Gróðursetning í Jafnréttishlíð FKA – „Stjórnun er ekkert annað en garðyrkja“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Félagskonur í FKA gróðursettu fjölmargar tegundir trjáa í tilefni af ráðstefnu Jafnvægisvogar FKA. Gróðursett var við rætur Heiðmerkur í „Jafnréttishlíð FKA.“

„Hugmyndin kom upp á fundi hjá okkur þegar okkur var ljóst að það væri ekki hægt að gera hlutina með sama hætti og áður. Viðurkenningarhafar fengu pottaplöntu í fyrra,“ segir Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA.

Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA

Í ár var eitt tré gróðursett fyrir hvern viðurkenningarhafa Jafnvægisvogar, en viðurkenninguna hlutu þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta stjórnendalagi. „Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem hélt stafrænu ráðstefnuna Jafnrétti er ákvörðun nýverið í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar var fjölbreytt og fræðandi dagskrá, viðurkenningarhafar Jafnvægisvogarinnar voru kynntir og tilkynnt um nýja þátttakendur í Jafnvægisvoginni,“ segir Thelma Kristín og minnir á að margt er óunnið er kemur að jafnréttinu og fjölbreytileika en að mikilvægt sé að varpa ljósi á það sem vel er gert.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður FKA, Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA, Hildur Árnadóttir, formaður Jafnvægisvogarráðs og Auður Danielsdóttir fulltrúi í Jafnvægisvogarráði

„Við gróðursettum margs konar trjám sem er táknrænt fyrir þann fjölbreytileika sem við erum að stuðla að með Jafnvægisvog FKA. Eitt tré fyrir hvern viðurkenningarhafa,“ segir Hildur Árnadóttir, formaður Jafnvægisvogarráðs en að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar\TBWA og Morgunblaðið.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður FKA

Jafnréttishlíð á fallegum stað í Heiðmörk

Skógræktarfélag Reykjavíkur úthlutaði Jafnvægisvoginni fallegum stað í Heiðmörk, sem hlotið hefur nafnið Jafnréttishlíð. „Starfsmaður frá Skógræktinni aðstoðaði okkur við val á trjám, samsetningu og útvegaði FKA þennan stórglæsilegan stað í Vífilsstaðahlíð, við rætur Heiðmerkur,“ segir Hildur full þakklætis.

„Já, þessi staður fer jafnréttinu vel,“ bætir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA við. „Góð myndlíking á ferðinni. Mannauðsstjórnun og stjórnun er ekkert annað en garðyrkja. Þú þarft að sá, vökva, næra, snyrta og huga að birtu og samsetningu gróðursins. Það þarf að hreinsa beðin reglulega og arfinn vex mjög hratt ef hann er ekki tekinn upp með rótum. Svo fara sumar plöntur vel saman og aðrar ekki en eru fallegar, allar á sinn einstaka hátt. Nú, einhver gróður nýtur sín betur í sveit en borg, síðan þarf að grisja og jafnvel færa til. Og alltaf þarftu að búa þig og beita þér rétt við garðyrkjustörfin og taka tillit til árstíða, veðra og vinda,“ segir Andrea.

Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA, og Hildur Árnadóttir, formaður Jafnvægisvogarráðs

Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2019 fengu allir viðurkenningarhafar, auk viðurkenninga, pottaplöntuna „Crispy Wave Fern“ að gjöf. Sú planta hefur verið kölluð lofthreinsir, en FKA hefur lengi talað fyrir orkuskiptum og fjölbreytileika í fundarherberginu. Í ljósi aðstæðna var ekki möguleiki á að afhenda plöntur í ár og voru því gróðursett 44 tré í Heiðmörk að þessu sinni. „Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti,“ segir Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA.

Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir Skógræktarfélagi Reykjavíkur

Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA

Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður FKA, Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA, og Hildur Árnadóttir, formaður Jafnvægisvogarráðs FKA

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira