Anna Marsí sendi 500 föngum á dauðadeild símanúmer sitt

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Dagskrárgerðarkonan Anna Marsý sendi eitt sinn 500 föngum á dauðadeild símanúmerið sitt og segir mörgum hafa fundist það ansi bratt en sér finnist þó sjálfri hafa verið mun meiri áhætta fólgin í því að kaupa íbúð með manninum sínum eftir aðeins 10 daga sambúð. Anna Marsý er undir smásjánni að þessu sinni.

 

Fullt nafn:
Anna Marsibil Clausen, jafnan kölluð Anna Marsý.
Aldur:
Ég stend á þrítugu.
Starfsheiti:
Dagskrárgerðarmaður á Rás 1.
Nokkur orð um hvað þú hefur verið að bardúsa fram til þessa:
Ég hef verið á svolitlu flakki síðastliðinn áratug; komið við í Árósum, í stúdentapólitík og á Mogganum. Ég krækti mér í BA-gráðu í bókmenntafræði í Háskóla Íslands og síðan í meistaragráðu í blaðamennsku við UC Berkeley í Kaliforníu en síðasta rúma árið hef ég haldið nokkurn veginn kyrru fyrir á Rás 1. Það frábæra við dagskrárgerð er samt að þar þarf ég raunar aldrei að setja kyrr, svo kannski ég hafi loksins fundið minn stað.

„Einu sinni sendi ég 500 föngum á dauðadeild símanúmerið mitt. Mörgum þótti það ansi bratt.“

Hvað færðu þér í morgunmat?
Maðurinn minn færir mér yfirleitt hafragraut með kanill, rúsínum og rjóma í rúmið ásamt hverjum þeim vítamínum sem honum dettur í hug að ég hafi gott af þann daginn. Mig grunar að hann sé að eitra fyrir mér.
Hvað óttastu mest?
Ég hef allt of mörg svör við þessu sem eru of sorgleg til að segja frá. Ég fæ hins vegar reglulega martraðir þar sem ég gleymi því að ég er grænmetisæta og borða kjöt. Vakna svo með kaldan svita. Svo líklega … það?
Býrðu yfir leyndum hæfileika?
Ég er raunheima tetris-meistari og get fengið hvað sem er til að passa/raðast fullkomlega í geymsluna, handfarangursferðatöskuna, skottið á bílnum o.s.frv. Ég er samt með hræðilegt rýmisskyn en það þarf greinilega ekkert slíkt til, bara bjartsýnina.
Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið?
Einu sinni sendi ég 500 föngum á dauðadeild símanúmerið mitt. Mörgum þótti það ansi bratt. Ég held þó að mun meiri áhætta hafi falist í því að kaupa íbúð með manninum mínum eftir aðeins 10 daga sambúð. Hún hefur borgað sig hingað til en ég bíð auðvitað enn eftir niðurstöðum úr þessu með eitrunina.
Hver væri titillinn á ævisögunni þinni?
Játningar smelludólgs.
Hver myndi leika þig í bíómyndinni?
Þetta yrði óhjákvæmilega teiknimynd. Þótt ég vildi að það væri Natasha Lyonne, yrði það líklega Gilbert Gottfried sem myndi ljá mér rödd sína.
Hvaða þættir eru í uppáhaldi hjá þér þessa stundina?
Ég hef verið að hlusta á gamla Radiolab-þætti og reyni að missa ekki af The Daily. Svo hlakka ég óneitanlega til að rifja upp árið með Heimskviðum í sumar.
Hvað geturðu sjaldnast staðist?
Kattamyndbönd. Þau þurfa ekki einu sinni að vera fyndin.
Hvaða smáforrit er ómissandi?
Spotify – sem er kannski ákveðið áhyggjuefni.
Instagram eða Snapchat?
Ég er alla vega ekki með Snapchat.
Hvaða tjámerki (emoji) notarðu oftast?
Fyrir utan hin ýmsu hjörtu og ástarkalla er slefkallinn í uppáhaldi.

Greinin birtist í 27. tbl. Vikunnar 2020.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira