst

Þegar blaðamaður hefur á orði að Unnur líti ótrúlega vel út og hljóti að vera með afskaplega góð gen, hlær Unnur létt. „Já, takk fyrir það. Ætli ég hafi ekki verið heppin í genalottóinu. En svo er bara svo stutt síðan ég hætti að leika mér í barbí með dóttur minni, ég held það hjálpi að vera með ungt barn á þessum aldri. Ég ætlaði mér svo sem ekki að eignast barn þegar ég var 44 ára, það var mjög óvænt og ég hélt satt að segja að ég væri komin úr barneign. Við Ásgeir höfðum farið í skíðaferð til Ítalíu með góðum vinum okkar og þegar ég kom heim leið mér eitthvað furðulega og hélt ég hefði náð mér í magapest. Þegar hún hafði staðið yfir í heila viku fannst mér þetta nú minna óneitanlega mikið á þegar ég hafði gengið með eldri börnin mín þrjú. Svo ég keypti þungunarpróf og fékk það staðfest að þetta var engin magakveisa,“ segir Unnur og skellir upp úr.

Mynd / Hallur Karlsson

„Við Ásgeir hlógum ótrúlega mikið að þessu en þetta kom mjög skemmtilega á óvart. Ég var búin að eiga hin börnin mín fyrir þrítugt og það voru liðin fimmtán ár frá síðustu meðgöngu. En mér fannst meðgangan ekkert mál og það var dásamlegt að vera heima í fæðingarorlofi fyrsta árið. Hún var líka einstaklega tillitssamt barn við þessa öldruðu foreldra sína og ofboðslega ljúf og góð. Mestu viðbrigðin voru kannski að maður var sá eini í vinahópnum í þessum sporum; á meðan vinirnir voru að fara hingað og þangað og njóta frelsisins var maður kominn aftur í ungbarnapakkann.“

Aðspurð segir Unnur að eldri börnin hafi tekið tíðindunum vel um að það væri von á litlu systkini. „Ég gleymi því aldrei þegar ég fór með Unni Birnu inn í herbergi og sagðist þurfa að segja henni svolítið. Hún hélt að eitthvað hræðilegt hefði gerst. Svo sagði ég henni fréttirnar og þá sagði hún: %ITALIC FRAM AÐ KOMMU Á UNDAN GÆSALÖPPUNUM UPPI: Úff, hvað ég er fegin, þá fer pressan algjörlega af mér,“ segir Unnur hlæjandi.

„Við Ásgeir erum alveg ofsalega heppin með barnahópinn okkar. Þetta eru flottir krakkar og ná mjög vel saman. Hann átti þrjár stelpur úr sínu fyrra hjónabandi og ég tvo stráka og eina stelpu. Nú hafa líka bæst við mörg barnabörn svo þetta er stór hópur sem mætir í fjölskylduboðin. Við erum aldeilis heppin að hafa heilt hótel til að bjóða þeim á, því ég efast um að við kæmum þeim öllum fyrir í húsinu okkar.“

„Skilnaður er alltaf erfiður“

Unnur og Ásgeir hafa verið saman í tæp tuttugu ár en þau kynntust upphaflega í Háskóla Íslands, þar sem þau voru saman í endurmenntunarnámi. Leiðir þeirra lágu svo saman nokkrum árum síðar, þá bæði fráskilin. Aðspurð hvort það hafi verið ást við fyrstu sýn segir Unnur að ástin hafi nú líklega kviknað í Háskólanum þótt sambandið hafi ekki byrjað fyrr en nokkrum árum seinna.

„Við erum lík að mörgu leyti en líka nokkuð ólík og vegum hvort annað upp hvað það varðar, hann er ágætur á mig, eins og ég segi oft. Ég er naut og veit að ég get alveg verið erfið en ég er samt þolinmóð og á alveg ágætis kosti sko,“ segir hún og skellihlær. „Það líklega fylgir þessu blessaða stjörnumerki að vera ákveðin, stjórnsöm og föst fyrir og allt það en ég held að það sé nú margt gott í mér líka.“

Unnur og fyrrverandi eiginmaður hennar höfðu verið lengi saman þegar leiðir skildu og hún segir að það hafi auðvitað ekki verið auðvelt að skilja. „Við vorum ung þegar við byrjuðum að vera saman og ég held að slík sambönd þróist öðruvísi en þegar sambönd hefjast seinna á lífsleiðinni. Skilnaður er alltaf erfiður. Þó að hlutirnir lagist með tímanum þá fylgja skilnaði átök og þetta er leiðinlegur tími fyrir alla, hvort sem er fyrir hjónin, börnin, tengdafólk eða vini. Maður hafði auðvitað áhyggjur af því að þetta myndi höggva í börnin þegar fréttir af skilnaðinum komu í blöðunum.“

Hefur ekki áhyggjur af kjaftasögum

Unnur segist sannarlega hafa fengið veður af kjaftasögum af skilnaðinum við fyrrverandi eiginmann sinn sem líklega fóru á flug vegna þess að Unnur og Ásgeir byrjuðu að vera saman fljótlega eftir skilnaðinn. „En ég er blessunarlega laus við að hafa áhyggjur af kjaftasögum og mér gæti ekki verið meira sama um hvað öðrum finnst. Ég lít alltaf á það þannig að maður uppsker eins og maður sáir; ef maður hefur komið sér í einhver vandræði þá þarf maður bara að koma sér úr þeim sjálfur. Og það skiptir engu máli þótt einhver sé að velta sér upp úr því.“

Þú hefur kannski verið búin að læra að brynja þig fyrir umtali?
„Já, mér leiðast líka bara kjaftasögur og hef til dæmis reynt að kenna börnunum mínum það að maður vill ekki taka þátt í þeim því það kemur alltaf í bakið á manni sjálfum. Ef þú hefur ekki orðið vitni að einhverju með eigin augum og eyrum, ef viðkomandi sagði þér eitthvað ekki sjálfur, þá er ekkert til í því sem sagt er. Fólk er alltaf tilbúið að benda á aðra en gleymir því að þegar maður bendir með vísifingrinum á einhvern er maður að benda með þremur öðrum fingrum á sjálfan sig. Svo hef ég líka alltaf vitað sjálf hvað ég stend fyrir.“

Hún segir að ef til vill hafi það líka haft áhrif á sig að alast upp hjá eldri foreldrum því móðir hennar, sem var 36 ára þegar Unnur fæddist, hafi kennt sér góð og kannski öðruvísi gildi en yngri foreldrar hefðu gert á þessum tíma. „Maður fær bara öðruvísi sjónarhorn á hlutina þegar maður elst upp hjá eldri foreldrum. Ég bjó í París í fimm mánuði þegar ég fékk tækifæri til að vinna þar sem módel þegar ég var aðeins sautján ára. Þá var maður búinn að upplifa svolítið mikið á stuttum tíma, ekki eldri en þetta. Frá París fór ég til Filippseyja og keppti í keppninni Fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Mér fannst ég ótrúlega lífsreynd, ekki eldri en þetta. Síðan tók ég þátt í Fegurðarsamkeppni Íslands, eins og þú segir, og fór út að keppa í Ungfrú heimur, þá komin fjóra mánuði á leið með Unni Birnu. Kjaftasögur eru og verða alltaf til staðar og þær fóru ekkert fram hjá manni á þessum tíma en ég lét þær bara sem vind um eyru þjóta. Ég hugsa samt að margar stúlkurnar hafi farið illa á því að vera of ungar að taka þátt í svona keppni og ekki höndlað það. Þær átta sig ekki á því fyrr en þær eru komnar út í þetta að þær geta ekki tekist á við álagið sem því fylgir.“

„Maður vinnur úr þeim verkefnum sem maður fær“

Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún tók þátt í keppninni um ungfrú Ísland svarar Unnur að sú hugmynd hafi komið frá móður sinni. „Mamma vildi endilega að ég tæki þátt. Það var gamall draumur hjá henni sjálfri, sem aldrei rættist. Þetta þróaðist í að vera viðskiptalegs eðlis hjá okkur mömmu því hana langaði að sauma á mig kjól fyrir keppnina. Hún sagðist því myndu gefa mér bílinn sinn ef ég myndi taka þátt og vinna. Ég gat auðvitað ekki skorist undan þessari áskorun enda fannst mér bílllinn hennar líka alveg geggjaður. Daihatsu Charade, það bara gerðist ekki flottara.“ Unnur hlær létt.

„Svo fór dóttir mín, Unnur Birna, líka í keppnina og þótt það væru aðrar forsendur fyrir því heldur en voru hjá mér mörgum árum áður, var það fyrir sömu manneskjuna; mömmu mína. Áður en hún lést hafði hún beðið Unni Birnu um að taka þátt, fyrir sig. Þær voru mjög nánar og Unnur Birna stóð við loforðið sem hún hafði gefið ömmu sinni.“

Hallur ljósmyndari er mættur með myndavélina og það er kominn tími til að slá botninn í viðtalið. Blaðamaður spyr Unni þar sem hún gerir sig tilbúna til að fara út í góða veðrið í myndatöku hvort börnin séu dugleg að heimsækja þau Ásgeir í Hólminn. „Þau eru ekkert rosalega dugleg að koma, þetta er líka svo langt … alveg tveir tímar,“ segir Unnur kímin á svip.

„Nei, ég segi svona. Fyrst fannst mér mjög langt að keyra hingað úr Reykjavík og ég veit að börnunum mínum finnst þetta enn þá langt. En okkur Ásgeiri finnst enga stund taka að keyra þetta. Ég held að þetta sé líka bara hugarfarið, eins og með svo margt annað. Ég veit ekkert hvort ég verði hér það sem eftir er ævinnar. En maður nýtur þess á meðan það er. Ég hef alltaf litið á líf mitt þannig að maður tekur eitt skref áfram og þar gerist eitthvað, svo tekur maður eitt skref til hliðar og þar gerist eitthvað og svo framvegis. Maður vinnur svo bara úr þeim verkefnum sem maður fær upp í hendurnar.“

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira