Anna er föst í viðjum fátæktar: „Í algjörri örvæntingu hef ég þurft að leita á náðir samfélagsins“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég er í fátæktartilvistarkreppu, ég er orðin þreytt á því að lífið mitt snúist um að sitja frá þriðja, fjórða degi hvers mánaðar og bíða eftir næstu mánaðamótum, “ segir Anna móðir og eiginkona á fimmtugsaldri, sem er á örorkulífeyri og hefur verið í mörg ár. Anna þekkir fjárhagserfiðleika og það sem þeim fylgir allt of vel.

Hún segir stöðuna oft hafa verið erfiða fjárhagslega, en þó líklega aldrei eins slæma og núna, COVID-19 heimsfaraldurinn hefur áhrif á afkomu tekjulágra og öryrkja rétt eins og flestra annarra.

„Það er búið að vinda alla bauka hérna, krónur og sófa. Selja allt sem hægt er að selja og nefndu það,“ segir Anna. „Mér fannst áhugavert að heyra Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra segja að það þurfi ekki að hjálpa okkur öryrkjum þar sem COVID-19 hafi ekki bein áhrif á okkar fjárhag, þar sem öryrkjar eru ekki í vinnu og missa hana því ekki. Næstu mínútuna segir hann svo að það sé náttúrulögmál að matvara, vörur og þjónusta hækki í faraldrinum. Hvernig sér hann það ekki að þetta hefur grjóthörð áhrif á okkur líka,“ segir hún. „Við höfum ekki fjármagn til að mæta þessum hækkunum, hreinlætisvörur eru líka keyptar í meira magni heima hjá mér, rétt eins og á öðrum heimilum. Grímur eru nánast of dýr lúxusvara til að við getum leyft okkur að kaupa þær. Ég er í áhættuhópi, en ég hafði ekki efni á að kaupa kassa af grímum fyrir 6.000 krónur, og ekki bauðst mér að kaupa eina staka. Síðan var dóttir okkar að byrja í framhaldsskóla og tekur strætó í skólann og það var álitamál hvort hún þurfti grímu eða ekki, og þá var sama uppi á teningnum þar, höfum við efni á grímu?

Þegar fólki er gert að vera svona mikið heima fer það oftar líka í eldhúsið, og borðar meira. Hækkunin er sú sama fyrir okkar heimili og önnur.“

Ekki til peningar fyrir strætókorti

Þau eru þrjú í heimili, Anna og eiginmaður hennar, sem er um fimmtugt og unglingsdóttir þeirra, sem hóf nám í menntaskóla í haust, sem kallar á ný útgjöld sem ekki hefur þurft að gera ráð fyrir áður.

„Dóttur okkar vantaði strætókort til að komast til og frá skóla, auk þess vantaði hana fatnað og skólatösku, og það voru engir peningar aflögu fyrir neinu af þessu. Það er dýrara að nesta hana í skólanum, en að hún borði hér heima, hún borðar ekki meira, en það er öðruvísi samsett og þannig dýrara,“ segir Anna. Hún bætir við að dóttir hennar vilji vinna, en hefur hvorki fengið vinnu með skólanum, né sumarvinnu síðastliðin tvö ár.

„Það hryggði mig mjög þegar hún tjáði okkur foreldrunum að hún ætlaði að endurnýja allar atvinnuumsóknirnar sínar til að hjálpa okkur foreldrum hennar að ná endum saman. Við ræddum við hana í góðan hálftíma fram og tilbaka til að sannfæra hana um að halda áfram í skólanum.“

Dóttirin er þó ekki sú eina sem hefur ekki fengið vinnu. Eldri bróðir hennar, sem fluttur er að heiman, er einnig í atvinnuleit. „Hann er í vandræðum með að finna vinnu og í síðasta mánuði var hann með 68 virkar atvinnuumsóknir,“ segir Anna.

Faðir þeirra og eiginmaður Önnu er í sömu stöðu. Eftir að hafa unnið í fjöldamörg ár brann hann út í vinnu og fór í endurhæfingu hjá Virk og loks á atvinnuleysiskrá. „Eftir 30 mánuði á atvinnuleysisbótum er hann búinn að klára allan rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Hann er í þeim aldurshópi sem síst er boðið í viðtal, og starfsmönnum Vinnumálastofnunar er það ljóst, á 30 mánuðum fékk hann boð í tvö atvinnuviðtal,“ segir Anna.

Þau voru ekki undirbúin fyrir hvað tæki við, en komust að því að það er ekkert kerfi sem grípur fólk í þeirra stöðu fjárhagslega.

„Okkur var vísað á félagsþjónustuna. Þar er viðmiðið fyrir okkur, hjón, 330.000 krónur fyrir skatt til að eiga rétt á aðstoð og sú tala er algjörlega óháð barnafjölda. Örorkan sem ég fæ er 311.000 krónur fyrir skatt. Mér er ætlað að framfleyta þriggja manna fjölskyldu á örorkulífeyri. Það hljóta allir að sjá að þetta gengur ekki upp!“

Mynd / Hallur Karlsson

Ósveigjanlegt og ómanneskjulegt kerfi

Anna hefur skoðun á kerfinu sem hún segir ómannlegt og ósveigjanlegt. „Kerfið er mjög refsisinnað, það gengur alltaf út frá því að allir séu að svíkja. Í stað þess að kerfið er svo stíft að við erum að reyna að lifa það af,“ segir hún og tiltekur nokkur dæmi:

„Þetta skerðingarlausa kerfi okkar, þar sem ég má sem öryrki vinna mér inn 109.000 krónur fyrir skatt, síðan er tekinn fullur skattur af því. Ef ég fengi vinnu núna og myndi mæta til vinnu núna, þá skulda ég 330.000 krónur bara við að taka fyrstu vaktina,“ segir Anna og útskýrir betur. „Ég er með sérstaka uppbót, sem er 33.000 krónur á mánuði, sem er fyrir þá sem ekkert vinna með örorkunni. Ef ég byrja að vinna í september þá skulda ég uppbótina aftur í tímann til síðustu áramóta, þar sem ég vinn á þessu almanaksári.“ Anna segir að Tryggingastofnun minnist aldrei á þetta, og því ætti hún frekar að byrja 1. janúar ef að vinna væri í boði.

„Ef ég væri síðan komin með vinnu þá fara tekjurnar inn í húsaleigubótakerfið, þannig að þær lækka líka. Ég fengi því tvöfalda skerðingu á bótum,“ segir Anna. „Það er ekki litið á að skatturinn er búinn að taka sitt, það er alltaf skoðuð talan fyrir skatt.“

[Rétt er að taka fram að sama á við aðra sem þiggja sömu bætur og Anna.]

Hún nefnir að örorkan sem slík sé ekki há tala, ofan á þá upphæð bætast síðan alls konar uppbætur og viðbætur. „Þetta er bara leikur að orðum. Örorka á bara að vera 330.000 krónur eins og lágmarksframfærsla. Ef ég er síðan í verri stöðu en aðrir öryrkjar þá get ég fengið extra stuðning.“

Hjónin leigja íbúð hjá Félagsbústöðum, sem hefur það í för með sér að þau mega ekki safna neinu sparifé. „Þú verður að klára út af öllum bankareikningum, ef eitthvað er inn á þeim, áður en þú færð aðstoð þar,“ segir Anna. „Ef við ættum möguleika á að leggja fyrir til að safna okkur fyrir íbúð, þá þyrftum við að fá lánaðan bankareikning hjá ættingja, því við getum ekki safnað neinu sparifé.“

„Eins og þegar við fermdum, þá gat hvorugt okkar bætt við okkur vinnu til að safna fyrir þeim kostnaði. Sama var þegar við giftum okkur, húsaleigubæturnar skerðast strax,“ segir Anna. „Þú mátt ekkert gera til að mæta aðstæðum, til að reyna að bjarga þér einhvern veginn. Öll sjálfsbjargarviðleitni er drepin hratt og ákveðið.

Fleiri félagslegar íbúðir eru í sama húsi og fjölskyldan býr í, og bendir Anna á að það geti einnig haft í för með sér að bætur lækki. „Ef barnið mitt fær íbúð í sama húsnæði, þá gæti ég misst bætur af því að þá erum við komin með sama lögheimili. Það er ekkert horft á að við erum að leigja sitt hvora íbúðina, það er bara horft á lögheimilið,“ segir Anna.

Aldrei leyft sér neitt

Anna og eiginmaður hennar hafa alla tíð verið lágtekjufólk og oft átt í fjárhagserfiðleikum. „Það gerir það að verkum að aldrei finnast krónur til að leggja til hliðar; neyðarsjóður, sumarfrí, ferðalög, utanlandsferðir er allt eitthvað fyrir aðra, sem við höfum ekki efni á. Svo þegar eitthvað kemur upp á fjárhagslega; lægri tekjur, óvænt útgjöld eða stór útgjöld, þá höfum við ekkert svigrúm til að taka á því,“ segir Anna.

Aðspurð segir hún að stuðningsnet þeirra sé mjög lítið og því sjaldan hægt að leita aðstoðar þar. Hún hefur leitað aðstoðar hjá félagasamtökum og kirkjunni. „Kirkjan hefur verið okkur innan handar með Bónuskort, lyf og nauðsynjar fyrir dótturina. Það er alltaf mjög gott að tala við konurnar sem starfa þar.“

Önnu langar að læra, en það er ekki til peningur fyrir slíku. „Ég get aldrei leyft mér neitt fyrir sjálfa mig, aldrei nein námskeið eða neitt sem ég get leyft mér að gera. Mig dauðlangar á myndlistarnámskeið, það kostar 100.000 krónur. Ég er ekki í stéttarfélagi og fæ því ekki endurgreiðslu þar. Ég er öryrki og fæ 5% afslátt. Auðvitað ræð ég miklu frekar við 95.000 krónur, frekar en 100.000 krónur,“ segir Anna með kaldhæðni, en brosir um leið.

„Ég var hins vegar að byrja í úrræði hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, sem er haldið í Grensáskirkju sem heitir Stattu með þér, sem er alls konar sjálfstyrking og skemmtilegheit einu sinni í viku, þrjá klukkutíma í senn, næstu tvö árin. Þetta er fyrir konur sem eru á örorku og með börn á framfæri.“

Fátæktin hefur áhrif á börnin

Anna hefur leitað aðstoðar hjá ókunnugum í gegnum samfélagsmiðla. „Í algjörri örvæntingu hef ég þurft að leita á náðir samfélagsins með nafnlausri neyðarbeiðni á Facebook og er það líklega það erfiðasta sem ég hef þurft að gera,“ segir Anna, „en sem betur fer sér fólk neyðina og flæðir okkur frekar með hlýju og stuðningi frekar en neikvæðni. En við það að sjá beiðnina koma á skjáinn opnast flóðgáttir, kvíði, örvænting og tár hellast yfir og svo mætir skömmin alveg eins og kölluð,“ segir Anna.

Ástandið hefur mikil áhrif á hana andlega. „Það hefur slæm áhrif á alla líðan að vera alltaf með fjárhagsáhyggjur. Ástandið viðheldur streitu og kvíða hjá mér, sem síðan kyndir undir kvíðaröskun sem ég þjáist af, vanmætti og vonleysi.“

Aðspurð segist Anna vissulega hafa áhyggjur af hvaða áhrif staða þeirra hjóna hafi á börnin þeirra.

„Þau hafa til að mynda ekki haft tækifæri á að stunda frístundir, en þau eru bæði mjög listfeng og liggur áhuginn i tónlist og myndlist en eins og margir vita eru það ekki ódýrustu áhugamálin,“ segir Anna. „Þau horfa á skólafélaga sína marga í tísku- og merkjafatnaði, sem þau hafa ekki fengið og munu ekki geta fengið fyrr en þau geta keypt sér það sjálf. Bekkjarafmæli eru oft haldin á vinsælum stöðum eins og Rush eða farið í gocart, en við getum ekki boðið upp á slíkt. Við tökum aldrei sumarfrí og höfum einu sinni farið í sumarbústað sem fjölskylda,“ segir Anna.

„Það versta er að þau eru í stórhættu á að enda á sama stað, föst í fátækt því kerfið gefur ekki nægt svigrúm fyrir fátæka foreldra að styðja við börnin út í lífið.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira