„Fyrir mér er sjálfsvíg ekki ákvörðun eða ákall á hjálp, athyglissýki eða sjálfselska“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Silja Björk Björnsdóttir lifði af sjálfsvígstilraun 21 árs að aldri og hefur valið að nota reynslu sína, áföllin í lífinu og sjúkdóminn sem er hluti af henni til að opna umræðuna um geðrænan vanda og geðheilbrigði. Hún segir fordóma og skömm fylgifiska andlegra veikinda, þó umræðan í dag sé mun opnari og ríkari af samkennd, en þegar hún veiktist fyrir 11 árum. Silja Björk situr í stjórn Geðhjálpar, þar sem hennar baráttumál er að opna umræðuna um sjálfsvíg, svipta skömminni af þeim og efla forvarnir, og segir hún að mikilvægt sé að ræða andlegt heilbrigði jafnt og líkamlegt heilbrigði.

Hér fyrir neðan er brot út viðtalinu sem lesa má í fullri lengd hér:
„Við geðsjúklingarnir erum langflest bara Jón og Gunna, venjulegt fólk sem á erfitt andlega séð“

Sjálfsvíg er ekki sjálfselska

Eftir nokkra mánuði hætti Silja Björk sem au pair og flutti aftur heim, þá hætt með kærastanum og var alltaf að fá kvíðaköst sem hún sagði engum frá og þorði ekki að tala um, var orðin þunglynd aftur. Þetta var rétt fyrir 17. júní, þegar var árs útskriftarafmæli hjá henni og skólafélögum hennar og segist hún hafa mætt í útskriftina og verið hrókur alls fagnaðar og ekkert talað um líðan sína við neinn.

Heilinn á mér var orðinn það bilaður og efnaskiptin það brengluð að heilinn á mér er að sannfæra mig um að þetta sé eina leiðin út úr sársaukanum

Daginn eftir reyndi Silja Björk að taka eigið líf og þegar blaðamaður spyr hvað hafi valdið því að hún taldi þá ákvörðun þá einu í stöðunni, kemur upp mismunurinn á orðræðunni milli viðmælanda og blaðamanns, þó skilningur og samkennd ríki hjá báðum aðilum.

„Fyrir mér er þetta ekki ákvörðun sem ég tók og fyrir mér er sjálfsvíg ekki ákvörðun eða ákall á hjálp, athyglissýki eða sjálfselska. Ég er með sjúkdóm og þarna er ég mjög nálægt því að deyja úr þessum sjúkdómi, bara eins og krabbameinssjúklingur sem er nálægt því að deyja úr sínum sjúkdómi, eða þú deyrð í bílslysi eða úr hjartaáfalli. Og mér finnst við þurfa að fara að beina umræðunni á þá braut þegar við erum að ræða sjálfsvíg sérstaklega af því við getum aldrei breytt neinu í samfélaginu og okkur getur ekki liðið betur eða stundað forvarnir ef við megum eða þorum ekki að tala um sjálfsvíg,“ segir Silja Björk.

„Heilinn á mér var orðinn það bilaður og efnaskiptin það brengluð að heilinn á mér er að sannfæra mig um að þetta sé eina leiðin út úr sársaukanum. Eina leiðin til að mér hætti að líða svona illa og einnig til að fólkinu í kringum mig hætti að líða illa út af því hvernig ég er og hvað ég er að láta fólk ganga í gegnum. Þess vegna eru sjálfsvíg aldrei sjálfselska af því þú ert ekki að hugsa um sjálfan þig heldur alla aðra, að losa aðra undan byrðinni sem þú upplifir þig vera,“ segir Silja Björk, sem segir umræðuna vera að breytast, en vissulega komi upp reiði hjá aðstandendum, sem eigi erfitt með að skilja af hverju ástvinur þeirra tók eigið líf.

Sjá einnig: „Ekki eðlilegt að 17-18 ára stelpa hugsi um að vilja deyja á hverjum einasta degi“

„Þegar ég held fyrirlestra fyrir unglinga þá er mjög erfitt að útskýra þetta fyrir þeim. Heilinn er að segja þér: „Nú skalt þú fara og drepa þig af því það er eina lausnin á þessu vandamáli“, þannig að sjálfsvíg eru afleiðing af sjúkdómum eða alvarlegum heilsubresti, alvarlegum veikindum í heilanum,“ segir Silja Björk, sem sjálf upplifði algert vonleysi á þessum tíma og var viss um að sér myndi aldrei líða betur, að hún myndi aldrei ná bata í sínum veikindum.

„Ég var orðin tvítug og taldi þetta minn ákvörðunarrétt, bara eins ég mætti lita á mér hárið, fara í hárskóla, keyra bíl eða ekki. Ég var fyrst og fremst að hugsa um foreldra mína, vini mína, systkini mín, fjölskyldu mína sem hafði haft áhyggjur af mér í að verða fjögur ár, rifist og skammast, liðið illa, og ekki skiljað og ekki vitað og ekki kunnað. Þurft að borga sálfræðitíma, lyfjameðferðir og fleira. Þannig að þetta var fyrir þau, ef svo má segja, sem ég ætlaði að gera þetta,“ segir Silja Björk, sem segir dæmið hins vegar ekki ganga upp á þennan máta. „Mamma og pabbi myndu aldrei koma heim, finna mig látna og hugsa: „Já heyrðu hún er bara á betri stað og þetta er bara rétt, vefjum hana í klæði og kistu og gröfum hana.“ Þetta bara virkar ekki svona, en þegar þú ert á þessum botni þá er þessi hugsun það sem „meikar sens.“

Heyrðu þú ert ekki búin að skipuleggja þetta nóg, þú veist ekki hvað þú ert að gera, þetta er svo heimskulegt hjá þér, af hverju ertu að gera þetta svona, þú ert svo ómöguleg og vonlaus

Þunglyndispadda lét í sér heyra

Silja Björk fór í lyfjaskáp foreldra sinna og tók allar pillur sem þar voru sama hvað þær hétu og náði síðan í áfengi inn í barskáp. „Svo fór ég á netið að gúggla hvernig ég gæti bundið snöru og hafði til þess svona grænt þvottasnúrureypi og batt snöru og hengdi hana í ljósakrónuna. Ég var svo að skrifa bréf í tölvunni og var staðráðin í að þetta væri rétt leið og eina leiðin,“ segir Silja Björk, og bætir við að þá hafi rödd komið upp í huga hennar.

„Þessi rödd sem hafði verið að bögga mig í öll þessi ár, þessi þunglyndispadda sem fer að segja við mig: „Heyrðu þú ert ekki búin að skipuleggja þetta nóg, þú veist ekki hvað þú ert að gera, þetta er svo heimskulegt hjá þér, af hverju ertu að gera þetta svona, þú ert svo ómöguleg og vonlaus.“ Röddin sem byrjar svo að rakka mig niður, og hvað ég ætli að gera ef ég dett úr snörunni, ef ég byrja að æla og eyðilegg á mér nýrun, hvort ég ætli að vera í hjólastól það sem eftir er, hvað ertu að gera?!“

Silja Björk segir röddina hafa fengið hana til að taka upp símann og hringja í vinkonu sína, sem keyrði strax yfir og hringdi í Neyðarlínuna á leiðinni. Hún segir það algjör forréttindi að hafa fengið að hlusta á upptökuna nokkrum árum seinna.

„Það er það erfiðasta sem ég hef gert af því að ég var út úr því, ég var lyfjuð og drukkin og í kvíðakasti þannig að ég man skringilega eftir atvikinu. Að heyra bestu vinkonu mína gráta í símann og vita ekki hvað er að gerast og heyra í mér grátandi í fanginu á henni sýndi mér hvað þetta er mikill sársauki og mikil veiki og hvað þetta er erfitt og skrýtið. Það var samt mjög hreinsandi upplifun og algjör forréttindi að hlusta á upptökuna. Tinna vinkona mín bjargaði lífi mínu, ég veit ekki hvað ég hefði gert ef hún hefði ekki svarað. Ég hefði aldrei hringt í mömmu eða pabba. Ef hún hefði ekki svarað þá hefði ég verið bara: „Alheimurinn er að gefa mér merki,“ þannig að ég á henni lífið að launa.“

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna, þar síminn 552-2218 opinn allan sólarhringinn og vefsíðan www.pieta.is.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira