Friðrik leitaði uppi ástina á jólum: „Eftirsjáin er mín helsta hræðsla“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Friðrik Agni Árnason gaf nýlega út ljóðabókina Elskhugi/Lover, en hún er afrakstur áskorunar sem hann setti á sjálfan sig, að skrifa eitt ljóð á dag í hálft ár. Bókin er nýjasta sköpunarverk Friðriks, en hann hefur æft, keppt í og kennt dans í fjölda ára, lært listræna stjórnun og menningarstjórnun, auk þess að skrifa pistla og halda úti hlaðvarpi.

Sjá einnig: Áskorun Friðriks varð að ljóðabók: „Hlutkesti réði því að ég varð til“

Saga Friðriks er nokkuð óhefðbundin, sem og hann sjálfur og segist hann vel átta sig á því og fundist hann oft ekki passa með öðrum í kringum hann. Eftir grunnskólann lá leið hans í Kvennaskólann, og þar fann hann að þó hann ætti ekki í neinum erfiðleikum með námið þá heillaði námið í menntaskóla hann ekki og hann kláraði aðeins tvö ár af fjórum.

„Mér fannst heimurinn fyrir utan skólalífið bara svo spennandi, ég var kominn út úr skápnum á þessum tíma og átti mikið af eldri vinum fyrir utan skólann. Og þó ég væri virkur í félagslífinu í skólanum, þá langaði mig bara að dansa og var ekkert endilega að sjá að námið ætti við mig. Ég var því ekkert hræddur við að taka þá ákvörðun að hætta bara og fara að vinna. Svo kom tækifærið með Ástralíu og ég elti það og það er óhætt að segja að það voru margir fullorðnir í kringum mig sem voru ekkert endilega stuðningsríkir og fannst ég þurfa að klára stúdentinn. Hvað ætlaði ég að gera við líf mitt?,“ segir Friðrik.

Dansinn hefur alltaf verið hluti af Friðriki
Mynd / Facebook

Átta ára heimshornaflakk

Friðrik flutti aftur heim til Íslands árið 2015 eftir átta ára flakk um heiminn: Svíþjóð, Ítalíu, Dubai og Ástralíu, þó ekki í þessari röð. Það er því rétt að byrja á byrjuninni og spyrja hvernig flakkið byrjaði.

„Ég var í samkvæmisdönsum frá 12 ára aldri hjá hjónunum Karen og Adam Reeve, sem eru heimsmeistarar í dansi, hann er ástralskur og hún íslensk, og þau buðu mér og dansfélaga mínum að flytja með þeim til Ástralíu og kenna í dansstúdóinu þeirra, keppa í dansi og sýna. Ég var 19 ára þegar ég flutti út og fékk strax mikla heimþrá og þrá líka eftir ástinni sem ég skildi mögulega eftir,“ segir Friðrik, sem stuttu áður en hann flutti út hafði kynnst manni, en taldi að ekkert yrði af sambandi þeirra á milli, þar sem hann var með hugann við Ástralíu.

Sjá einnig: Friðrik var með minniháttarkennd en dúxaði á Bifröst: „Góð viðurkenning fyrir sjálfstraustið“

„Hann er maðurinn minn í dag,“ segir Friðrik og brosir. „Þannig að við hættum saman þegar ég fór til Ástralíu, og hann byrjaði aftur með sínum fyrrverandi, svo þegar þeir hætta saman fer ég að hugsa hvort ég sé að missa af honum og ef ég muni ekki grípa tækifærið, myndi ég þá alltaf pæla í að hann væri „the one that got away“. Þarna er ég hinumegin á hnettinum, byrjaður að missa áhugann á samkvæmisdansheiminum, ekki dansinum sjálfum, heldur keppnum, pólitíkinni og slíku. Ég trúi ekki hugmyndinni um eftirsjá, hún er mín helsta hræðsla í lífinu, þess vegna geri ég allt rosalega hvatvíst og rosalega mikið.“

„Ég trúi ekki hugmyndinni um eftirsjá, hún er mín helsta hræðsla í lífinu, þess vegna geri ég allt rosalega hvatvíst og rosalega mikið“

Einn á alþjóðaflugvelli á jóladag

Friðrik tók því ákvörðun um að fara heim og láta reyna á ástina, leitaði að flugi heim og fann eitt slíkt á aðfangadag. „Sem er líka afmælisdagurinn minn, þannig að ég flaug tvítugur einn til Singapore á aðfangadag og var svo fastur í London allan jóladag og mátti ekki einu sinni fara út af flugvellinum. Þarna var ég að reyna að komast heim til fjölskyldunnar og mannsins sem ég taldi mig ástfanginn af og komst heim annan í jólum og fór beint til hans og kom honum á óvart. Síðan byrjuðum við að vera saman og erum enn saman. Við erum giftir í dag og höfum verið saman í gegnum allt þetta flakk á mér, eða á okkur báðum kannski.“

Eftir heimkomuna frá Ástralíu fór Friðrik að vinna og það tengt tísku. Hann afgreiddi í versluninni 17, sá um stíliseringar fyrir myndatökur og var eitthvað að módelast líka eins og hann segir. Sköpunin kallaði og hann langaði að læra eitthvað skapandi að eigin sögn, en þar sem hann var ekki búinn með stúdentinn var ekkert í boði hér heima.

„Ég gat ekki sótt um Listaháskólann og fór því að skoða skóla erlendis og tók saman það sem ég var búinn með, ég var stúdent til dæmis í stærðfræði og dönsku, tók saman starfsreynsluna, skrifaði um reynsluna að vinna og búa í Ástralíu og bjó til flotta möppu með öllum myndum sem ég hafði tekið og myndatökum sem ég hafði stíliserað, og sendi inn umsókn í hönnunar- og listaskóla í Mílanó á Ítalíu. Þeir buðu mér svo inngöngu og það á annað ár vegna reynslu minnar, en ég ákvað að taka fyrsta árið, mig langaði að læra margt sem var þar eins og listasögu. Þetta nám er í raun þriggja ára BA-nám þannig að þarna er ég útskrifaður úr námi í listrænni stjórnun (art direction). Ég stóð mig vel í náminu og kynntist fólki þarna sem eru bara vinir mínir til lífstíðar,“ segir Friðrik.

„Maðurinn minn flutti með mér til Ítalíu, hann er verkfræðingur og ætlaði að finna sér vinnu þar. Þetta var 2009 stuttu eftir hrun, og erfitt að finna vinnu, þannig að hann sneri aftur heim eftir hálft ár. Ég hvatti hann til að festa sig ekkert við Ísland ef hann ætti atvinnumöguleika annars staðar og svo fór að hann fékk vinnu í Stokkhólmi í Svíþjóð, þannig að eftir að ég lauk náminu þá flutti ég til hans þangað.“

Eiginmennirnir Friðrik og Davíð
Mynd / Facebook

Á draumaspjaldi til Dubai

Friðrik undi sér vel í Stokkhólmi þar sem hann kenndi hans, en eftir vikuheimsókn til mágkonu hans í Dubai varð hann hugfanginn af borginni og fór markvisst að stilla fókusinn á að flytja þangað. „Mér fannst allt þar svo nýtt og framúrstefnulegt, mikið af tækifærum fyrir skapandi fólk, og miklir atvinnu og tekjumöguleikar. Ég var ákveðinn í að flytja þangað þannig að ég stillti fókusinn á það, prentaði út myndir og var með þær og jákvæð kvót eins og „Dreams come true“ alltaf fyrir framan mig. Ógeðslega hallærislegt, en ég er bara svolítið mikið þannig,“ segir Friðrik og hlær. „Ég uppfærði ferilskrána mína á LinkedIn, síðan fæ ég tölvupóst frá fyrirtæki í Dubai, sem eru að leita að listrænum stjórnanda fyrir nýtt fyrirtæki og ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað spam mail,“ segir Friðrik. Svo reyndist þó ekki vera og eftir tvö atvinnuviðtöl á Skype var honum boðið starfið, og hann fékk tvo daga til að svara af eða á. Þá voru góð ráð dýr því maðurinn hans var í vinnuferð í Grikklandi og Friðrik náði ekki í hann.

„Það gerðist svolítið meðan þú varst í burtu, ég er að flytja til Dubai“

„Vinkona mín hvatti til til að taka starfinu og þegar maðurinn minn kom heim þá var ég bara, „Það gerðist svolítið meðan þú varst í burtu, ég er að flytja til Dubai,“ segir Friðrik og hlær. „Svo flyt ég rosalega spenntur og það var frábært að vera þarna, en starfið sjálft var síðan bara hræðilegt og vinnureynslan ekki góð og konan sem ég hafði hrifist af í viðtalinu allt öðruvísi í eigin persónu. Þetta var lítið fyrirtæki sem peningum var dælt í og spratt rosalega hratt, aallt mjög „extreme“ og ég vann alla daga í 16 klst., fyrstur inn og fyrstur út, og keyrði mig bara alveg út. Ég gafst bara upp og gældi við hvort ég ætti að finna annað starf þarna og fór í viðtal hjá Louis Vuitton tengt vörumerkjastjórnun og var svo gott sem kominn með starfið. En ég ákvað að mér liði bara svo illa eftir þessa vinnureynslu og langaði bara að fara heim til Íslands.“

Skólastyrkur í New York kallaði

Á sama tíma og Friðrik var að dreyma um Dubai sótti hann líka um nám í grafískri hönnun í New York og segist hann hafa verið jafn ákveðinn í því eins og að komast til Dubai.

„Ég sótti um nám þar í grafískri hönnun, þar sem mig langaði að bæta henni við og ég fæ það sem heitir „Dean Scholarship Award“ fyrir umsóknina, sem er peningastyrkur. Ég ákvað að geyma það boð fyrst í eitt ár, svo eftir að Dubai-ævintýrið var úti, var ég á tímamótum og velti fyrir mér hvort ég ætti að fara til New York, en ákvað svo að hunsa bæði og flutti heim til Íslands,“ segir Friðrik.

„Ég fann að flakkið á mér árin á undan og að lokum þessi vinnureynsla og líðan mín eftir hana, var að segja mér að nú þyrfti ég að fara heim, endurhugsa hvað ég vildi, vera nálægt íslenskri náttúru og tengjast Íslandi upp á nýtt,“ segir Friðrik, sem flutti heim árið 2015 og segir að á sama tíma hafi maðurinn hans verið tilbúinn að flytja heim. „Hann var búinn að vinna fimm ár í Stokkhólmi, og kom heim og fékk vinnu hjá sama fyrirtæki og hann vann hjá fyrir hrun, þannig að það rættist úr lífinu hér á Íslandi.

Stefnan er ekki að flytja aftur út, en ég er þannig að það er aldrei að vita. Fólk í kringum mig myndi alveg trúa mér til alls. Mér finnst gott að hafa hugann opinn, það geta alltaf komið verkefni eða hugmyndir, og heimurinn er þannig að við getum farið hvert sem er, þó ekki bókstaflega núna miðað við ástandið. En þegar hlutir eru eðlilegir þá er jörðin bara okkar hótel og við megum alveg athuga möguleikana annars staðar, við þurfum ekki að takmarka okkur. Ef við viljum ævintýri þá eru þau þarna fyrir okkur bara til að grípa þau.“

Elskhugi/Lover er á Storytel. 

Facebook-síða Friðriks Agna.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Harpa og Júlíus selja glæsieignina á Kársnesi

Harpa Þórunn Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Orkustofnun, og Júlíus Kemp, kvikmyndagerðarmaður, hafa sett einbýlishús sitt við Kársnesbraut á...

Kjartan Atli og Pálína selja í Garðabæ – Útsýnið er einstakt

Körfuboltaparið Kjart­an Atli Kjart­ans­son, fjölmiðlamaður, og Pálína María Gunn­laugs­dótt­ir hafa sett íbúð sína í Garðabæ á sölu.Íbúðin...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -