Fimm leiðir til að einfalda lífið |

Fimm leiðir til að einfalda lífið

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Allir kvarta undan tímaleysi, stressi og álagi. Margir endasendast staða í milli í eilífri tímaþröng og það er mjög auðvelt að missa sjónar á hversu skemmtilegt lífið getur verið þegar þannig stendur á. Hér á eftir fara fimm góðar leiðir til að einfalda lífið og rækta gleðina.

Við erum öll mjög upptekin af skyldum og ógerðum hlutum. Það er alltaf eitthvað sem bíður eftir að verða gert og stundum snúast hugsanirnar eingöngu um öll verkefnin sem bíða. En hvað ef þú gætir bara fækkað þeim?

  1. Skipulegðu heimilið og fækkaðu hlutum þar

Umhverfið hefur mikil áhrif á andlega líðan. Ef allt er í óreiðu heima hjá þér er erfitt að koma skipulagi á hugsanir sínar. Flestir menn eru safnarar í eðli sínu og það er erfitt að henda einhverju þótt það hafi fyrir löngu lokið hlutverki sínu. Byrjaðu á að taka til og skipuleggja allt á heimilinu upp á nýtt. Hentu öllu því sem þú þarft ekki á að halda eða gefðu í endurnýtingu annars staðar. Því minna af dóti þess auðveldara er að halda öllu hreinu og í góðu horfi. Hreint og fallegt heimili með fáum vel völdum hlutum gefur orku meðan ofgnótt, drasl og yfirþyrmandi safn hluta dregur úr mönnum allan mátt.

  1. Breyttu hugarfarinu

Margir eru fastir í hjólförum iðrunar, eftirsjár og biturleika. Hugarfar sem skilar engu nema aukinni sjálfsvorkunn og vanlíðan. Með því að leggja rækt við samlíðan, skilning, jákvæðni, bjartsýni og þakklæti er hægt að auðvelda mjög líf sitt. Neikvætt sjálfstal gerir ekkert annað en brjóta fólk niður og draga úr því kjark. Margir byrja hvern dag á að horfa í spegil og segja eitthvað jákvætt, annaðhvort til að byggja sig upp og auka sjálfstraustið eða til efla sér kjark í dagsins önn. Veldu þínar möntrur fyrir spegilinn til dæmis: Þú ert frábær, í dag verður þú  glöð/glaður, allt mun ganga þér í haginn, þú ert dugleg/ur, framtaksöm/samur/gáfuð/gáfaður, falleg/fallegur, þú getur allt sem þú ætlar þér. Hver og einn velur það sem mest á við og best hverju sinni. Þetta kann að virka barnalegt en rannsóknir hafa sýnt að staðhæfingar af þessu tagi, endurteknar nógu oft, hafa áhrif á hugsunarhátt fólks og hjálpa því að byggja sig upp.

  1. Losaðu þig við orkusugur

Allir kannast við orkusugur. Fólk sem talar ekki um annað en erfiðleika sjálfs sín og annarra, krefst stöðugrar athygli, umhyggju og umönnunar. Losaðu þig við svoleiðis fólk. Auðvitað er hér ekki átt við að menn eigi að henda gömlum vinum á haugana sem eiga í tímabundnum erfiðleikum. Hér er verið að tala um þá sem ekki hafa áhuga á að vinna sig út úr erfiðleikunum og eru sannfærðir um að breyta þurfi heiminum fremur en þeim sjálfum. Ef þú getur ekki sleppt því að hafa samband við svoleiðis manneskju settu henni þá skýr mörk. Enginn hefur leyfi til að ganga svo á annan að hann eigi enga orku eftir að gefa eftir samskiptin.

  1. Hafðu góða stjórn á fjármálunum

Það skiptir ekki meginmáli hversu mikla peninga þú hefur handa á milli heldur hvernig þú ferð með þá. Vissulega er til fólk sem ekki á fyrir mánaðarlegum útgjöldum og býr við fátækt og hér er ekki verið að tala um þannig aðstæður. Allir hafa gott af að vera með góða yfirsýn yfir fjármálin og góða stjórn á því sem fer úr buddunni. Með því að skipuleggja fjármálin vel og fylgjast með eyðslunni er hægt að draga verulega úr áhyggjum og einfalda líf sitt til muna. Settu þér markmið í sparnaði, safnaðu fyrir því sem þig langar í og settu þér vikuleg eða mánaðarleg eyðslumörk. Það er ótrúlegt hversu mikinn tíma það sparar og hve miklu einfaldara og þægilegra lífið verður.

  1. Skipulegðu tíma þinn

Vissulega eru bara 24 klukkustundir í sólarhringnum og enginn getur fjölgað þeim en það er hægt að nýta betur þann tíma sem maður hefur. Í stað þess að eyða tímanum í að kvarta undan annríkinu væri sniðugt að setjast niður og skipuleggja stundirnar. Oft geta menn nefnilega fundið  glufur sem hægt er nýta betur og eins er mögulegt að deila verkefnum betur með fjölskyldu þinni, vinnufélögum og öðrum sem þú ert í samskiptum við. Geta börnin til dæmis gengið eða tekið strætó á íþróttaæfinguna? Geta þau tekið að sér föst skylduverk á heimilinu eins og að leggja á borð, taka úr uppþvottavél, brjóta saman þvott? Getur maki þinn sinnt einhverjum af þeim verkum sem nú eru á þínum herðum? Mundu að þú þarft að minnsta kosti klukkustund á dag til að rækta sjálfa/n þig til að öðlast hugarró og endurnýja orkuna. Gefðu þér tíma til að vera ekki bara einbeita þér að því að gera.

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira