Vasinn er einfaldlega eftirgerð af rassi og mjöðmum með tveimur höldum. Þau vísa auðvitað til þessa þykka efsta hluta mjaðmanna sem margir kunna ákaflega vel við að grípa um meðan þeir tjá ást sína á makanum. Vasinn, eða réttara sagt vasarnir því um nokkrar útgáfur er að ræða, hafa selst eins og heitar lummur á netinu og eru rifnir út í þeim verslunum sem bjóða þá til sölu.
Höfundurinn Anissa Kermiche er lærð í verkfræði og tölvunarfræðum. Hún vinnur öll sín verk í 3D og hóf hönnunarferil sinn í skartgripahönnun. Hún er velþekkt fyrir fallega perlugripi og eyrnalokka sem kalla mætti skúlptúra en hefur nú tímabundið hætt að vinna með þá í kjölfar velgengni vasanna. „Ég heyri alltaf það sama frá viðskiptavinum,“ segir hún um vasann. „Hann lífgar upp á herbergi og fær alla til að brosa.“ Hugmyndin kviknaði þegar hún var að leita að einhverju til að skreyta eigin íbúð en fann ekkert sem henni líkaði.