Friðrik var með minnimáttarkennd en dúxaði á Bifröst: „Góð viðurkenning fyrir sjálfstraustið“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Friðrik Agni Árnason gaf nýlega út ljóðabókina Elskhugi/Lover, en hún er afrakstur áskorunar sem hann setti á sjálfan sig, að skrifa eitt ljóð á dag í hálft ár. Bókin sem er á tveimur tungumálum, íslensku og ensku, er nýjasta sköpunarverk Friðriks, en hann hefur æft, keppt í og kennt dans í fjölda ára, lært listræna stjórnun og menningarstjórnun, auk þess að skrifa pistla og halda úti hlaðvarpi. Friðrik dúxaði í háskólanámi á Bifröst, samhliða fullri vinnu og fleira, og segir að það hafi góð viðurkenning fyrir sjálfstraustið.

Friðrik flutti aftur heim til Íslands 2015 eftir átta ára flakk og búsetu erlendis. Þegar hann kom heim fann hann þörf til að læra meira og bæta við sig þekkingu. „Ég var með mikla minnimáttarkennd gagnvart því að ég hafði í raun droppað út úr menntaskóla og var að bera mig saman við aðra, eins og ég væri pínu slugsi, sem ég er alls ekki, ég sá bara ekki menntaskólann sem mikilvægan fyrir mitt líf og hvert ég vildi að mitt líf myndi fara. Mig langaði í akademískt nám, læra og lesa eitthvað og skrifa góðar ritgerðir.“

„Ég var með mikla minnimáttarkennd gagnvart því að ég hafði í raun droppað út úr menntaskóla og var að bera mig saman við aðra, eins og ég væri pínu slugsi, sem ég er alls ekki“

Friðrik fann námið sem hann hafði áhuga á, menningarstjórnun, á Bifröst. „Mér fannst námið sameina alls konar: listir, menningu, fólk, skipulag og verkefnastjórnun. Ég fann að ég gæti líklega sameinað margt sem ég hafði upplifað og lært og námið var alveg frábært og gagnlegt og ég lærði íslensku fannst mér upp á nýtt, en námið á Ítalíu var allt kennt á ensku, og lærði að læra og uppgötvaði að ég gat alveg lært, þó ég hefði ekki klárað menntaskóla. Ég er mjög metnaðarfull manneskja þannig að ég lærði tímastjórnun mjög mikið af því ég var í 100% vinnu með og líka að kenna dans í World Class og í 100% námi. Ég ákvað að ég ætlaði að klára námið á réttum tíma, og standa mig vel í vinnunni, ég ætlaði ekki að gefa mér neinn afslátt á því og þurfti að læra að vera með sjáfsaga líka þar sem námið var allt í fjarnámi,“ segir Friðrik, sem útskrifaðist í febrúar 2017 sem dúx.

„Það var góð viðurkenning fyrir mig upp á sjálftraustið að gera af því ég hafði verið með þessa minnimáttarkennd yfir því að vera ekki stúdent. Þarna var ég að klára mastersnám með fólki sem var eldra en ég og hafði farið hefðbundna menntunarleið, klárað stúdent og farið svo í háskóla. Svo kem ég þetta algjöra fiðrildi. Þetta eru tveir pólar sem mætast í mér, þetta fiðrildi sem vill ævintýri og vera berskjaldaður, og svo þessi sem er svona strúktureraður.“

Sjá einnig: Friðrik leitaði uppi ástina á jólum: „Eftirsjáin er mín helsta hræðsla“

Það er í nægu að snúast hjá Friðriki, sem auk þess að vinna fulla vinnu, kennir dans og heldur úti hlaðvarpi. Segir hann eitt verkefni nú frá þegar ljóðabókin er komin út. „Mér finnst ég hafa verið mjög upptekinn síðan COVID byrjaði, en það er svo sem bara út af mínum gæluverkefnum. Þannig að ég get sjálfum mér um kennt,“ segir Friðrik og hlær.

„Mér finnst ég hafa verið mjög upptekinn síðan COVID byrjaði, en það er svo sem bara út af mínum gæluverkefnum. Þannig að ég get sjálfum mér um kennt“

„Ég er að vinna sem verkefnastjóri hjá Listahátíð í Reykjavík og hef verið frá árinu 2017, nema ég fór aðeins í burtu og starfaði sem verkefnastjóri fræðslu og viðburða á bókasafninu í Kópavogi. Ég og vinkona mín, Anna Claessen, stofnuðum Dans og kúltúr árið 2017 og höfum verið með dansviðburði og ferðir erlendis með hópa, svo er ég að kenna dans í Kramhúsinu og World Class. Núna í ár byrjaði ég svo með fyrirlesturinn Þín eigin leið, og samnefnt hlaðvarp í kjölfarið.“

Af hverju að byrja með hlaðvarp?

„Áður en ég byrjaði hjá Listahátíð þá var ég verkefnastjóri í Hinu húsinu og var ég beðinn að segja unglingum sem voru í atvinnuleit mína sögu og frá minni óhefðbundnu skólagöngu. Þannig að í vor þegar hægðist á öllu vegna COVID fór ég að hugsa hvort ég gæti miðlað einhverju, minni sögu og upplýsingum, og fyllt fólk innblæstri og átt í góðum samræðum við fólk. Þannig varð fyrirlesturinn Þín eigin leið til og ég náði að bjóða upp á einn slíkan áður en öllu var lokað,“ segir Friðrik. „Í kjölfarið varð hlaðvarpið til, og þar er ég að tala við fólk sem mér finnst á sömu bylgjulengd og ég um hvað það er sem leiðir okkur áfram í lífinu. Erum við að fylgja innsæinu, ástríðum okkar, erum við að virkja þær og efla? Af því mér finnst það mín leið og það sem drífur mig áfram. Hlaðvarpið er bara þessi forvitni fyrir fólki og að koma með umræður upp á yfirborðið og vonandi gefa hlustendum innblástur.“

„Erum við að fylgja innsæinu, ástríðum okkar, erum við að virkja þær og efla? Af því mér finnst það mín leið og það sem drífur mig áfram“

Sérðu fyrir þér að halda hlaðvarpinu áfram ?

„Já algjörlega, það er greinilega að fá hlustun og ég finn að fólk er að tengja og ég næ að tala við áhugavert fólk sem er þekkt í okkar samfélagi, og aðra einstaklinga sem eru að gera áhugaverða hluti. Mér finnst þetta skemmtilegt og gagnlegt fyrir mig og vonandi líka þá sem eru að hlusta. Ég er sjálfur að tengja mikið og læra af þessum samtölum, þannig að ég vil þróa verkefnið áfram, fyrirlestrana og hlaðvarpið og sjá hvað það leiðir í ljós og hvert það getur farið með mig.“

Sjá einnig: Áskorun Friðriks varð að ljóðabók: „Hlutkesti réði því að ég varð til“

Er eitthvað sem þú átt eftir að framkvæma?

„Já það er eitt sem ég hef alltaf verið hræddur við, en ég elska samt, og það er að leika og syngja og það hefur blundað lengi í mér. Það er eitthvað sem segir mér að ég ætti að bara rífa þann plástur af og henda mér í eitthvað verkefni þar sem ég þarf að gera meira af því. Ég hef áður fengið tækifæri til þess, en ekki þorað. Ég er rosalega hræddur við það á sama tíma og ég hef brjálæðislegan áhuga á því. Það er bara spurning hvenær ég hef kjarkinn til þess að þora,“ segir Friðrik, sem segist hafa séð slíkar prufur auglýstar og klæjað í puttana að prófa.

„Það eru örugglega margir sem sitja bara og dagdreyma um eitthvað en taka aldrei skrefið og framkvæma“

„Ég er svo ógeðslega hræddur við höfnunina að ég þorði því ekki. Það eru örugglega mjög margir sem tengja við að vera hræddir við höfnun, oftast er það hræðslan sem stoppar okkur að gera og fylgja ástríðu okkar, en maður þarf einhvern veginn bara frekar að framkvæma. Bara eins og með ljóðabókina, ég veit ég er ekki besta skáld í heimi, en mig langaði bara að gefa hana út, það eru örugglega einhverjir gagnrýnendur sem munu rífa hana í sig, en það þýðir ekki að ég megi ekki gefa hana út.

Það eru örugglega margir sem sitja bara og dagdreyma um eitthvað en taka aldrei skrefið og framkvæma. Ein samstarfskona mín benti mér á að henni finndist ég vera þessi manneksja og mér fannst það mjög áhugavert af því ég hef ekki litið á sjálfan mig á þann hátt, þannig að það var gott að fá svona smá viðsnúning á sjálfan mig og bara „ég er pínu svona, ég geri bara það sem ég vil gera, fer til útlanda og svo framvegis. Það er enginn að vinna fyrir mig, ég er bara að gera sjálfur það sem ég er að gera og þarf sjálfur að koma mér, mínu og því sem ég hef fram að færa á framfæri. Maður þarf bara að þora pínu.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Harpa og Júlíus selja glæsieignina á Kársnesi

Harpa Þórunn Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Orkustofnun, og Júlíus Kemp, kvikmyndagerðarmaður, hafa sett einbýlishús sitt við Kársnesbraut á...

Kjartan Atli og Pálína selja í Garðabæ – Útsýnið er einstakt

Körfuboltaparið Kjart­an Atli Kjart­ans­son, fjölmiðlamaður, og Pálína María Gunn­laugs­dótt­ir hafa sett íbúð sína í Garðabæ á sölu.Íbúðin...

Nýtt í dag

Harpa og Júlíus selja glæsieignina á Kársnesi

Harpa Þórunn Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Orkustofnun, og Júlíus Kemp, kvikmyndagerðarmaður, hafa sett einbýlishús sitt við Kársnesbraut á...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -