Fordómar í löggunni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Fyrir nokkrum árum flutti í húsið sem ég bjó í ung kona með tvö börn. Hún lét ósköp lítið fyrir sér fara og ég kynntist henni ekki mikið til að byrja með. Við heilsuðumst þó og spjölluðum stundum um daginn og veginn en þegar fyrrverandi sambýlismaður réðst á hana fyrir utan hófust kynni okkar fyrir alvöru.

Það var sólbjartur og fallegur vordagur og ég á leið í vinnu um áttaleytið að morgni. Sóley kom út á sama tíma með töskur barnanna í annarri hendi en þau héngu bæði í móður sinni og vildu fá hana til að leiða sig. Ég bauð því að taka töskurnar svo hún gæti leitt krakkana niður á bílaplanið. Þegar við komum að bílunum opnaði hún skottið og ég lagði töskurnar í það. Þá heyrðist skyndilega ískur í bremsum og bíl var ekið á miklum hraða inn á stæðið.

Ég sá að Sóley stífnaði upp og hún flýtti sér að koma börnunum inn í bílinn. Aðkomubíllinn stoppaði og ungur maður vatt sér út og reif harkalega í jakka Sóleyjar, slengdi henni utan í bílinn og sparkaði í hana. Ég stóð fyrst agndofa og lömuð en gargaði svo: „Hvað í andskotanum ertu að gera maður?“

„Haltu kjafti og skiptu þér ekki af því sem þér kemur ekki við.· Var svarið.

Börnin dauðhrædd

Ég tók upp símann og hringdi umsvifalaust í lögregluna sem kom og pilturinn hvarf á braut eftir tiltal frá þeim. En áður en það gerðist var hann búinn að  slá Sóleyju tvisvar í andlitið, sparka í fætur haennar, hárreyta hana og eyðileggja jakkann sem hún var í. Börnin voru svo hrædd að þau nötruðu og grétu hástöfum.

Sjálf var ég svo miður mín eftir að hafa orðið vitni að þessu að ég treysti mér ekki strax í vinnuna. Ég hringdi í yfirmann minn og sagði honum hvers kyns var og bauð síðan Sóleyju að koma inn með mér og fá eitthvað heitt að drekka. Hún þáði það og ég hellti upp á kaffi handa okkur. Börnin virtust fegin að vera heima hjá mér en eldra barnið fylgdist vel með út um gluggann, hefur líklega verið hrætt um að pabbi þess kæmi aftur því þetta var fyrrum sambýlismaður og barnsfaðir sem lék Sóleyju svona.

 „Eru þau ekki alltaf til vandræða þessi tvö hvort sem er?“ „Nei,“ svaraði ég. „Þau eru ekki til alltaf vandræða þessi tvö. Hann fellur vissulega undir þá skilgreiningu en ekki hún. Dagfarsprúðari og ágætari manneskju er erfitt að finna.“

Við töluðum lengi saman þennan morgun og Sóley var þakklát mér fyrrir að hafa ekki hlaupið burtu þegar sambýlismaðurinn fyrrverandi birtist. Hún sagðist vönust því að fólk flýði af hólmi, léti sem það sæi ekki neitt og hringdi ekki eftir hjálp.

Átti erfiða æsku

Sóley var lítil og grönn með stór blá augu og mér fannst hún varla af barnsaldri þegar ég sá hana fyrst. Hún var samt nógu gömul til að eiga tvö b0rn hugsaði ég en velti því svo ekki meira fyrir mér. Ég varð alveg hissa þegar ég komst að því að hún var þrjátíu og fimm ára þegar þetta var og hafði ýmsu kynnst á sinni ævi. Hún ólst upp á miklu drykkjuheimili en foreldrar hennar voru ekki ofbeldisfull. Pabbi hennar var þvert á móti, að hennar sögn, mjög blíður og auðmjúkur maður sem ýmsir fóru illa með. Hann hafði lítið sjálfstraust og vildi gera öllum gott og mjög margir misnotuðu greiðvikni hans, fengu hann til að vinna fyrir sig og greiddu honum seint og illa launin eða notfærðu sér greiðvikni hans á annan máta.

Sóley sagðist sjálf vera lík pabba sínum að þessu leyti. Hún ætti mjög erfitt með að standa með sjálfri sér en undanfarið ár hefði hún verið í sálfræðimeðferð og orðið nokkuð ágengt, að minnsta kosti nægilega mikið til að fara frá manninum sem hún hafði átt í ástarsambandi við frá fimmtán ára aldri og þolað gróft ofbeldi frá allan þann tíma. „Ég vissi ekki einu sinni fyrr en fyrir þremur árum að þetta væri ekki eðlilegt,“ sagði hún. „Þá tók samstarfskona mín mig tali og benti mér á að enginn hefði leyfi til að ganga í skrokk á mér. Hún sagði mér líka að þetta gerði börnunum svo illt. Það varð til þess að ég ákvað að gera eitthvað í mínum málum. Þessi samstarfskona mín hafði sjálf verið í ofbeldissambandi og hún benti mér á kvennaathvarfið. Þar var ég um tíma og þær hjálpuðu mér að finna þessa íbúð og útveguðu mér sálfræðing.“

Ég gat ekki annað en hrósað Sóleyju fyrir dugnaðinn og eftir þetta kom hún oft í heimsókn til mín.  Reglulega var hins vegar húsfriðnum ógnað þegar sambýlismaðurinn fyrrverandi mætti til að gera óskunda. Hann reyndi oft að brjótast inn til Sóleyjar, hann skemmdi bílinn hennar oftar en einu sinni, rispaði lakkið og braut rúður og hann réðst á hana nokkrum sinnum eða þar til maðurinn minn tók í hnakkadrambið á honum fyrir utan húsið og gerði honum ljóst að við myndum ekki þola þetta.

Bara einn sem var til vandræða

Í hvert einasta skipti sem hann kom hringdum við á lögreglu og í þriðja sinn sem ég hringdi fékk ég eftirfarandi svar frá þeim sem var á símanum í það sinn: „Eru þau nú  byrjuð eina ferðina enn?“ „Hvað áttu við,“ spurði ég. „Jú, eru þetta ekki Sóley og Páll? Þau eru alltaf í einhverju havaríi.“ „Vissulega eru þetta Sóley og Páll,“ sagði ég með þunga. „En þau eru ekki alltaf í einhverju havaríi. Hann ræðst á hana, hún gerir ekkert. Þarna er munur á.“ „Æ, þú veist hvað ég á við,“ var svarað á hinum endanum en nei ég vissi ekki hvað hann átti við en nennti ekki að elta ólar við þessar furðulegu hugmyndir í það sinn.

Nokkrum dögum seinna réðst Páll á son sinn á leið heim úr skólanum og ætlaði að neyða hann upp í bíl til sín. Strákurinn sneri sig af föður sínum sem hélt í skóladöskuna hans með því að smeygja handleggjunum úr böndunum á bakpokanum. Pabbi hans stóð því eftir með skólatöskuna hans en stráksi slapp.  Úr varð að Páll tók töskuna og neitaði að skila henni. Drengurinn þarfnaðist bókanna sem í henni voru og Sóley átti ekki það mikla peninga að hún gæti endurnýjað það allt.

„Enn Sýna fréttir svo ekki verður um villst að svo er ekki. Enn þurfa konur að súpa seyðið af ofbeldi vandræðamanna án þess að kerfið bregðist við þeim til varnar. “

Ég  hringdi á lögreglustöðina, útskýrði málið og bað um að þeir hlutuðust til um að ná töskunni aftur. „Það er nú varla í okkar verkahring,“ var svarið. „Eru þau ekki alltaf til vandræða þessi tvö hvort sem er?“ „Nei,“ svaraði ég. „Þau eru ekki til alltaf vandræða þessi tvö. Hann fellur vissulega undir þá skilgreiningu en ekki hún. Dagfarsprúðari og ágætari manneskju er erfitt að finna.“ „Það er aldrei einum að kenna þegar tveir deila.“ Sagði viskubrunnurinn á hinum enda símalínunnar.

Flúði til Danmerkur

Sóley fékk aldrei aftur skólatösku drengsins og ég og maðurinn minn keyptum nýja og studdum hana í að endurnýja annað sem var í töskunni. Skömmu síðar fékk hún samþykkt nálgunarbann á Pál en málið tók óvænta stefnu þegar Páll gerði tilraun til að kveikja í húsinu sem við bjuggum í. Hann var handtekinn og meðan hann sat inni tókst Sóleyju að fá góða vinnu og húsnæði úti í Danmörku. Öllum sem þekktu hana var ljóst að hér á landi fengi hún aldrei frið og nokkrar samstarfskonur lögðu saman tengslanet sín og þetta varð árangurinn.

Ég bar vitni í réttarhöldunum yfir Páli, enda hafði ég séð hann við húsið skömmu áður en eldurinn kviknaði. Hann hlaut nokkurra mánaða fangelsi fyrir íkveikjutilraun en ofbeldi hans gagnvart barnsmóður sinni þótti aldrei ástæða til að kæra. Skömmu eftir réttarhöldin hringdi náfrænka Páls í mig og jós sér yfir mig. Ég hafði eyðilagt líf þessa efnilega unga manns, þ.e. ég og þessi drusla sem hann átti börnin með. Það er ekki prenthæft sem konan sú lét falla í símann en eftir að ég lagði tólið á skildi ég að Páll var skilgetið afkvæmi sinnar ættar.

Síðan þetta var eru nokkur ár og seinast þegar ég vissi gekk Sóleyju vel í Danmörku. Hún þorir hins vegar ekki að flytja heim af ótta við að ofsóknirnar byrji aftur. Ég hélt satt að segja að kerfið hefði breyst og skilningur manna á heimilisofbeldi aukist. Enn sýna fréttir svo ekki verður um villst að svo er ekki. Enn þurfa konur að súpa seyðið af ofbeldi vandræðamanna án þess að kerfið bregðist við þeim til varnar.

 

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -