„Ég var ekki vond mamma, bara veik“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni: 

Ég kynntist ég manninum mínum tvítug og einu og hálfu ári seinna fæddist okkur fyrsta barnið. Við vorum stoltir foreldrar og bjuggumst við að yndislegur tími biði okkar. Litla skinnið var óvært og lét okkur aldeilis finna fyrir að það væri til. Ég beið en fann aldrei fyrir þessari gleði og hamingju sem á að fylla allar mæður. Ég fór úr jafnvægi sama hversu lítið bjátaði á og svefninn fór úr skorðum. Matarlyst mín var mjög lítil líka og maðurinn minn sá að eitthvað var að. En allir hafa heyrt talað um sængurkvennagrát og þetta hlaut bara að flokkast undir hann og lagast þegar frá liði.

Við ræddum þetta aldrei hvorki við vinkonur mínar né fjölskylduna og enginn vissi neitt um það sem ég var að ganga í gegnum fyrr en mörgum árum seinna. Eftir nokkra mánuði komst hins vegar sæmilegt jafnvægi á fjölskyldulífið og allt gekk bærilega eftir það. Fjórum árum seinna kom annað barn okkar í heiminn, yndislegt lítið kríli sem svaf allan sólarhringinn fyrstu þrjá mánuðina. Tveimur dögum eftir fæðinguna byrjaði svipuð vanlíðan hjá mér og eftir fyrri fæðinguna. Ég gat ekki sofið, hafði enga matarlyst, grét stöðugt og kveið öllu. Ég leitaði til heilsugæslunnar á staðnum fimm dögum eftir að ég kom heim af sjúkrahúsinu og þá var ég komin í algjöran vítahring, hafði ekkert getað sofið og ég hafnaði barninu mínu. Svo langt var ég leidd að ég taldi að ef barnið myndi deyja færi öllum að líða vel aftur.

Ættingjar tóku nú eftir að eitthvað var að. Ég óð um eins og ljón í búri og kom engu í verk, enda gat ég ekki einbeitt mér að neinu. Hvernig sem ég reyndi gat ég ekki fest hugann við neitt og kvíðinn stigmagnaðist. Ég þurfti að gefa ótrúlega mikið af mér með tvö lítil börn sem þörfnuðust mömmu sinnar en ég gat enga umhyggjusemi sýnt. Ein systra minna var svo yndisleg að koma og vera hjá okkur í viku, enda höfum við systkinin alltaf verið mjög samrýmd. Hún vildi fá mig með sér í frí upp í sumarbústað og ég fór með börnin mín þangað og þar gekk allt betur því við vorum tvær um að sinna barnahópnum. Önnur systir mín býr úti á landi og hún kom einnig til mín um tíma og þær studdu þær við bakið á mér í langan tíma.

„Ég fór úr jafnvægi sama hversu lítið bjátaði á og svefninn fór úr skorðum.“

Ég leitaði til geðlæknis og heimilislæknisins míns og þeir hjálpuðu mér. Ég fékk þunglyndislyf og var ráðlagt að ræða við ljósmóðurina sem kom til mín í ungbarnaeftirlit og segja henni hvernig mér liði hverju sinni. Loksins treysti ég mér til að byrja að sinna heimili og börnum á eðlilegan hátt en öll vissum við að langt var í að ég næði fullum bata. Nú var komið í ljós að þetta var sjúkdómur sem hrjáði mig og að í mínu tilfelli var hann tengdur fæðingu og mundi lagast með tímanum.

Þriðja barnið fæðist

Árin liðu og við ákváðum að eignast þriðja barnið en við vissum að svo gæti farið að þunglyndið næði tökum á mér aftur. Við vonuðum þó að fæðing þessa barns myndi færa mér hamingju. Svo fæddist barnið. Strax morguninn eftir fæðinguna vaknaði ég með nagandi kvíðatilfinningu. Þá vissi ég að þriðja þrautargangan var framundan og bað strax um að fá lyf. Þau fékk ég og eftir sjö daga á fæðingardeild fór ég heim til að takast á við fullt hús af börnum. Fyrstu mánuðina þjáðist litla barnið af magakveisu svo við höfðum nóg að gera. Alltaf dimmdi meira og meira í hugskoti mínu með hverjum deginum sem leið. Ég vildi orðið bara fá að deyja til að losna við þessa vanlíðan og finna frið í sálinni sem mér hafði ekki tekist að finna í mörg ár. Líðan mín var svona þrátt fyrir að ég tæki lyf.

Ég var öll dofin tilfinningalega og hafði engan tíma til að rækta sjálfa mig á nokkurn hátt. Guð veit að ég elska börnin mín en mér fannst ég algjörlega hafa brugðist sem móðir. Þess vegna taldi ég þau betur sett án mín. Maðurinn minn stóð alltaf eins og klettur við hliðina á mér en hann átti ekki síður erfitt en ég. Honum fannst hann gersamlega úrræðalaus og ekkert geta gert til að hjálpa mér. Mamma og vinkona mín sáu fljótt að heima gæti ég ekki verið og að öryggis míns væri betur gætt yrði ég lögð inn á geðdeild. Ættingjar og vinir voru hreinlega orðnir hræddir um að ég kynni að grípa til einhverra örvæntingarúrræða.

„Það er meira átak en margan grunar að losna úr viðjum þunglyndis og halda áfram að takast á við lífið.“

Ég horaðist stöðugt og það varð að neyða ofan í mig mat og drykk. Eftir mánaðardvöl á sjúkrahúsinu sáust enn engin batamerki en þrátt fyrir það var ég send heim. Systur mínar komu þá aftur til bjargar og sú sem býr úti á landi sendi eftir mér. Við sáum að þetta var besta lausnin eins og aðstæður voru og ég fór til hennar með litla barnið en pabbinn var heima með hin tvö. Það er ólýsanlegt hvernig öllum leið daginn sem ég fór. Börnin voru sorgmædd yfir að mamma var að fara burt og spurningarnar dundu á mér. Hvers vegna mamma? Hvenær kemurðu aftur? Af hverju ertu ekki heima eins og allar aðrar mömmur? Viltu ekki taka okkur með? Hvað er að? Mér fannst ég algjörlega hafa brugðist öllum. Hvers konar móðir var ég eiginlega? Það hjálpaði þó að tengdamamma mín var svo yndislega góð að flytja inn á heimilið til að hjálpa til.

Beint á geðdeild með hana og það strax

Daginn eftir að ég kom til systur minnar hafði hún samband við sálfræðing í þeim tilgangi að biðja hann að meta líðan mína og hvað hægt væri að gera. Það var fljótgert af hans hálfu; beint inn á geðdeild með hana og það strax! Ég fór með barnið með mér og á þessari deild var yndislegt starfsfólk sem var allt að vilja gert að hjálpa mér. Ég sá um barnið á daginn en á næturnar var kona með það inni í læstu herbergi. Allt var gert  sem hægt var til að koma matarlystinni í lag en ég hafði lítið getað borðað og ekkert hugsað um líkamlega heilsu mína frá því ég átti barnið. Yfirleitt borðaði ég ekki meira en eina brauðsneið eða drakk eitt mjólkuglas á dag. Líkaminn var byrjaður að þorna upp og nú var tekinn upp sá siður að láta mig skrá allt sem ég borðaði og drakk og hvenær ég færi á klósettið.

„Börnin vildu auðvitað fá athygli mína óskerta fyrst ég var loksins komin og við vorum saman á ný.“

Ég var látin reyna ný lyf í staðinn fyrir önnur sem ég hafði áður tekið og ég var hvött til að fara sem oftast út að ganga. Ég mátti þó aldrei fara fylgdarlaus út. Í einn og hálfan mánuð dvaldi ég á þessari geðdeild og verð að segja að mér fannst hún langtum betri á allan hátt en sú sem ég vr á heima í Reykjavík. Maðurinn minn kom einu sinni í heimsókn og gisti hjá mér eina nótt. Þegar ég útskrifaðist fór ég til systur minnar, enda ekki alveg orðin góð. Hjá þeim var ég í nokkrar vikur og eftir þriggja mánaða fjarveru frá heimilinu lá leiðin loks heim á ný.

Mér fannst það stórt skref sem ég steig þann dag og alls ekki svo erfitt. Börnin vildu auðvitað fá athygli mína óskerta fyrst ég var loksins komin og við vorum saman á ný. Ég vil að þeir sem staðið hafa í sömu sporum og ég átti sig á því að þetta er sjúkdómur sem verður að ræða um og þeir sem þjást af honum ættu skilyrðislaust að leita sér hjálpar. Það er meira átak en margan grunar að losna úr viðjum þunglyndis og halda áfram að takast á við lífið. Ekki fyrr en það hefur tekist er hægt að njóta þess sem lífið býður upp á.

Fimmta hver sængurkona fær fæðingarþunglyndi

Fæðingarþunglyndi er hræðilegur sjúkdómur. Fimmta hver sængurkona fær fæðingarþunglyndi. Veikin rænir okkur gleðinni og hamingjunni sem við eigum rétt á að njóta við fæðingu barna okkar og skilur okkur eftir með kvíða og óhamingju í staðinn. Yngsta barnið mitt er nú tveggja ára og enn á ég langt í land. Ég er búin að fara niður í dýpstu og dimmustu dalina en með góðri hjálp tókst mér að feta mig hægt og rólega upp aftur. Eftir því sem maður kemst hærra því skærara verður ljósið. Á hverju kvöldi þakka ég guði fyrir börnin mín þrjú og yndislega manninn sem stóð með mér á erfiðasta tíma lífs míns. Við lærðum margt af þessari reynslu en eitt ber þó hæst og það er að við ættum aldrei að taka lífinu sem sjálfsögðum hlut. Lífið er gjöf sem okkur er gefin og okkur ber skylda til að fara vel með það.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Alma og Joey Christ og eiga von á barni

Parið Alma Gytha Huntingdon-Williams, jarðfræðingur, og Jóhann Kristófer Stefánsson, útvarpsmaður og rappari, eiga von á barni.Jóhann, sem...