Elskar bókaskrifin eins og tónlistina – „Er að búa til einhvern hugarheim fyrir fólk”

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Tónlistarkonan og rithöfundurinn Birgitta Haukdal var að senda frá sér tvær nýjar barnabækur. Þetta eru ellefta og tólfta bókin frá henni á síðustu fimm árum. Hún segist elska að skrifa bækur fyrir börn og að áhugi þeirra sem lesa bækurnar sé það sem drífi hana áfram í skrifunum. „Ég geri þetta af hugsjón og vil ekki að bækurnar kosti of mikið,“ segir Birgitta.

Nýju bækurnar hennar Birgittu heita Lára lærir að lesa og Lára fer í leikhús. Í þeim fá lesendur að fylgja Láru og bangsanum Ljónsa, sem svo mörg börn eru farin að kannast vel við, í skólann og í leikhús.

Lára lærir að lesa er nýkomin út.

Birgitta segist fá innblástur úr daglegu lífi barnanna sinni tveggja. „Fyrstu bækurnar komu út sama ár og Saga Júlía dóttir mín fæddist. Þá var Víkingur sonur minn sex ára. Hann var ástæðan fyrir því að ég byrjaði að skrifa. Ég var búin að vera að leita að bókum sem hann hefði gaman af en endaði á að skrifa þær sjálf,“ segir Birgitta.

„Þemað er alltaf hversdagsleikinn og ævintýrin sem búa í honum. Innblásturinn kemur úr þeirra daglega lífi og því sem þau eru að upplifa. Núna er stelpan mín til dæmis að fara að byrja í skóla og þannig kviknaði hugmyndin að bókinni Lára lærir að lesa. Í henni fylgjumst við með Láru byrja í skóla, hún hefur verið að æfa sig að lesa heima og tilhlökkunin er mikil. En þegar hún byrjar að læra að lesa í skólanum er það ekki alveg eins skemmtilegt og hún hélt, hún verður hálfslöpp og pirruð en þá kemur í ljós að Lára þarf að fá gleraugu. Í bókinni fáum við þá líka að fylgja henni til augnlæknis,“ segir Birgitta.

Hvað hina bókina varðar, Lára fer í leikhús, var borðleggjandi að skrifa um leikhúsferð Láru. „Dóttir mín er nefnilega alveg leikhússjúk. Í þeirri bók fáum við að fylgjast með leikhúsferð Láru með vini sínum, honum Atla.“

Skapar hugarheim fyrir fólk „að hoppa inn í“

Birgitta segir bókaskrifin eiga vel við sig. „Mér finnst þetta ótrúlega gaman. Það er líka ákveðin nútvitund sem felst í því að setjast fyrir framan tölvuna og gleyma sér í einhverri sögu. Þetta á svo vel við mig, alveg eins og tónlistin, enda eru þetta náskyld listform, það að semja texta og tónlist og að skrifa bækur. Ég er að búa til einhvern hugarheim fyrir fólk að hoppa inn í.“

Hún segir góðar móttökur frá börnum sem lesa bækurnar hennar vera það sem drífi sig áfram í bókaskrifum. „Ég fæ ótrúlega mikið út úr þessu og ég vanda mig mikið, ég er náttúrlega að skrifa fyrir mín eigin börn og svo er algjör bónus að önnur börn njóti líka.“

Birgitta segir börnin sín alltaf vera jafnspennt fyrir Lárubókunum.

Birgitta segir börn sín tvö alltaf vera spennt yfir því að fá nýja bók um Láru og Ljónsa. „Núna hafa bækurnar fylgt börnunum mínum í fimm ár og þau fá alltaf tvær nýjar bækur á ári. Ef einhver ætti að vera komin með leiða á Lárubókunum væru það börnin mín,“ segir Birgitta og hlær. „En þau eru alltaf jafnspennt að heyra nýjustu söguna.“

Tónlistarbók væntanleg

Líkt og hjá flestum hefur daglegt líf breyst mikið hjá Birgittu í kórónuveirufaraldrinum.

„COVID hefur haft þau áhrif að tónlistin dettur nánast alveg út. Ég hef reyndar verið ótrúlega heppin og fengið ansi mörg gigg á sjónvarpsstöðvum og vefmiðlum, þannig að ég get ekki kvartað mikið. Eðlilega hefur samt verið minna að gera í tónlistinni undanfarið og heimaveran verið mun meiri. En ég hef nýtt tímann vel og vandaði mig extra mikið við gerð nýjustu bókanna og bætti svo þeirri þriðju við sem ég er ótrúlega spennt að sýna ykkur,“ segir Birgitta.

Spurð nánar út í þessa þriðju bók segir Birgitta: „Það er tónlistarbók. Hún kemur út fyrstu vikuna í desember. Hún er yndisleg og ég hlakka svo til að leyfa börnunum og foreldrum að sjá hana,“ segir Birgitta.

„En ég hef nýtt tímann vel og vandaði mig extra mikið við gerð nýjustu bókanna og bætti svo þeirri þriðju við.“

Í tónlistarbókinni er Lára í aðalhlutverki og í bókinni er spilari sem spilar lög. Með hverju lagi er opna með söngtexta og myndum. „Börnin geta hlustað á bókina og skoðað myndirnar í leiðinni, svo geta þau líka spilað lögin án söngs og þá er þetta orðin karaókíbók,“ segir Birgitta spennt. Hægt er að tengja heyrnartól  við bókina. „Þetta er dásamleg viðbót við Láruseríuna.“

Lét fjaðrafokið ekki á sig fá

Birgitta segist njóta þess í botn að skrifa bækurnar um Láru en árið 2018 varð mikið fjaðrafok í kringum bókina Lára fer til læknis. Þar kom „hjúkrunarkona“ við sögu og bentu þá margir á að rétt starfsheiti væri „hjúkrunarfræðingur“. Málið vatt upp á sig og margt fólk hellti úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum á netinu.

Aðspurð hvort fjaðrafokið í kringum bókina hafi dregið úr áhuga hennar á að skrifa fleiri bækur um Láru segir Birgitta hiklaust nei.

„Alls ekki. Ég vanda mig alltaf eins og ég get og ég læt ekki bók frá mér nema að ég sé virkilega ánægð með hana. Maður hættir ekkert að skrifa þó að eitthvað svona komi upp á. Það er enginn fullkominn og ég var virkilega að vanda mig. Þeir sem finna sig knúna til að koma sinni skoðun á framfæri verða að fá að njóta sín, ég sendi þeim bara ást og hlýju og svo held ég áfram,“ segir Birgitta.

„Það er enginn fullkominn og ég var virkilega að vanda mig.“

„Auðvitað var um mistök að ræða og þau voru leiðrétt við fyrsta tækifæri. Það skemmtilega er að við höfum þurft að prenta bókina margsinnis eftir upprunalegu útgáfuna þannig að við leiðréttum þetta bara.“

Gagnrýnin sem Birgitta hlaut var sett fram á mismálefnalegan hátt á samfélagsmiðlum. Hún segist ekki hafa látið það á sig fá. „Það er líka skemmtilegra að blása sum mál upp og þá leyfum við fólki bara að pústa og svo er það búið. Það er langbest að leiða sumar athugasemdir hjá sér.“

Vill að foreldrar og börn lesi oftar saman

Hvað er svo fram undan hjá Birgittu?

„Þetta eru auðvitað mjög skrítnir tímar. Undir venjulegum kringumstæðum færi ég í verslanir og kynnti bókina, og læsi hana fyrir börn í skólum, leikskólum og á bókasöfnun. En í þessu ástandi er það ekki hægt. Ég reyni bara að vera dugleg að kynna bækurnar á samfélagsmiðlum. Þetta ástand mun ganga yfir og þá er ágætt að reyna að njóta í heimaverunni,“ segir Birgitta sem lítur á björtu hliðarnar. Hún er þakklát fyrir allar þær stundir sem hún hefur átt með börnunum sínum í mikilli heimaveru á þessu ári.

„Ég veit að það styttist í að allt fari á fullt aftur þannig að ég hvet fólk til að staldra við og njóta líðandi stundar.“

Lára og Ljónsi eru mörgum íslenskum börnum að góðu kunn. Þess vegna fannst Birgittu tilvalið að fara í samstarf með Lín design og hanna náttföt og rúmföt með þessum skemmtilegu karakterum sem svo mörg börn elska.

Hún hvetur alla foreldra til að gefa sér tíma reglulega til að eiga notalega lestrarstund með börnunum sínum. „Ég hef frá upphafi lagt áherslu á að halda kostnaði niðri, ég vil ekki að þetta séu dýrar bækur af því að ég vil að foreldrar og börn lesi oftar saman. Ég vil frekar fá minna í budduna og að lestrarstundum fjölgi hjá börnum. Ég verð aldrei rík af því að skrifa þessar barnabækur frekar en flestir rithöfundar á Íslandi. Við gerum þetta af hugsjón og ástríðu. Maður reynir að gera vel og vonar að sem flestir taki vel í það sem maður er að gera,“ segir Birgitta. Hún segist þakklát fyrir þær viðtökur sem bækurnar hennar hafa fengið í gegnum árin. „Viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar þannig að það eru greinilega mörg börn sem tengja við bækurnar.“

Þess má svo geta að undanfarið hefur Birgitta reglulega haldið lestrarstund þar sem hún les Lárubók fyrir dóttur sína og nokkrar vinkonur hennar og tekur upp á myndband. Hún birtir myndböndin svo á Facebook, Instagram og YouTube á hverjum laugardegi og mun gera það fram að jólum. „Þannig að öll börn geta horft á lestrarstundirnar,“ segir Birgitta sem hvetur áhugasama til að kynna sér málið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Óska eftir almennum lesendum í verðlaunanefndir

„Okkur fannst kominn tími á rödd hins almenna lesanda,“ segir Bryndís Loftsdóttir, starfsmaður Félags íslenskra bókaútgefenda en...