Gersemar gerðar úr geymsludóti

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Formæður okkar og forfeður kunnu sannarlega þá list að gera allt úr engu. Hver einasta flík var nýtt til hins ýtrasta, allur viður og sjaldan var nokkru hent. Auðvitað bjuggu þau ekki við þá ofgnótt sem nútíminn býður upp á en þetta var ekki bara af þörf heldur einnig af virðingu fyrir verðmætum. Bryndís Óskarsdóttir, eða Dísa Óskars, er verðugur arftaki þessarar hugsunar. Hún heldur saman Facebook-hópi undir yfirskriftinni Úr geymslu í gersemi, en þar kennir hún ekki bara leiðir til að gefa gömlum hlutum nýtt líf heldur einnig þessa fallegu hugsjón nýtni.

„Frá því að ég man eftir mér hef ég verið að klippa, líma og mála,“ segir Dísa. „Ég lærði svo grafíska hönnun, þar kom heilmikill skapandi grunnur. Þegar við opnuðum gistiheimilið okkar í Skjaldarvík við Eyjafjörð árið 2010 tel ég að þetta hafi byrjað fyrir alvöru, þ.e.a.s. að búa til „allt“ úr „engu“. Við leituðum til vina og ættingja og fengum að kíkja í geymslur og leita í skúmaskotum eftir dóti sem við gætum nýtt til að skreyta heilt gistiheimili með. Við söfnuðum alls konar dóti sem við breyttum svo og notuðum, þetta gekk svona líka ljómandi vel og vakti það mikla lukku að ég hef ekki getað hætt. Nýtnin og sköpunin kom ekki bara fram í hlutum og dóti, heldur líka í matnum, mér finnst alveg óskaplega gaman að elda og bera matinn fram á fallegan og jafnvel svolítið óvenjulegan hátt, þannig að ég fór og lærði matartækni líka. Í kjölfarið á öllu þessu spurði fólk mig mjög mikið að því hvernig ég gerði hitt og þetta og ég fór að deila uppskriftum og kenna ýmsa tækni og þá kviknaði hugmyndin að net-námskeiðunum sem ég er að halda Disaoskars.com.“

Hugmyndauðgi og nýtni skapa hamingju

Hver er hugmyndafræðin að baki því sem þú ert að gera? „Það er mín trú að með því að vera hugmyndaríkur, skapandi og nýtinn gerum við heiminn betri og okkur líður betur.“

Nú er nóvember apð vísu en þú hljómar eins og kona sem skipuleggur sig vel og horfir fram í tímann. Ertu byrjuð á jólaföndrinu?

„Já og nei, ég er alltaf að hugsa og prófa eitthvað nýtt, og það laumast eitt og eitt jóla með,“ segir Dísa glettnislega. „Ég er mikill aðdáandi aðventunnar og aðventudagatala, ég bauð upp á aðventudagatalsnetnámskeið í fyrra sem vakti mikla lukku og fólk gat byrjað að skrá sig á það 1. nóvember og einnig á tvö önnur jólanámskeið, Gómsætar gjafir, þar sem bæði matarnördinn og grafíski hönnuðurinn ég skila mínu og svo eitt örnámskeið í jólagjafainnpökkun. Á öllum þessum námskeiðum sem og öðrum legg ég mikla áherslu á að nýta það sem til er fyrir.“

Ýtarlegra viðtal með fallegum myndum Auðuns Níelssonar er að finna í nýjustu Vikunni. 

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

 

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira