Átakanlegt að hætta – „Ég velti fyrir mér hver ég væri án sundsins“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Flestir landsmenn tengja Hrafnhildi Lúthersdóttur eflaust við sund enda á hún glæstan sundferil að baki þar sem hún setti fjölda meta. Sjálfri þykir henni hálfskrítið að líf hennar og tilvera hafi fyrir ekki svo löngu snúist um að synda. Hún segir að einu sinni hafi fátt annað en sund komist að en núna sé kominn tími til að kynnast sjálfri sér upp á nýtt og horfa fram á við.

Það kom mörgum á óvart þegar Hrafnhildur tilkynnti í byrjun árs 2018 að hún væri hætt að keppa í sundi. Hún var þá 27 ára og átti glæstan feril að baki. Hrafnhildur segir þetta hafa verið erfiða ákvörðun en að hún sjái það núna að hún hafi verið rétt.

Hrafnhildur býr í borginni Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum, þar sem foreldrar hennar búa líka, og starfar þar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Epic. Þar vinnur hún að þróun forrits sem gerir starfsfólki spítala kleift að halda utan um sjúkraskrár og aðrar mikilvægar upplýsingar á skipulagðan hátt.

„Ég er sem sagt komin inn í tölvubransann, það var nú ekki planið,“ segir Hrafnhildur og hlær þegar hún er spurð að því hvað hún sé að fást við þessa dagana. „Ég byrjaði að vinna hjá Epic í sumar og hef verið að vinna með starfsfólki sjúkrahúsa í New York við þróun á nýjum hugbúnaði,“ útskýrir Hrafnhildur. Hún segir kórónuveirufaraldurinn hafa sett strik í reikninginn hvað vinnuna varðar og undir venjulegum kringumstæðum væri hún að ferðast á milli Madison og New York til að aðstoða heilbrigðisstarfsfólk við að komast almennilega inn í hugbúnaðinn.

Þegar blaðamaður nær tali af Hrafnhildi hafði hún verið í mikilli vinnutörn þar sem hún vann um 12 tíma á dag með teyminu sínu hjá Epic við að koma þessum nýja hugbúnaði í gagnið. „Þetta gekk mjög vel, en það getur auðvitað verið þreytandi að vinna svona langan vinnudag fyrir framan tölvu,“ útskýrir Hrafnhildur. Hún segir það vera mikil viðbrigði fyrir sig að vera komin í skrifstofuvinnu eftir öll þessi ár í sundinu.

„Ég er enn þá að venjast því að vera komin inn á vinnumarkað og hafa öruggar tekjur og vita að ég sé að vinna mér inn launatengd réttindi. Núna er maður farinn að borga leigu og reikninga,“ segir hún og hlær. Hún segir það hafa verið svolítið sjokk. „Ég var svo hissa að sjá hvað íbúðaleigan er há og svo þarf maður að borga hita og rafmagn líka. Þegar maður var í sundinu þá var mér útveguð íbúð, ég var heppin með það. Svo flutti ég heim og bjó í íbúð sem mamma og pabbi eiga og þá borgaði ég bara eitthvert smotterí í leigu þannig að ég hef ekki verið á almennum leigumarkaði áður,“ útskýrir Hrafnhildur.

Hún segir vinnuna hjá Epic vera frábæra reynslu. „Ég sótti um þessa vinnu fyrir fimm árum, eftir að ég útskrifaðist úr námi í almannatengslum frá Flórída háskóla. Þá ætlaði ég í læknisfræðina og hugsaði með mér að þetta starf væri góð leið til að fá innsýn inn í heilbrigðisgeirann. Ég fékk vinnuna samt ekki á sínum tíma og reyndi þá tvisvar að taka prófið inn í læknisfræðinámið en komst ekki inn,“ segir Hrafnhildur. Það var þá sem hún fór að vinna á hótelinu Deplar Farm í Fljótum í Skagafirði. Hún segir það hafa verið æðislegt. Hún hætti þar í desember í fyrra og fór þá í ferðalag, hálfa heimsreisu eins og hún kallar það. Ferðalagið var þó ekki eins langt eins og til stóð og þurfti Hrafnhildur að fara fyrr heim til foreldra sinna þegar kórónuveiran fór að gera vart við sig.

„Ég var stödd í Ástralíu þegar það kom í ljós að ég þurfti að fara til Madison til mömmu og pabba. Það var svolítið leiðinlegt að geta ekki klárað ferðalagið en svona er þetta,“ segir Hrafnhildur.

Hún segir að hlutirnir hafi þó smollið vel saman hjá sér. „Það var svo fyndið að um leið og ég sagði upp hjá Deplum Farm þá fékk ég tölvupóst hjá Epic þar sem þau voru að kanna hvort að ég hefði enn þá áhuga á starfinu sem ég sótti um fyrir fimm árum. Þau höfðu geymt umsóknina mína og það var eins og þau hefðu fundið á sér að ég væri að leita mér að einhverju nýju verkefni,“ útskýrir Hrafnhildur sem þáði tilboðið um að fara í gegnum umsóknarferlið hjá Epic.

„Þetta var flókið og formlegt umsóknarferli og ég bjóst ekki við að fá starfið eftir daginn.“

Hún segir ferlið sem tók við hafa verið langt og strangt og ólíkt því sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. „Þetta var heill dagur af viðtölum og skoðunarferð um vinnustaðinn sem er á stóru svæði, þetta eru um tólf byggingar og hver og ein bygging er í ævintýraþema, byggingin sem ég starfa í er tileinkuð Galdrakarlinum í OZ. Þetta var flókið og formlegt umsóknarferli og ég bjóst ekki við að fá starfið eftir daginn. Ég ákvað bara að líta á þetta sem áhugaverða lífsreynslu,“ segir Hrafnhildur. Hún segist hafa verið himinlifandi þegar sér var svo boðið starfið.

„Mér fannst eins og ég væri eftir á“

Eins og áður sagði voru það mikil viðbrigði fyrir Hrafnhildi að fara út á hefðbundinn vinnumarkað eftir að hafa helgað líf sitt sundinu í um 18 ár. Hrafnhildur tjáði sig í viðtali við Mannlíf í janúar að sundið hefði gert það að verkum að hún stóð höllum fæti fjárhagslega þar sem öll innkoma fór í kostnað við þátttöku á mótum og uppihald. Hún gat því aldrei lagt fyrir og til dæmis safnað sér fyrir innborgun í íbúð.

Þegar hún horfir til baka þá sér hún að hún hefði þurft meiri aðstoð við að koma undir sig fótunum og takast á við daglegt líf eftir að hún hætti í sundi. „Ég hef verið að hugsa þetta undanfarið, að atvinnuíþróttafólk þyrfti meiri stuðning við að komast út í lífið eftir að það hættir í íþróttum. Ég hefði þurft meiri fræðslu, einhverja lífsleikni, til að takast á við praktíska hluti sem eru partur af daglegu lífi,“ segir Hrafnhildur.

Hún segir það hafi reynt á andlega heilsu að takast á við daglegt líf eftir að vera hætt í sundinu og að hún hafi glímt við þunglyndi um tíma. „Að hætta skyndilega að gera eitthvað sem maður hefur elskað og einbeitt sér að í svona langan tíma, það setur andlega heilsu auðvitað í smávegis ójafnvægi. Ég þekkti ekkert annað en sundið og ég velti fyrir mér hver ég væri án sundsins,“ útskýrir Hrafnhildur.

„Fólk var kannski gift, búið að kaupa íbúð og eignast barn og mér fannst eins og ég hefði ekki gert neitt.“

Hún segir að hún sé enn þá að kynnast sér upp á nýtt og sér líði eins og margt fólk í kringum hana sé að því líka. „Hér áður fyrr töluðu allir um sundið við mann en núna þá er þetta öðruvísi og mér hefur liðið eins og það sem ég er að gera sé eitthvað svo ómerkilegt,“ útskýrir Hrafnhildur. Hún segir að innst inni viti hún að svo sé ekki en að hún þurfi reglulega að minna sig á það.

Á sama tíma og hún var stolt af afrekum sínum í sundi þá fannst henni hún vera „eftir á“ þegar hún horfði á jafnaldra sína. „Fólk var kannski gift, búið að kaupa íbúð og eignast barn og mér fannst eins og ég hefði ekki gert neitt, mér fannst eins og ég væri eftir á. Þá þarf maður bara að minna sig á allt sem maður hefur áorkað.“

Mynd / Hallur Karlsson

Hún segir að samfélagsmiðlar séu líka eitt af því sem olli sér hugarangri eftir að hún hætti í sundi. „Eitt að því sem breyttist eftir að ég hætti voru viðbrögðin á samfélagsmiðlum. Það var erfitt. Þegar ég var að synda þá snerist mest af því sem ég birti á samfélagsmiðlum um sundið og einhver stórmót, þá var maður alltaf að fá nýja fylgjendur og mikil viðbrögð og „læk“. Svo þegar ég hætti í sundi og byrjaði að birta „venjulegar“ myndir þá fékk ég mun færri „læk“ og missti fylgjendur. Þá fór ég að hugsa hvort að fólk hefði engan áhuga á mér ef ég væri ekki sundkona,“ útskýrir Hrafnhildur. Hún segir að þessar tilfinningar efasemdar geri enn þá vart við sig.

Var á hálfgerðum „autopilot“

Spurð nánar út í andlegu heilsuna segir Hrafnhildur: „Ég fór reglulega í gegnum þvílíkan rússíbana andlega í sundinu. Þetta var sambland mikilla efasemda um hvort ég nennti að helga mig sundinu áfram og svo fór maður í algjört „high“ þegar það gekk vel. Ég held að allir sem hafa átt feril sem íþróttamenn þekki þetta, ég held að allir brotni niður andlega og vilji hætta að minnsta kosti einu sinni á ferlinum.“

Hrafnhildur lýsir því að í sundinu hafi hún passað upp á að hugsa vel um andlegu hliðina því að pressan hafi verið mikil. Þegar mest lét var keyrslan svo mikil að sögn Hrafnhildar að það var sjaldan hægt að staldra við og njóta stundarinnar. „Maður var á hálfgerðum „autopilot“ og Ólympíuleikarnir í Ríó voru bara eins og hvert annað mót, maður fékk aldrei að njóta almennilega.“

Hún segir að það hafi komið sér vel að fara reglulega til sálfræðings í þessu umhverfi. Það var henni ekki síður mikilvægt þegar hún hætti í sundinu. Hún mælir með að allir geri það og fari reglulega til sálfræðings. „Það er svo gott að tala við einhvern sem er hlutlaus og ég reyni alltaf að hvetja fólk til að fara til sálfræðings, alveg sama þó að þér finnst þú ekkert þurfa það en svo getur ýmislegt komið upp á yfirborðið þegar þú byrjar í sjálfskoðun, hlutir sem þú heldur kannski að eigi að vera eins og þeir eru en innst inni eru þeir að trufla þig.“

Útlitskröfur í eitruðu umhverfi

Þegar Hrafnhildur er spurð út í hvað hafi mótað hana í lífinu nefnir hún fyrst fjölskylduna sem hefur stutt hana vel og svo sundið. Hún segir sundið auðvitað hafa átt hug sinn allan hér áður fyrr en að núna finnist henni það svolítið skrítin tilhugsun.

„Núna er ég bara í allt öðrum kafla í lífinu og sundið er gamall partur af mér. Í hreinskilni sagt þá líður mér stundum eins og ég hafi ekki verið í sundi, þetta er eitthvað svo ólíkt mér í dag. Þegar ég sé myndir af mér á bakkanum þá líður mér eins og þetta hafi ekki verið ég,“ segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur er hreinskilin og segir að sundið hafi mótað sig á bæði góðan og slæman hátt.

Spurð út í það góða segir Hrafnhildur sundið hafa til dæmis kennt sér stundvísi og aga. „Ég lærði helling í sundinu sem kemur mér að góðum notum dagsdaglega, sundið kenndi mér aga og metnað. Ég er stundvís og kröfuhörð á sjálfa mig og ég held að það tengist sundinu. Mig langar alltaf að gera meira en er ætlast til af mér, það er kannski ekki alltaf heilbrigt því maður þarf líka að kunna að njóta,“ segir Hrafnhildur.

Um slæmu hliðina á sundinu segir Hrafnhildur margt hafa verið eitrað í kringum sundið og að kynjamisrétti og þrýstingur um að uppfylla ákveðnar útlitskröfur hafi verið falið vandamál á meðan hún var í sundinu.

„Konur eru oft undir mikilli samfélagslegri pressu á að líta svona og hinsegin út og þetta er ekkert skárra í íþróttaheiminum. Mér fannst umhverfið eitraðast á Flórída, það kom til dæmis fyrir að ég var að labba á sundlaugarbakkanum á æfingu og einhver þjálfari kom aftan að mér og sagði að rassinn á mér hefði stækkað og að uppáhaldsgallabuxurnar mínar yrðu nú aldeilis þröngar á mér núna. Þetta eyðileggur mann og margar stelpur hafa fengið átröskun og hætt í sundi út af svona athugasemdum. Reyndar bæði stelpur og strákar. En mér fannst alltaf haldið meira upp á strákana, þeir máttu borða meira en stelpurnar og voru ekki undir eins mikilli útlitspressu og þær,“ útskýrir Hrafnhildur.

„…einhver þjálfari kom aftan að mér og sagði að rassinn á mér hefði stækkað og að uppáhaldsgallabuxurnar mínar yrðu nú aldeilis þröngar á mér núna.“

Hrafnhildur segist svo eiga mjög erfitt með að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur og hún telur það vera neikvæða afleiðingu þess að hafa verið í atvinnumennsku. Hún segist hafa verið í vernduðu umhverfi svo lengi þar sem flestra stórar ákvarðanir voru teknar fyrir hana. Hún segist líka eiga það til að ofhugsa hluti og að það sé eitthvað sem hún þróaði með sér í sundinu.

„Ég ofhugsa allt og efast mikið um mig, mér finnst eins og ég þurfi að ganga í augun á öllum og láta öllum líka vel við mig. Hvað ákvarðanirnar varðar þá áttaði ég mig betur á þessu eftir á, hvað þjálfarinn minn tók margar ákvarðanir fyrir mig. Hann sá náttúrlega um að skipuleggja allt fyrir mig og sagði mér bara hvert og hvenær ég átti að mæta. Hann ákvað líka á hvaða mótum ég myndi keppa og aðstoðaði mig með peningamál því að hann vildi ekki að ég væri að hafa áhyggjur af fjármálum á meðan ég átti að einbeita mér að sundinu. Ég hef alltaf verið heppin með að hafa gott stuðningsnet en þetta varð samt til þess að ég get varla tekið ákvörðun sjálf,“ segir Hrafnhildur. Hún tekur fram að þjálfarinn hennar, Klaus-Jürgen Ohk, hafi reynt að halda henni vel inni í málunum en að hún hafi falið honum að taka flestar ákvarðanir.

Hún segir að ákvörðunin um að hætta í sundi hafi verið ein sú stærsta sem hún hafi tekið á lífsleiðinni og að það hafi verið sér mjög erfitt.

Hrafnhildur segir að sundið hafi mótað sig á bæði góðan og slæman hátt. Mynd / Hallur Karlsson

„Ég þurfti að tala við svo marga og fá þeirra álit. Ég vissi innst inni að ég vildi hætta en ég gat bara ekki tekið endanlega ákvörðun. Ég var svo hrædd um að ég væri að gera mistök sem ég myndi sá eftir,“ útskýrir Hrafnhildur. „Ég þurfti stöðugt að spyrja pabba og mömmu og vildi fá þeirra leiðsögn en þetta var bara ekki þeirra ákvörðun að taka. Þau reyndu auðvitað að gefa mér góð ráð en sögðu mér að endanleg ákvörðunin væri í mínum höndum,“ segir Hrafnhildur.

Hún segir að hún hafi líka leitað mikið til sálfræðingsins síns og einnig þjálfara í von um að fá svarið þar.

„Svo bað ég líka vinkonu mína um álit og komst þá að því að hún var í sömu hugleiðingum. Það var gott að heyra að hún var á sömu blaðsíðu og ég og það hjálpaði mér mikið að tala við hana,“ segir Hrafnhildur um Ingibjörgu Kristínu Jónsdóttur en þær tilkynntu á sama tíma að þær væru hættar að keppa í sundi.

„Eftir að ég hætti þá staðfesti Klaus að þetta hefði verið rétt ákvörðun hjá mér, að ég hefði hætt á toppnum, en hann gat auðvitað ekkert sagt það á sínum tíma.“

Spurð út í hvort það sé einhver eftirsjá hjá henni í dag segir hún hiklaust nei. „Það er engin eftirsjá og ég sé að þetta var rétt ákvörðun hjá mér. Ég var búin að gera allt mitt og er ánægð með afrekin.“

Er að kynnast sjálfri sér upp á nýtt

Spurð nánar út í þennan þrýsting um að uppfylla ákveðnar útlitskröfur sem hún nefndi áður segir Hrafnhildur að sundið hafi haft slæm áhrif á líkamsímyndina.

„Eins mikið og sundið hefur kennt mér þá hefur það líka haft slæm áhrif á líkamsímyndina. Þegar ég horfi til dæmis á myndir af mér á sundlaugarbakkanum, þegar ég var í mínu besta formi, þá man ég að mér þótti lærin á mér of feit og axlirnar of breiðar. Svo þegar ég er „venjuleg“ núna þá er ég líka að kvarta og væri til í að vera eins og ég var þegar ég var að synda sem mest.“

Hún segist líka finna fyrir samviskubiti núna yfir því að að hreyfa sig ekki eins mikið og hún gerði þegar hún var atvinnuíþróttamaður, en að hún skilji að það sé ekki rökréttur hugsunarháttur. „Ég þarf alltaf að sannfæra mig um að ég megi sitja róleg og slaka á. Ég fæ samviskubit yfir því að vera ekki að hreyfa mig eins mikið og ég gerði og að vera ekki í forminu sem ég var í. Ég þarf stöðugt að minna mig á að það sé allt í lagi að slappa af og að ég sé flott eins og ég er. Ég þarf að læra að tala betur við sjálfa mig og það er hluti af því að vinna í andlegu hliðinni.“

„Ég fæ samviskubit yfir því að vera ekki að hreyfa mig eins mikið og ég gerði…“

Hrafnhildur segir að hún sé að kynnast sjálfri sér upp á nýtt og finna út hver áhugamál sín séu. „Þegar ég var barn þá langaði mig að verða „bisness“ kona með tvo farsíma og vinna í New York. Svo núna þegar ég er hálfpartinn kominn í þannig stöðu þá hugsa ég með mér hvort að mig langi í alvörunni að eyða lífinu í það, kannski langi mig frekar að vinna eitthvað úti í staðinn fyrir að vera fyrir framan tölvu,“ segir Hrafnhildur.

Hún segist ekki vera alveg viss hver áhugamál sín séu, að hún sé enn þá að finna út úr því.

„Ég fór reyndar á mánaðarlangt barþjónanámskeið þar sem ég lærði að gera alls konar kokteila og að henda flöskum upp í loft og svona,“ segir Hrafnhildur og hlær. „Það var geggjað. Þá hugsaði ég með mér að kannski langaði mig bara að vinna sem barþjónn í eitt ár eða álíka.“

Íþróttir eru henni ofarlega í huga. „Annars þarf ég  alla vega að finna mér eitthvert íþróttatengt áhugamál, mér finnst gaman að lyfta en núna er ræktin auðvitað lokuð.“ Hún segist stundum hafa áhyggjur af því að hún muni ekki finna sér neitt áhugamál. „Þetta er auðvitað bara lúxusvandamál, það er of mikið í boði. Núna þarf ég bara að nýta tímann í að finna mig og kynnast mér, finna eitthvað sem ég elska jafnmikið og sundið á sínum tíma.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Svala og Kristján fengu sér paraflúr

Kærustuparið Svala Björgvins, söngkona, og Kristján Einar Sigurbjörnsson, sjómaður, innsigluðu ástina með húðflúri í gær.Svala fékk...