Anna glímir við fátækt: „Öll sjálfsbjargarviðleitni er drepin hratt og ákveðið“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég er í fátæktartilvistarkreppu, ég er orðin þreytt á því að lífið mitt snúist um að sitja frá þriðja, fjórða degi hvers mánaðar og bíða eftir næstu mánaðamótum, “ segir Anna móðir og eiginkona á fimmtugsaldri, sem er á örorkulífeyri og hefur verið í mörg ár. Anna þekkir fjárhagserfiðleika og það sem þeim fylgir allt of vel.

Ósveigjanlegt og ómanneskjulegt kerfi

Anna hefur skoðun á kerfinu sem hún segir ómannlegt og ósveigjanlegt. „Kerfið er mjög refsisinnað, það gengur alltaf út frá því að allir séu að svíkja. Í stað þess að kerfið er svo stíft að við erum að reyna að lifa það af,“ segir hún og tiltekur nokkur dæmi:

„Þetta skerðingarlausa kerfi okkar, þar sem ég má sem öryrki vinna mér inn 109.000 krónur fyrir skatt, síðan er tekinn fullur skattur af því. Ef ég fengi vinnu núna og myndi mæta til vinnu núna, þá skulda ég 330.000 krónur bara við að taka fyrstu vaktina,“ segir Anna og útskýrir betur. „Ég er með sérstaka uppbót, sem er 33.000 krónur á mánuði, sem er fyrir þá sem ekkert vinna með örorkunni. Ef ég byrja að vinna í september þá skulda ég uppbótina aftur í tímann til síðustu áramóta, þar sem ég vinn á þessu almanaksári.“ Anna segir að Tryggingastofnun minnist aldrei á þetta, og því ætti hún frekar að byrja 1. janúar ef að vinna væri í boði.

„Ef ég væri síðan komin með vinnu þá fara tekjurnar inn í húsaleigubótakerfið, þannig að þær lækka líka. Ég fengi því tvöfalda skerðingu á bótum,“ segir Anna. „Það er ekki litið á að skatturinn er búinn að taka sitt, það er alltaf skoðuð talan fyrir skatt.“

[Rétt er að taka fram að sama á við aðra sem þiggja sömu bætur og Anna.]

Hún nefnir að örorkan sem slík sé ekki há tala, ofan á þá upphæð bætast síðan alls konar uppbætur og viðbætur. „Þetta er bara leikur að orðum. Örorka á bara að vera 330.000 krónur eins og lágmarksframfærsla. Ef ég er síðan í verri stöðu en aðrir öryrkjar þá get ég fengið extra stuðning.“

Hjónin leigja íbúð hjá Félagsbústöðum, sem hefur það í för með sér að þau mega ekki safna neinu sparifé. „Þú verður að klára út af öllum bankareikningum, ef eitthvað er inn á þeim, áður en þú færð aðstoð þar,“ segir Anna. „Ef við ættum möguleika á að leggja fyrir til að safna okkur fyrir íbúð, þá þyrftum við að fá lánaðan bankareikning hjá ættingja, því við getum ekki safnað neinu sparifé.“

„Eins og þegar við fermdum, þá gat hvorugt okkar bætt við okkur vinnu til að safna fyrir þeim kostnaði. Sama var þegar við giftum okkur, húsaleigubæturnar skerðast strax,“ segir Anna. „Þú mátt ekkert gera til að mæta aðstæðum, til að reyna að bjarga þér einhvern veginn. Öll sjálfsbjargarviðleitni er drepin hratt og ákveðið.

Fleiri félagslegar íbúðir eru í sama húsi og fjölskyldan býr í, og bendir Anna á að það geti einnig haft í för með sér að bætur lækki. „Ef barnið mitt fær íbúð í sama húsnæði, þá gæti ég misst bætur af því að þá erum við komin með sama lögheimili. Það er ekkert horft á að við erum að leigja sitt hvora íbúðina, það er bara horft á lögheimilið,“ segir Anna.

Lestu viðtalið í heild sinni hér: Anna er föst í viðjum fátæktar: „Í algjörri örvæntingu hef ég þurft að leita á náðir samfélagsins“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira