Elskar ostapinna |

Elskar ostapinna

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Berglindi Hreiðarsdóttur þarf ekki að kynna fyrir íslensku mataráhugafólki. Bloggsíðan hennar Gotterí og gersemar er stútfull af freistandi uppskriftum, góðum ráðum og skemmtilegri umfjöllun um ævintýri tengd mat. Í haust sendi Berglind frá sér matreiðslubókina Saumaklúbburinn en þar er finna margvíslega rétti sem henta einstaklega vel þegar góða gesti ber að garði. Berglind er í viðtali í völvublaði Vikunnar

Mjög margir kjósa að bera fram léttari kvöldverð á gamlárskvöld en á aðfangadagskvöld og bjóða þess í stað upp á snakk um miðnættið þegar allir flykkjast út að fylgjast með og senda upp flugelda og koma svangir inn. Vikan bað því Berglindi að svara nokkrum spurningum um ódrepandi mataráhuga sinn og deila uppskriftum að góðum réttum til að gleðja sig og seðja á þegar nýtt ár gengur í garð. En hvenær kviknaði þessi áhugi á matargerð? „Ég hef brasað í eldhúsinu síðan ég man eftir mér,“ segir Berglind. „Þegar ég var barn elskaði ég að fá að baka og leika mér í eldhúsinu sem ég er afar þakklát fyrir að hafa mátt gera, gegn því að ganga frá að sjálfsögðu. Ég pantaði að fá að sjá um alla ostabakka þegar það voru að koma gestir, elskaði að útbúa ostapinna á melónukúlu, þó að ég borðaði þá ekki einu sinni sjálf á þeim tíma. Einnig bakaði ég afmæliskökur fyrir börn systur minnar og fleiri aðila þegar ég var unglingur og átti ekki einu sinni börn sjálf og síðan hef ég boðið í „ömmuhrygg“ og slíkar máltíðir frá því ég var um tvítugt og nýbyrjuð að búa.“

Var beðin að vera með námskeið

En hvernig kom það til að þú fórst að blogga? „Það gerðist eiginlega alveg óvart. Við bjuggum í Seattle í Bandaríkjunum í nokkur ár og þar fór ég á ótal kökuskreytinganámskeið og hafði meiri tíma en oft áður til að leika mér í eldhúsinu. Vinkonur mínar fóru síðan að ýta á mig að vera nú með námskeið fyrir fólk þegar ég kæmi heim og ég fór svona að hugsa málið. Síðan er ég svo einstaklega lukkuleg með mágkonu sem aðstoðar mig við tæknileg mál og henni fannst nú lítið mál að skella upp einni heimasíðu í kringum þau námskeið sem ég vildi bjóða upp á. Ég sá fljótlega að það myndi ekki duga eitt og sér að hafa heila heimasíðu til að auglýsa bara námskeið og fór því að setja inn skemmtilegar uppskriftir og deila hugmyndum varðandi veislur, enda er ég mikil veislukona.

Gotteri.is byrjaði því sem köku- og veislublogg í kringum námskeiðin mín en hefur á undanförnum árum þróast yfir í hefðbundið matar- og ævintýrablogg þar sem ég deili uppskriftum og hugmyndum að mínum helstu áhugamálum. Ég er mikill ferðalangur og sælkeri og veit fátt betra en að tvinna þetta saman og því er www.gotteri.is tilvalinn staður til að leyfa fólki að fylgjast með sem hefur áhuga.“

Nú er nýútkomin bók með mörgum af þínum uppáhaldsuppskriftum, áttu von á að þær verði fleiri? „Það á auðvitað aldrei að segja aldrei og þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt ævintýri sem ég er mjög þakklát fyrir. Ég er búin að læra svo margt nýtt sem mun sannarlega gagnast mér í öðrum verkefnum lífsins. Hins vegar hugsa ég að enginn geri sér grein fyrir vinnunni sem liggur að baki einnar útgefinnar bókar svo ég þyrfti í það minnsta að hugsa mig vel um áður en ég myndi leggja í þetta ferðalag að nýju,“ segir hún að lokum en lesendur geta farið inn á síðuna gotteri.is eða blaðað í bókinni Saumklúbburinn ef þá langar í fleiri og fjölbreyttari uppskriftir frá matgæðingnum Berglindi Hreiðarsdóttur.

Mynd: Hallur Karlsson

Ýtarlegra viðtal og uppskriftir er að finna í nýjustu Vikunni.

 

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira