Áskorun Friðriks varð að ljóðabók: „Hlutkesti réði því að ég varð til“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Friðrik Agni Árnason gaf nýlega út ljóðabókina Elskhugi/Lover, en hún er afrakstur áskorunar sem hann setti á sjálfan sig, að skrifa eitt ljóð á dag í hálft ár. Bókin sem er á tveimur tungumálum, íslensku og ensku, er nýjasta sköpunarverk Friðriks, en hann hefur æft, keppt í og kennt dans í fjölda ára, lært listræna stjórnun og menningarstjórnun, auk þess að skrifa pistla og halda úti hlaðvarpi. Friðrik segir að draumaverkefnið væri að skrifa sögu um uppruna sinn, sögu móður sinnar og konunnar sem ættleiddi hana.

„Ég hef skrifað frá því ég var krakki og á meira að segja ennþá alls konar texta sem ég skrifaði sem barn, þá elstu frá því ég var átta ára. Það er fyndið að skoða þessi skrif í dag, skrifað á ensku og mjög rangt málfar, en rosalegar tilfinningar,“ segir Friðrik og brosir.

Hann segist hafa byrjað að skrifa ljóð af alvöru þegar hann var búsettur í Dubai árið 2014, þá hafi hann byrjað með ljóðablog og jafnframt verið með ljóðaupplestur. „Og síðan þá hef ég skrifað. Þegar ég flutti heim til Íslands aftur las ég ljóðin mín upp hjá Samtökunum ´78, og kynntist stelpu þar sem var með nýja bókaútgáfu, Óspressan, og ég sit nú þar í stjórn. Þetta er lítil ljóðaútgáfa sem gefur út rit einu sinni á ári og það eina hér á landi sem er gefið út á fjölmörgum tungumálum; japönsku, spænsku, pólsku og íslensku, fólk sem býr hér á landi sem skrifar á sínu móðurmáli. Sjálfur hef ég birt mín ljóð í þessu riti,“ segir Friðrik.

Ljóðabókin Elskhugi / Lover

Elskhugi/Lover er þó frumraun hans. „Bókin er áskorun sem ég setti á sjálfan mig fyrir um tveimur árum um að skrifa eitthvað á hverjum degi í sex mánuði. Ég skrifa dagbók á hverjum degi og hef gert lengi, og hugsaði að ég ætti að prófa að skrifa flæðandi skapandi texta daglega, að setja þá pressu á mig, mér fannst áhugavert að sjá hvort ég gæti það. Manni líður mismunandi milli daga og þegar manni líður vel tekur maður jafnvel meira eftir smáatriðum, og ég sé það í ljóðunum að þegar ég er í góðri núvitund og jafnvægi þá er ég að skrifa mikið um náttúruna og tek mikið eftir umhverfinu. Þegar mér líður illa er ég meira í melankólíu, þá skrifa ég meira um þrá og angist, svona heimspekilegar pælingar,“ segir Friðrik.

„Ég hætti með manninum mínum á þessu tímabili eftir 11 ára samband og það sést í textunum þrá og söknuður, en svo tókum við saman aftur eftir fjóra mánuði“

„Ljóðin og bókin, sem inniheldur hluta ljóðanna frá þessu hálfa ári, eru bæði á íslensku og ensku og ekki þýðing á milli tungumála, hvert ljóð er einstakt á því tungumáli sem það er, af því stundum komu hugsanirnar til mín á ensku. Fyrri hlutinn er meira um ást og losta og seinni hlutinn um hugann og hugsanir, svona meira heimspekilegt. Áskorunin var áhugaverð fyrir mig og áhugavert að sjá hver innblásturinn er, hvað maður er að skrifa og og hvað er að gerast í lífi manns. Ég sá að ástin var sterkasti kaflinn í þessu ferli, og þess vegna heitir bókin Elskhugi/Lover. Ég hætti með manninum mínum á þessu tímabili eftir 11 ára samband og það sést í textunum þrá og söknuður, en svo tókum við saman aftur eftir fjóra mánuði. Þannig að það er áhugavert fyrir mig að horfa til baka og skoða textana og hvernig þeir endurspegla líðan mína. Svo þegar covid skall á fór ég að hugsa hvort ég gæti gefið ljóðin út, hvort ég hefði forsendur til þess, ég hef aldrei litið á mig sem skáld eða rithöfund. Bókin er mjög persónuleg og mér fannst verkefnið vera það í heildina, hún kemur út bæði sem rafbók og sem hljóðbók, sem ég les sjálfur.“

Elskhugi/Lover er á Storytel. 

Hefurðu velt fyrir þér að skrifa meira?

„Ég á örugglega eftir að skrifa fleiri ljóð af því að þetta er bara fyrsta bókin mín og ég á eftir að finna minn tón sem ljóðskáld, þetta er svona verk í vinnslu, það var ekki meðvituð ákvörðun að ætla að skrifa ljóðabók,“ segir Friðrik.

Eiginmennirnir Friðrik og Davíð
Mynd / Facebook

Efnafræði ástarinnar

Hvort sem það voru
bláu augun eða
ferska mjólkurlyktin
sem alltaf skal streyma
frá húðinni þinni
þá var það allavega
eitthvað
sem leiddi mig
til baka.
Kannski við leyfum
okkur að staldra
lengur við
í þetta skipti,
í síðasta skiptið.
Einfaldlega viðurkenna
að plús og mínus
er núll
og núll er
jafnmikið og
jafnvægi
og jafnvægi er
jafnmikið og hugarró
og hugarró slær öllu við
því hvað eigum við,
svona án gríns,
ef ekki
hugarró?

,,Ég er virkilega búinn að njóta lestursins og fá að vera leiddur inn í myndir fullar af nánd og berskjöldun annars vegar og trega og losta hins vegar. Friðrik nær virkilega að smita mig með þessum bitra en samstundis sæta löngunartóni sem fyllir út í fingurgómana án þess að ég upplifi vorkunn eða eymd því húmorinn og hæðnin er alltaf samofin,“ segir Agnar Jón Egilsson, leikari, leikskáld og leikstjóri um bókina. 

Sjá einnig: Friðrik leitaði uppi ástina á jólum: „Eftirsjáin er mín helsta hræðsla“

Hlutkesti réði því að Friðrik varð til

Friðrik segir það einnig draumaverkefnið að skrifa sögu móður sinnar, og móður hennar, þó ekki blóðmóður, heldur konunnar sem ættleiddi hana fyrir rúmum 50 árum. Hann segir að ljóst sé að verkefnið verði ekki einfalt og hann þurfi einhverja styrki til verksins þar sem hann vilji heimsækja Indland.

„Mamma er ættleidd frá Indlandi af þýskri hjúkrunarkonu sem vann á Landakotspítala og íslenskum manni hennar. Mamma er fyrsta ættleidda barnið sem kemur hingað frá þeim hluta heimsins og það þótti mjög merkilegt á sínum tíma. Svo skildu leiðir ömmu og afa, hún flutti aftur til Þýskalands og mamma varð eftir hér hjá afa. Fyrir mér eru þær áhugaverðar konur og margt í þeirra sögu sem ég held að væri gaman að kafa í. Saga þeirra er saga um fjölbreytileika mannkynsins og margt fleira, og minn draumur er að skrifa nokkurs konar sjálfsuppgötvunarferðalag með því að skrifa sögu þeirra,“ segir Friðrik.

„Mamma er götubarn og veit ekkert um sinn uppruna, nema að hún fannst fyrir utan þetta heimili 1968 og var tekin inn af kaþólskum nunnum sem ráku heimilið. Henni var bara gefið nafn og afmælisdagur, sem er dagurinn sem hún fannst“

Hann segir að hann og systkini hans hafi ávallt verið meðvituð um þennan uppruna móður þeirra. Og að í raun hafi hlutkesti ráðið því að hún var ættleidd hingað til lands, og þá um leið að Friðrik og systkini hans urðu til. „Þýsku hjúkrunarkonurnar hér fengu sendar myndir af indverskum stúlkum á munaðarleysingjaheimilinu og beðnar um að athuga hvort einhver hér á landi vildi ættleiða þær og það vildi það enginn á þessum tíma. Þannig að konan, sem varð amma mín, vildi gera eitthvað og ákvað að ættleiða sjálf, en hvernig getur þú valið? Þannig að hún gerði bara „ugla sat á kvisti“ og mamma varð fyrir valinu. Það er áhugavert að pæla í því. Ég varð til vegna hlutkestis. Það er spurning hvort þessi saga muni einhvern tíma líta dagsins ljós þegar ég er búin að mastera skriftirnar,“ segir Friðrik.

„Ég myndi vilja fara og skoða munaðarleysingjahælið sem mamma fannst fyrir utan. Ég hef alltaf fundið að það er einhver hluti af mér sem ég þekki ekki. Eins og dansinn sem ég hef verið í frá unga aldri og tónlistin, þessi skapandi hluti af mér, sem er ekki í öllum í fjölskyldunni. Þannig að mér finnst áhugavert að finna út hvaðan ég kem og hvaðan kemur mamma? Mamma er götubarn og veit ekkert um sinn uppruna, nema að hún fannst fyrir utan þetta heimili 1968 og var tekin inn af kaþólskum nunnum sem ráku heimilið. Henni var bara gefið nafn og afmælisdagur, sem er dagurinn sem hún fannst. Þannig að þetta er áhugavert og mikið ferðalag og verkefni fyrir mig og hana að reyna samt sem áður að finna eitthvað. Mamma gat ekki verið með í þáttunum Leitin af upprunanum af því að hún veit ekki neitt, Það er ekki hægt að rekja neitt um foreldra hennar eða annað frá þessum tíma.“

„Tilfinningin hefur alltaf verið þannig að mér finnst ég þurfa að sanna að ég sé íslendingur, sem ég er, ég auðvitað þekki ekkert annað, enda fæddur og uppalinn hér“

Varðstu fyrir aðkasti sem barn vegna þessa uppruna og/eða litarháttar?

„Ég fann að ég var öðruvísi en margir í kringum mig og tilfinningin hefur alltaf verið þannig að mér finnst ég þurfa að sanna að ég sé íslendingur, sem ég er, ég auðvitað þekki ekkert annað, enda fæddur og uppalinn hér,“ segir Friðrik.

„Í dag er meiri meðvitund í samfélaginu um fjölbreytileika þess, við erum að ferðast fram og tilbaka og með meiri þekkingu á ólíkum menningarheimum. En við erum samt ekki komið það langt að ég er enn þá að þurfa að svara spurningum eins og: „Hvaðan ertu?“, „Hvaðan kom mamma þín?“, „Eru pabbi þinn og mamma ennþá saman?“ Þetta eru spurningar sem ókunnugt fólk er að spyrja mig að, til dæmis fólk sem ég var að afgreiða þegar ég vann í verslun,“ segir Friðrik. „Það er stundum óþægilegt að sitja undir svona yfirheyrslu frá fólki og ég spyr mig hvort þetta sé eitthvað sem hvítt fólk er að lenda í að svara. Hvað ef við værum bara öll að spyrja alla ókunnuga sem við sjáum á sama hátt? Það væri pínu skrýtið.“

Sjá einnig: Friðrik var með minniháttarkennd en dúxaði á Bifröst: „Góð viðurkenning fyrir sjálfstraustið“

Hann segist einnig hafa upplifað sig enn meira öðruvísi þegar hann varð unglingur og sem samkynhneigður. „Ég var ekki bara blandaður, ég var líka samkynhneigður og mér fannst ég svo mikið fiðrildi, mig langaði í aðra hluti en aðrir, mig langaði bara að dansa og ferðast, vera á sviði, vera með fólki og slíkt. Þannig að ég passaði ekki inn í fannst mér. Foreldrar krakkanna sem ég var með í dansinum voru margir mjög ríkir, og fjölskylda mín var alls ekki þannig, frekar bara í millistétt eða pínu fátækt þannig að ég var alltaf með pínu minnimáttarkennd líka, eins og ég væri ekki nóg og það situr í mér ennþá sem fullorðinn einstaklingur að vinna í sjálfum mér og þess vegna finnst mér mikilvægt í dag að lifa opnu lífi. Mér finnst gott að skrifa og tala um persónuleg mál út á við og hleypa fólki í minn hugarheim. Ég geri það með ljóðunum mínum, með skrifum á Facebook-síðuna mína eða pistlum sem ég skrifa á visir.is,“ segir Friðrik.

„Mér finnst það mikilvægt af því þegar ég sé einstakling sem lifir berskjölduðu lífi og er ófeiminn við að segja frá slæmum og góðum upplifunum og tala um hlutina eins og þeir eru þá myndast tenging. Við erum ekki ein í sársauka eða í gleði, við erum mennsk og erum í þessu saman og það er svo gott þegar maður hleypir þessum tilfinningum út og berskjaldar sig og það er það sem ég hef gert sjálfur síðasta árið.“

„Við erum ekki ein í sársauka eða í gleði, við erum mennsk og erum í þessu saman og það er svo gott þegar maður hleypir þessum tilfinningum út og berskjaldar sig og það er það sem ég hef gert sjálfur síðasta árið“

Ertu með því ekki að opna opinberlega á forvitni fólks, í stað þessara örfáu sem áður yfirheyrðu þig við búðarborðið?

„Jú líklega er ég að því, en þá á eigin forsendum. Ég ætla þá bara að vera ótrúlega opinn út á við og allir mega bara sjá inn í sálarheim minn. Ég finn að mér finnst gott að sjá mig persónulega og opinberlega og er ekki hræddur við það. En það er einhvern veginn þannig að við allir dæma allt og alla, og þegar þú ert kominn sem einstaklingur í þetta almannarými þá ertu um leið orðinn skotmark og verður dæmdur hvort sem þér líkar betur eða verr og það er eitthvað sem maður verður bara að taka. Það er alltaf eitthvað fólk sem þarf að tjá sig og sínar skoðanir, en ég þarf ekki að taka það nærri mér.,“ segir Friðrik.

„Margir taka þann pól í hæðina að fara að svara slíkum athugasemdum og reyna að vera með einhver heilbrigð skoðanaskipti. En ég held að þegar um er að ræða einstakling sem er bara fastur í sinni neikvæðni, þá ertu ekkert að fá út úr slíku og best að leyfa einstaklingum bara að blása. Annars verður þú bara eins og gamall karl sem öskrar á ský.

Ég tel þetta þó vera þess virði, maður þarf bara að taka ákvörðun um að þora og gera og vera óhræddur. Ég verð að taka þessum skotum sem munu koma og ná að vinna mig í gegnum þau, leiða hjá mér það ljóta og taka inn það góða. Af því um leið og maður opnar sig persónulega, þá eru aðrir sem opna sig á móti, tengja og fara að segja frá sjálfu sér. Það finnst mér rosalega fallegt og tilgangurinn með þessu öllu, að við sem einstaklingar tengjum saman í stað þess að lifa í einhverri einangrun.“

Facebook-síða Friðriks Agna.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Harpa og Júlíus selja glæsieignina á Kársnesi

Harpa Þórunn Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Orkustofnun, og Júlíus Kemp, kvikmyndagerðarmaður, hafa sett einbýlishús sitt við Kársnesbraut á...

Nýtt í dag

Áfall fyrir Jón Baldvin

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, er í miklum vanda eftir að þrjár nafngreindar konur, Ragna Björg Björnsdóttir,...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -