Bjartsýni og gleði á pöllunum hjá Fendi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Vor- og sumarlína ítalska tískuhússins Fendi hefur vakið gríðarlega athygli tískublaðamanna um allan heim. Hún þykir að sumu leyti afturhvarf til rómatíkur og gleði hippaáranna en að sama skapi er verið að sýna Karli Lagerfeld ákveðinn virðingarvott því hann hannaði sína fyrstu línu fyrir fyrirtækið árið 1967 og starfaði þar í fimmtíu og fjögur ár.

Í lok sýningarinnar var spilað lagið Age of Aquarius með Fifth Dimension en það var einmitt efst á vinsældalistum um þessar mundir og lýsandi fyrir tíðarandann. Söngleikurinn Hárið hafði slegið í gegn og ungt fólk um allan heim fullt bjartsýni og hugsjónaeldi þess fullvisst að það gæti breytt heiminum, aukið samhygð og bróðurþel manna í millum. Silvia Venturini Fendi er yfirhönnuður þessa gamla og virta tískuhúss um þessar mundir en það var stofnað árið 1925 af Adele og Edoardo Fendi.

Eiginlega er óhætt að segja að bjartsýni og gleði hafi ríkt á pöllunum og laglínan: Let the sunshine in, á mjög vel við. Það er sólskin í þessum fatnaði, leikgleði og lífsþorsti. Sennilega kemur engum á óvart að blómamynstur er áberandi í línunni og frjálslegur þægilegur klæðnaður. Sumar og sól endurspeglast í hitabeltisjurtum, grænum, brúnum og gulum litum. Bleikur kemur einnig sterkur inn og þessi litapalletta myndar mjög fallegan samhljóm. Það er eitthvað mjög svo unglegt og frjálslegt við línuna en jafnframt er hún svo klassísk og einföld í formum og línum að hún hentar öllum. Fylgihlutirnir sem Fendi er svo þekkt fyrir eru sömuleiðis einstaklega fallegir og mjög auðvelt að para saman, sandala, töskur, sólgleraugu, belti og fatnað.

Þetta er mjög aðgengileg tíska og einkar klæðileg en margt þarna nýstárlegt og skemmtilegt eins og risastórar töskur, ósamhverf sídd á kjólum og pilsum, hattar og fléttaðar peysur sem minna á net. Hér er beinlínis gert ráð fyrir að hægt sé að setja lag ofan á lag af fötum. Skórnir eru með líflegum geometrískum mynstrum og þægilegir lágbotna skór og strigaskór ríkjandi. Þótt vissulega megi greina hér afturhvarf til fyrri tíma er tískan endurgerð og endurhugsuð á mjög svo skapandi hátt.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira