„Ég sagði henni að nú væri kominn tími til að hætta að berjast“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hrafn Valdísarson missti móður sína, Valdísi Gunnarsdóttur, á sviplegan hátt þegar hann var nítján ára gamall. Þau mæðginin höfðu alla tíð verið náin og miklir vinir og áfallið var mikið. En lífið hélt áfram og Hrafn segir mikilvægt að njóta lífsins og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur. Allt geti breyst á einu augabragði, líkt og það gerði þegar móðir hans lést. Hann stofnaði heimasíðuna Fyrstuibudarkaup.is þar sem hann langar að hjálpa ungu fólki, sérstaklega í sömu stöðu og hann var í, sem er að kaupa sína fyrstu íbúð.

„Ég keypti mína fyrstu íbúð fyrir fimm árum, þá tuttugu og eins árs, án þess að vita neitt um það hvað ég var að fara út í og fékk þá þessa hugmynd að aðstoða ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign,“ segir Hrafn sem nýverið setti á laggirnar vefsíðuna fyrstuibudarkaup.is. Hrafn er löggiltur fasteignasali og segist langa að hjálpa fólki sem er í þeirri stöðu sem hann var í þegar hann keypti sína fyrstu íbúð. „Jafnvel þótt foreldrar séu allir af vilja gerðir til að hjálpa þá eru kannski fimmtán, tuttugu ár síðan þeir keyptu síðast fasteign og margt hefur breyst á þeim tíma. Svo ég hugsa þessa síðu líka fyrir foreldra til að leita upplýsinga svo þeir geti hjálpað börnum sínum að skilja ferlið og allt sem þarf að gera og hafa í huga við fasteignakaup.“

Hrafn missti móður sína, Valdísi Gunnarsdóttur, í desember 2013 þegar hann var aðeins nítján ára gamall. „Þegar mamma dó var vinur hennar, Hannes Steindórsson fasteignasali, mér innan handar þegar ég seldi íbúðina hennar og þegar kom svo að því að ég ákvað að kaupa mér mína eigin íbúð tveimur árum síðar fékk ég hann líka til að aðstoða mig aðeins. Ég hafði rosalega gott fólk í kringum mig sem hefur staðið með mér eins og klettur í þessu öllu saman en ég var ég bara þrjóskur og mig langaði að gera þetta sjálfur. Sem maður átti auðvitað ekkert að vera að gera á þessum tíma.“

Náin mæðgin og miklir vinir

Valdís var Íslendingum að góðu kunn en hún var ein þekktasta útvarpskona landsins um árabil og starfaði meðal annars á Bylgjunni. Þegar hún lést vann hún sem flugfreyja hjá Icelandair þar sem hún vann um margra ára skeið. Hrafn segist sjálfur hafa átt sér þann draum að verða flugmaður. „Mamma elskaði flugfreyjustarfið. Ég fór auðvitað oft í stopp með mömmu þegar hún var að fljúga og fékk stundum að sitja frammi í flugstjórnarklefanum sem var alveg geggjað. Svo ég ætlaði að klára stúdentsprófið og fara síðan í flugnám. En þegar mamma dó var það ekki alveg að ganga.“

Að sögn Hrafns voru þau mæðginin afar náin og miklir vinir. „Það er erfitt að útskýra það en við vorum eins og eitt. Við vorum alltaf saman og töluðum eiginlega okkar eigið tungumál og það var bara alltaf rosalega gaman hjá okkur. Tengslin á milli okkar voru svo mikil. Samt átti ég nú örugglega mína leiðinlegu spretti þegar ég var á unglingsárunum. En mamma var einstök manneskja, ótrúlega góð og alveg yndisleg. Ég held að allir sem þekktu hana geti vottað það. Hún vildi alltaf öllum vel. Hún tók líka upp á ýmsu skemmtilegu í útvarpinu, til dæmis var hún með stefnumótaþátt þar sem hún var að koma ókunnugu fólki saman á deit og svo má segja að hún hafi kynnt Valentínusardaginn fyrir Íslendingum en hún þekkti þann sið að halda upp á hann frá Bandaríkjunum og fannst hann skemmtilegur. Og þótt einhverjir hafi gagnrýnt mömmu fyrir að innleiða þennan bandaríska sið á Íslandi var mömmu alveg sama, hún spáði ekkert í hvað öðru fólki fannst um sig. Reyndar var hún sjálf eiginlega búin að fá nóg af þessum Valentínusardegi því hún var sjálf alltaf ein og kærastalaus þegar að honum kom,“ segir Hrafn og hlær létt. „Við vorum alltaf tvö. Ég gæti alveg trúað því að hún hafi hugsað mikið um mig í þeim efnum, jafnvel aðeins of mikið, sem hún átti auðvitað alls ekki að gera.“

„Það var auðvitað mikið áfall þegar hún greindist en læknarnir sögðust hafa náð öllu meininu í aðgerðinni og fram undan var bjart.“

Valdís greindist með illkynja krabbamein í ristli haustið 2013. „Æxlið var á stærð við appelsínu,“ segir Hrafn, „en það var skorið burt og allt leit vel út eftir aðgerðina. Það var auðvitað mikið áfall þegar hún greindist en læknarnir sögðust hafa náð öllu meininu í aðgerðinni og fram undan var bjart. Ég man að ég grét af gleði þegar ég heyrði það. Við mamma töluðum saman á hverjum degi, ég heimsótti hana líka daglega og sagði henni frá deginum mínum en samt töluðum við alltaf saman í klukkutíma áður en við fórum að sofa. Meira að segja þótt ég væri nýfarinn frá henni. Endurhæfingin á spítalanum gekk vel og mamma var byrjuð að geta gengið og borðað svo það styttist í að hún gæti komið heim.“
En Valdís átti ekki eftir að koma aftur heim.

„Ég sagði henni að nú væri kominn tími til að hætta að berjast“

Að morgni þriðjudagsins 29. október 2013 sendi Hrafn mömmu sinni skilaboð þar sem þau höfðu ekki náð að tala saman kvöldinu áður. „Við höfðum bara bæði sofnað svo ég sendi henni skilaboð og spurði hvort allt væri í lagi. Hún svaraði til baka: „Æi ég sofnaði var þreytt ástin mín, elska þig, þín mamma,“ og við ætluðum að tala saman seinna um daginn. Hálftíma síðar hringdi ein af systrum mömmu í mig, hágrátandi, og sagði mér að mamma hefði dottið, ég yrði að koma strax. Ég var í skólanum og rauk út og beint upp á spítala. Þegar ég kom þangað voru systur mömmu grátandi inni á einhverri stofu, aðstandendaherbergi, og ég gjörsamlega missti það, ég vissi ekkert hvað var að gerast.“

Stuttu síðar segir Hrafn að læknir hafi komið og útskýrt fyrir þeim að móðir hans hefði farið í hjartastopp og henni væri haldið sofandi í öndunarvél. „Hann sagði að hún hefði verið lengi án súrefnis, þeir hefðu náð að lífga hana við en skaðinn væri mikill. Við héldum samt alltaf í vonina um að mamma kæmi til baka en læknarnir gerðu okkur ljóst að þótt hún myndi vakna yrði hún ekki söm. Hún var tekin af öndunarvél og stundum fannst mér eins og hún væri að koma til baka. Mamma var ótrúlega mikill baráttujaxl og barðist alveg svakalega. Þegar tíminn kom til að kveðja hana hvíslaði ég í eyrað á henni að hún væri besta mamma sem hægt væri að hugsa sér, ég elskaði hana mest í heimi og ætlaði að gera hana stolta. Það yrði allt í lagi hjá mér, ég hefði gott fólk í kringum mig. Ég sagði henni að nú væri kominn tími til að hætta að berjast, hún mætti fara. Um þrjátíu sekúndum síðar tók hún síðasta andardráttinn.“

Var reiður fyrst á eftir

Valdís lést 8. desember 2013, á aðventunni sem var hennar uppáhaldstími, og á sama degi og uppáhaldstónlistarmaðurinn hennar, John Lennon, hafði verið skotinn til bana þrjátíu og þremur árum áður. „Svo þegar við gengum út af stofunni hennar hljómaði War is Over með John Lennon í útvarpinu og það var alveg magnað. Ég gleymi því aldrei,“ segir Hrafn og þagnar um stund.

Að sögn Hrafns voru þau mæðginin afar náin og miklir vinir. „Það er erfitt að útskýra það en við vorum eins og eitt. Tengslin á milli okkar voru svo mikil.“

„Næstu vikur og mánuðir voru auðvitað erfiðir og ég viðurkenni að ég var alveg rosalega reiður fyrst á eftir,“ heldur hann áfram. „Ég vildi vita hvað hafði gerst og það var svolítið erfitt að fá upplýsingar um það fyrst.“

Hrafn segir þó hafa verið vel hugsað um móður hans og hann standi í mikilli þakkarskuld við einn læknanna, Ölmu Möller, núverandi landlækni, sem starfaði þá sem yfirlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeildum Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut. „Alma var alveg yndisleg og reyndist okkur rosalega vel. Það var gott að tala við hana, hún útskýrði allt svo vel og var með einstaklega góða nærveru. Ég er henni líka þakklátur fyrir að hugsa vel um mömmu.“

Hvernig var að vera nítján ára og allt í einu án móður sinnar og besta vinar?
„Ef maður lítur á það þannig að ég sé án hennar þá er ég í vandræðum. Það sem skiptir máli er að líta frekar á það þannig að hún sé þarna einhvers staðar að hugsa um mann og minningin hennar er ljósið. Það skiptir dálítið miklu máli hvernig maður hugsar um hlutina. En auðvitað koma tímar þar sem mér finnst þetta bara ömurlegt, ég hugsa stundum að ég eigi kannski eftir að eignast börn sem fái aldrei að kynnast föðurömmu sinni. En minningin skiptir öllu máli og það hvernig maður kemur henni frá sér. Margir þekktu mömmu og vita hver hún var en ég reyni aðallega að halda minningu hennar á lofti mín vegna.“

Trúirðu á líf eftir dauðann?
„Já, upp að vissu marki. Ég veit alveg að mamma … Stundum þarf maður bara að tala og gráta og þá finnst mér gott að tala við mömmu því ég finn það bara á mér að hún heyrir í mér. Mamma var mikil reykelsiskona og mér fannst alltaf notalegt að koma heim eftir handboltaæfingar og finna reykelsislyktina og ég hef fundið svoleiðis lykt eftir að hún dó sem ég get ekki útskýrt neitt frekar.“

Langaði að hefja nýjan kafla

Til að byrja með bjó Hrafn hjá vinapari móður sinnar, þeim Ragnari og Jóhanni. „Þeir eru bara bestu menn í öllum heiminum,“ segir hann brosandi, „og björguðu mér dálítið í þessu öllu saman. Ég hafði verið heima í íbúðinni okkar mömmu í kringum aðgerðina en eftir að þetta gerðist með hjartastoppið flutti ég til þeirra Ragga og Jóa, það fyrsta sem ég hugsaði þegar þetta átti sér stað var að ég vildi fara til þeirra. Og ég verð þeim ævinlega þakklátur fyrir að taka mig undir sinn verndarvæng, það var ekki sjálfsagt að taka bara við nítján ára unglingi í þessum aðstæðum en þeir eru auðvitað bara einstakir. Svo kom að því að mig langaði að hefja nýjan kafla og ákvað að kaupa mér mína eigin íbúð og flytja í hana.“

Hrafn fjárfesti í íbúð í Urriðaholti og er einn af fyrstu íbúum hverfisins. Þar býr hann ásamt kærustu sinni, Ísabel Petru Nikulásdóttur, og hundinum Sesari. Sem fyrr segir var það við íbúðarkaupin sem hugmyndin að síðunni Fyrstuibudarkaup.is kviknaði. Það var líka þá sem Hrafn fór að íhuga að næla sér í löggildingu sem fasteignasali. „Ég talaði við Hannes Steindórsson, sem var vinur mömmu og er yfirmaður minn í dag á fasteignasölunni Lind, og spurði hann út í námið. Hann hvatti mig eindregið til að kýla á þetta og ég komst strax inn eftir að hafa sótt um.“

Námið er kennt í Endurmenntun Háskóla Íslands og Hrafn segir það hafa gengið vel þótt það hafi verið strembið. Þegar hann svo útskrifaðist tveimur árum síðar sem löggiltur fasteignasali hafi hann verið sá yngsti á landinu. „Ég átti metið reyndar ekkert rosalega lengi, það var kominn nýr methafi fljótlega. Svo er ég ekki lengur sá yngsti á Lind þannig að þeir gömlu eru hættir að kalla mig Youngblood eins og þeir kölluðu mig stundum,“ segir hann hlæjandi.

Að kaupa fyrstu eign á að vera skemmtilegt

Hann segist vissulega hafa fundið fyrir því í byrjun að fólk væri ekki alveg tilbúið að treysta þessum unga strák í viðskiptum sem eru oft og tíðum upp á háar fjárhæðir. „En það var bara alveg í byrjun. Eftir að ég útskrifaðist og eftir því sem reynslan varð meiri finn ég ekki fyrir þessu. Ég er rosalega vandvirkur og vil gera hlutina alveg upp á tíu og held að fólk finni það. Stéttin er líka að yngjast, áður var hægt að vinna sem fasteignasali án þess að hafa lokið námi í löggildingu.“

„Að kaupa fyrstu íbúð er hrikalega skemmtilegt og á að vera það. Eina sem á að vera erfitt við það er bara að bíða eftir því að fá afhent en það er samt líka svo spennandi og gaman.“

Þegar fasteign er skoðuð og keypt segir Hrafn að mikilvægt sé að skoða nógu mikið. „Tilfinningin sem maður fær við að ganga inn í íbúðina hefur mikið að segja. En það er auðvitað margt sem skiptir máli, eiginlega allt. Það er gott að vera búinn að áætla hvað kostar að eiga íbúð því það snýst ekki bara um að greiða lánið og Internet. Það þarf að greiða fasteignagjöld, tryggingar, húsfélag og margt fleira. Svo þarf maður líka að hafa í huga að það kostar að lifa, það er dýrt að kaupa í matinn og reka bíl. Það er því gott að reyna að sjá fyrir sér hvað maður gæti um það bil verið að borga í allar nauðsynjar á mánuði.“

Hvað verður í boði á heimasíðunni, Fyrstuibudarkaup.is?
„Fyrst og fremst upplýsingar um ferlið frá A til Ö, alveg frá því þú byrjar að skoða og þar til þú skrifar undir afsalið. Síðan er ætluð ungum kaupendum fyrstu fasteignar sem geta fundið þar upplýsingar um ferli fyrstu íbúðarkaupa og hvað skal hafa í huga þegar að þeim kemur. Þar verður líka yfirlit yfir þær eignir á söluskrá sem gætu hentað þessum markhópi ásamt fréttum af fasteignum. Svo vil ég líka taka fram að ég er með þetta á mannamáli. Oft er flókinn texti sem ekki allir skilja en ég vil hjálpa bæði ungum kaupendum og foreldrum þeirra eða forráðamönnum að komast í gegnum þetta á auðskiljanlegan hátt. Að kaupa fyrstu íbúð er hrikalega skemmtilegt og á að vera það. Eina sem á að vera erfitt við það er bara að bíða eftir því að fá afhent en það er samt líka svo spennandi og gaman. Svo má hafa samband við mig, senda mér tölvupóst, hringja eða jafnvel kíkja í kaffi.“

Hrafn hlær þegar blaðamaður spyr hvort hann sjái samt nokkuð einungis um fasteignakaup unga fólksins eða hvort hann vinni líka fyrir miðaldra konur og eldri menn. „Já, ég er ekki sérhæfður sölumaður fyrir ungt fólk þótt ég hafi verið að koma þessari síðu í loftið. Ég er auðvitað löggiltur fasteignasali og í Félagi fasteignasala og vinn fyrir fólk á öllum aldri. Það gengur bara vel og ég mun halda því áfram.“

„Getur alveg tekið á að hafa ekki stöðugar tekjur“

Þótt blaðamanni finnist auðheyrt að Hrafn njóti starfsins hugsar hann upphátt og spyr hvort það geti ekki líka tekið á þar sem tekjurnar eru væntanlega undir því komnar hvernig gangi. „Jú,“ svarar Hrafn. „Ég viðurkenni að það getur alveg tekið á að hafa ekki stöðugar tekjur. En ef maður hefur mikinn metnað, leggur sig allan fram og sinnir sínu starfi eins vel og hægt er þá þarf maður ekki að hafa neinar áhyggjur. Mér finnst mikilvægt að hugsa um hag bæði seljanda og kaupanda, því þótt við séum að selja fyrir kaupandann og viljum auðvitað að hann fái sem mest fyrir eignina sína viljum við samt að báðir gangi sáttir frá borði. En ég viðurkenni að kvíðinn blossar upp þegar maður finnur að það er svolítil lægð í efnahagslífinu eins og hefur verð í þessu ástandi sem hefur ríkt síðustu vikur. Markaðurinn er samt ekki dauður. Fólk í stöðugri vinnu sem finnur ekki eins mikið fyrir efnahagsástandinu hefur verið að finna tækifæri á markaðnum. Vonandi fer þetta ástand bara að komast aftur í réttar horfur og vonandi mun enginn þurfa að missa vinnuna eða húsnæðið sitt.“

Þú nefnir kvíða, hefurðu fundið mikið fyrir honum?
„Eftir að mamma dó varð ég alveg rosalega kvíðinn. Þetta var auðvitað erfiður tími og svolítið mikil óvissa með framhaldið. Ég skipulagði jarðarförina hennar með hjálp frá fjölskyldunni og reyndi að hafa allt í anda mömmu, eins og ég ímyndaði mér að hún hefði viljað hafa þetta. Athöfnin var í troðfullri Hallgrímskirkju og Björgvin Halldórsson og Stefán Hilmarsson, sem voru góðir vinir mömmu, sungu ásamt hljómsveit. Mamma elskaði kántrítónlist, og ég elska kántrí í dag, svo ég lét til dæmis flytja uppáhaldskántrílagið hennar. Ég fékk liðsfélaga mína úr handboltanum hjá Stjörnunni til að koma og þeir mynduðu heiðursvörð frá kirkjunni að líkbílnum þegar kistan var borin út. En já, líklega þróaðist kvíðinn út frá þessari óvissu með framhaldið og stressið í kringum allt á þessum tíma. Og ég finn að hann er undirliggjandi og getur blossað upp við ákveðnar kringumstæður.“

Bauðst þér ekki áfallahjálp þegar mamma þín dó?
„Jú, en ég þáði hana ekki. Ég sagði alltaf nei. Ég hélt að það væri allt í góðu hjá mér, ég ætlaði bara að halda áfram með lífið og taka þetta á hörkunni. En þegar ég hugsa til baka þá sé ég að maður hefði svo sannarlega mátt við einhverri hjálp. Ég fór í einn tíma til sálfræðings en mér fannst það ekki gera neitt fyrir mig. Mér finnst eiginlega bara virka best við kvíðanum að fara í gönguferð með Sesari, hundinum mínum, og svo er Ísabel kærastan mín yndisleg.“

Sesar kom inn í lífið á hárréttum tíma

Hrafn brosir þegar talið berst að Sesari og vitandi það að hann býr á fjórðu hæð í blokk spyr blaðamaður hvort það sé ekkert mál að vera með hund í sambýli. „Mér finnst þetta orðið aðeins öðruvísi en það var og fólk svolítið rólegra yfir því en auðvitað þarf að fá leyfi frá öðrum íbúum. Sumir eru með bráðaofnæmi, mjög fáir þó, og aðrir þola ekki hunda og vilja ekki fá hund í stigaganginn en ég er alveg rosalega heppinn með nágranna sem hafa meira að segja passað Sesar þegar þess hefur þurft.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Sesar kom fyrir tilviljun inn í líf Hrafns og greinilega á hárréttu augnabliki. „Mig hafði alltaf dreymt um að eignast hund af tegundinni golden retriever sem er uppáhaldstegundin mín. Ég hafði verið að vafra á Netinu að athuga hvort það væru einhver got á næstunni og þá sá ég þennan yndislega ræktanda, golden magnificent, sem býr eða bjó þá á þeim tíma á sveitabýli á milli Borgarness og Stykkishólms. Hún var með tveggja vikna got og þau áttu einn rakka eftir þannig að ég dreif mig af stað bíl og kíkti í heimsókn. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar ég sá hann Sesar minn fyrst. Hann var tveggja mánaða þegar hann kom þarna inn í líf mitt en hann er að verða fimm ára seinna á árinu. Og hann hjálpaði mér í gegnum mjög erfiðan tíma. Hann er fjörutíu kílóa kúrubangsi og hvers manns hugljúfi, geltir aldrei og eyðileggur aldrei fyrir öðrum, það er allt rétt sem hann gerir.“

Það er komið að því að slá botninn í viðtalið. En hvernig skyldi þessi ungi maður sjá framtíðina fyrir sér? „Ég vil satt að segja ekki gera neinar væntingar til framtíðarinnar. Ég ætla bara að reyna að gera mitt besta og vaxa í starfi, ég nýt vinnunnar minnar í botn. Svo sagðist ég nú alltaf ætla að eignast barn þegar ég yrði 27 ára sem er bara á næsta ári svo maður þarf kannski að fara að skoða það eitthvað betur,“ segir Hrafn og skellir upp úr. „En aðalmálið er að njóta lífsins og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, það getur allt breyst á einu augnabliki.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira