Gerður um 2020: „Skrýtin upplifun að vera ein af þeim fyrstu hér á landi til að fá veiruna“ |

Gerður um 2020: „Skrýtin upplifun að vera ein af þeim fyrstu hér á landi til að fá veiruna“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi Blush.is, fer yfir árið 2020, það góða og það slæma, bæði fyrir hana persónulega og almennt. Gerður fór út fyrir þægindarammann á árinu og segist hafa lært svolítið að slaka á heima í einangrun. Að hennar sögn lærði hún margt á árinu og er spennt fyrir nýju ári.

„Það besta við árið 2020 er að það hefur þvingað mann út fyrir þægindarammann. Ég hef persónulega þurft að leggja mig extra fram við að vera frumleg og skipulögð til að allt gangi upp. Við höfum lent í þó nokkru veseni með vörukaup erlendis frá og innflutning til landsins og það hefur kennt okkur ýmislegt,“ segir Gerður.

„Það besta við árið er að okkur gafst meiri tími til að vera heima og ég lærði svolítið að slaka á þegar ég var föst í einangrun í fimm  vikur heima hjá mér með Jakobi kærastanum mínum.“

Takmarkanir verstar

Aðspurð um hvað hafi verið það versta við árið 2020 nefnir Gerður takmarkanir sem settar voru vegna kórónuveirufaraldursins.

„Það erfiðasta við 2020 voru takmarkanir sem hafa verið meira og minna allt árið. Það hafði mikil áhrif á okkur og þá sérstaklega þar sem ég á barn sem býr á Akureyri og það hafa komið vikur/mánuðir þar sem ég hef ekki getað séð hann vegna COVID,“ segir Gerður.

Óvæntu atvikin

Beðin um að nefna skemmtileg og skrýtin atvik á árinu segir Gerður það líklegast vera að greinast með COVID-19.

„Alls ekki skemmtilegt, en mjög skrýtin upplifun að vera ein af þeim fyrstu hér á landi til að fá veiruna og mikil óvissa sem fylgdi því,“ segir Gerður, en er þó fljót að sjá jákvæðu hliðina. „Það jákvæða var samt að fá þetta svona snemma og vera komin með mótefni, það veitti manni ákveðna ró að vita að maður fengi þetta ekki aftur.“

Lærðir þú eitthvað nýtt árið 2020?“

„Ég fór á námskeið hjá Salt eldhús í ítalskri matargerð og lærði þar að gera pasta frá grunni. Það kom okkur Jakobi skemmtilega á óvart og er klárlega eitthvað sem okkur langar að gera oftar, að fara á matreiðslunámskeið saman. Fullkomið date-kvöld,“ segir Gerður.

„Annars lærði ég líka helling af því að reka fyrirtæki í Covid, það er ýmislegt sem maður þurfti að gera öðruvísi og aðlaga sig að þeim aðgerðum sem voru í gangi hverju sinni og  passa upp á starfsfólkið sitt.“

Setur þú áramótaheit eða markmið?

„Já heldur betur, ég set mér markmið, og hef gert það síðustu árin. Við Jakob erum með markmiðakvöld hérna heima fyrir áramót þar sem við setjum okkur markmið saman. Förum yfir þau markmið sem við settum okkur fyrir 2020, sem má segja að hafi flest öll fokið út um gluggann þegar covid skall á,“ segir Gerður og hlær. „En það er mikilvægt að þegar maður setur sér markmið að þá er oft eitthvað óvænt sem kemur upp og maður þarf mögulega að aðlaga sig að þeim aðstæðum. En okkur finnst þetta hluti af því að bjóða nýtt ár velkomið.“

Gerður er spennt fyrir nýju ári og flutningum Blush í nýtt og mun stærra húsnæði

Hvernig leggst nýja árið í þig, hvað er framundan á árinu, er eitthvað sem þú ætlar að gera meira af 2021 en þú gerðir 2020?

Ég er sjúklega spennt, Blush fagnar 10 ára afmæli og við ætlum að opna nýja verslun í vor, sem verður 860 fm verslun, vöruhús og skrifstofur á Dalvegi 32 við hliðina á Sérefni,“ segir Gerður, og segir annasama mánuði framundan við að undirbúa og gera allt sem gera þarf til að opna.

„Annars stefni ég á að ferðast eitthvað seinnihluta árs, ef það verður í boði og verja eins miklum tíma og ég get með fjölskyldu og vinum. Ég held að flestir séu sammála um að það sé eitthvað sem maður saknar mest af öllu í þessu covid-ástandi.“

Besta kvikmyndin 2020:
„Athlete A“
Besti sjónvarpsþátturinn 2020:
„Away“ á Netflix
Besta lag 2020:
„Rólegur kúreki“ með Briet
Besta bókin 2020:
„Stelpur sem ljúga“
Besta hlaðvarp 2020:
„Illverk“ og „Háski“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira