„Hægur taktur er oft betri hraður“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hefur þig einhvern tíma langað að endurhanna líf þitt frá grunni? Ef svo er gæti saga Þorbjargar Friðriksdóttur fært þér heim sanninn um að það er hægt og meira segja auðveldara en margan grunar. Þorbjörg, eða Tobba, er meðal þeirra kvenna sem stundum hafa verið kallaðar ofurkonur. Hún hefur ævinlega vitað nokkuð vel hvað hún vill og stefnt ótrauð að því marki allt þar til slys neyddi hana til að skoða hlutina frá öðru sjónarhorni.

Tobba býr í Hveragerði og rekur gistiheimilið Reykjadal en áður bjó hún á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig stóð á því að hún flutti þaðan?

 

„Ég datt af hestbaki, fékk hálsmeiðsli og það blæddi inn á heilann og það var svona alls konar vitleysa,“ segir hún. „Ég fór í kjölfarið að hugsa um að fá annað líf, rólegra sem ég réði betur við. Þetta var niðurstaðan. Ég var svo í sjúkraþjálfun á Heilsustofnun NFLÍ alveg fram að COVID-19. Eftir fallið lá ég á Landspítalans í Fossvogi í hálfan mánuð. Eftir að hafa verið heima í nokkurn tíma tók við endurhæfing á Grensásdeild. Ég fann eftir það að tími var kominn til að slaka aðeins á þótt ég hefði kannski kosið að stjórna því meira sjálf hvenær kæmi að því.“

„Ég datt af hestbaki, fékk hálsmeiðsli og það blæddi inn á heilann og það var svona alls konar vitleysa.“

Fram að þeim tíma hafði Tobba unnið mikið. Hún er fædd og uppalin í Glæsibæ í Skagafirði og gekk í bústörfin með foreldrum sínum og systkinum. Hún er mjög hrifin af dýrum og naut þess að stússast í kringum þau og kannski ekkert undarlegt að hún hafi valið að giftast manni sem var sama sinnis. Þau fluttu út til Þýskalands meðan Björn stundaði doktorsnám í dýralækningum. Með þeim fóru börnin þeirra þrjú en úti fæddist sá yngsti, Ernir Snær. Eftir að heim kom taldi Tobba að tími væri kominn til að hún lærði eitthvað líka og hóf nám í ferðamálafræði. Síðar lauk hún einnig prófi í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands. Að vissu leyti má segja að þar hafi hún fundið fjölina sína. „Ég hef alltaf haft gaman af að því að taka á móti fólki, hitta fólk og kynnast því,“ segir hún. „Mér fannst alltaf mjög gaman í vinnunni og fann sjaldnast fyrir því að ég væri að vinna.“

Galdrakarl nuddar, stingur og hnykkir

Eftir námið vann hún við viðburðastjórnun, skipulagningu hvataferða, ráðstefna og fleira. Allt mjög krefjandi störf. Hún skildi við mann sinn og við tóku flutningar og allt það álag sem fylgir því að byggja upp sjálfstætt líf eftir skilnað. Um tíma glímdi hún við kulnun en náði sér vel á strik aftur. En slysið var ekki eina ástæða þess að Tobba flutti. Hún bjó í Mosfellsbæ og heldur enn vissri tryggð við þann stað. Hún getur hins vegar ekki búið þar. Þegar hún hóf sambúð með öðrum manni eftir skilnaðinn reyndist sá úlfur í sauðargæru og eftir erfið sambandsslit gekk honum illa að sætta sig við orðinn hlut. Tobba vill sem minnst um það tala. Finnst meira gaman að tala um hversu vel gengur að ná heilsu aftur.

„Ég hef notið þess að geta verið í endurhæfingu á Heilsustofnun en þar verður ekki opnað aftur fyrir utanaðkomandi skjólstæðinga fyrr en í ágúst,“ segir hún. „En ég fann í millitíðinni voðalega góðan karl í Reykjavík. Hann heitir Örn Jónsson. Hann nuddar mig, stingur mig og hnykkir mig, algjör galdrakarl. Konan hans, Hófý, er ekki síðri, algjört gull.“

„Ég setti saman ritgerð og hannaði líf þar sem ég bjó í Hveragerði og rak lítið gistiheimili og hafði búið mér fallegt heimili þar sem ég gæti tekið á móti börnunum mínum hvenær sem væri.“

Hvernig finnst þér að vera komin út í eigin rekstur eftir að hafa unnið mest fyrir aðra? „Þetta er náttúrlega gamall draumur. Ég hafði alltaf hugsað mér að reka gistiheimili og nú vona ég bara að þetta taki að keyrast í gang aftur og þá verður bara gaman. Þjóðverjar, Frakkar, Hollendingar og Bandaríkjamenn hafa verið stærsti kúnnahópurinn minn. Að undanförnu hef ég verið að skoða að laða meira að Íslendinga en til þess þarf að breyta aðstöðunni lítillega. Ég ákvað að byggja svolítið við húsið og fékk styrk til þess frá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga. Mér fannst það ákveðinn heiður að fá hann en ég hef aldrei sótt um styrk áður. Ég ætla að byggja góðan sólskála fyrir aftan húsið þar sem fólk getur komið saman og setið í notalegheitum og spjallað saman. Ég er líka búin að koma fyrir borði, stólum og bekkjum fyrir utan og ætla að setja upp grill.“

Sækjast eftir náttúruperlum, mat og afþreyingu

Eftir hverju er fólk að sækjast þegar það kemur hingað? „Helst sækir það í náttúrulaugarnar í Reykjadal og aðrar gönguleiðir. Ýmsir koma einnig hingað til að kaupa blóm. Þegar útlendingar koma vita þeir að þetta mjög miðsvæðis með tilliti til margra náttúruperla á borð við Þingvelli, Gullfoss, Geysi og ströndina við Eyrarbakka og Stokkseyri. Margir eru einnig að leita að ævintýrum eins og hellaskoðun, kajakferðum og fleira. Ég vona að Íslendingar leiti ekki síður eftir þess konar ferðum í sumar. Ég verð líka vör við að hingað kemur fólk til að hittast. Meðal annars á ég von á næstunni á konum sem eru að fara að gæsa eina úr hópnum. Þetta er mjög sniðugur staður fyrir svoleiðis samkomur. Við getum líka boðið upp á byrjendanámskeið í golfi, mat og frekari afþreyingu. Hingað sækir fólk líka vegna matsölustaðanna. Matkráin er mjög eftirsótt. Jómfrúin var alltaf mitt annað heimili í Reykjavík og svo bara flytur hún með mér í Hveragerði,“ segir Tobba og hlær en þar vísar hún til þess að Jakob Jakobsson og Guðmundur Guðjónsson reka Matkránna en voru áður veitingamenn á Jómfrúnni. Þeir voru einnig í leit að rólegra lífi og minna áreiti rétt eins og hún.

„Hingað sækir fólk líka vegna matsölustaðanna. Matkráin er mjög eftirsótt. Jómfrúin var alltaf mitt annað heimili í Reykjavík og svo bara flytur hún með mér í Hveragerði.“

Á borðinu liggur bókin, Designing Your Life; How to Build a Well Lived, Joyful Life eftir þá Bill Burnett og Dave Evans. Henni kynntist Tobba á námskeiði hjá Ragnhildi Vigfúsdóttur markþjálfa. Þar fann hún lykilinn að þessari endurnýjun.

„Ég fór á hópnámskeið, var með mjög skemmtilegu fólki, einum karlmanni og mörgum konum. Við vorum að hanna líf okkar undir leiðsögn Ragnhildar. Maður þurfti að opna á hvernig maður vildi lifa lífinu og hvernig maður sæi fyrir sér næstu skref. Það breyttist svo margt hjá mér eftir slysið og ég er ekki alveg jafnvirk og áður. Ég er úthaldsminni og þjáist af svima nokkuð oft. Ég ætlaði þess vegna að hanna mér rólegra líf. Ég hef alltaf verið hrifin af Hveragerði og gat alveg séð fyrir mér að búa hér. Ég setti saman ritgerð og hannaði líf þar sem ég bjó í Hveragerði og rak lítið gistiheimili og hafði búið mér fallegt heimili þar sem ég gæti tekið á móti börnunum mínum hvenær sem er. Ég ætlaði líka að fá mér kött og komast inn í þetta smábæjarlíf.

Nú hefur þetta bara gengið eftir og kötturinn minn heitir Blíðfinnur. Ég er líka voðalega glöð að sjá hversu gaman krökkunum mínum finnst að koma hingað til mín. RagnheiðurErla, dóttir mín, dvaldi hjá mér meðan á faraldrinum stóð og samdi tónlist. Nú er hún farin aftur út til Austurríkis en næstyngsti sonur minn, Steinbjörn, var að vinna á hóteli í Sviss. Veiran rak hann líka heim og hann er núna að vinna á Matkránni. Barnabarnið mitt, Stefán Frosti, sonur Friðriks elsta sonar míns, kemur líka oft og kann mjög vel við sig í ömmuhúsi. Þetta er yndislegt. Ég fann taktinn. Hann þarf ekki að vera verri þótt hann sé hægari. Hægur taktur er oft betri en hraður,“ segir hún að lokum og hlær og það er ekki hægt annað en að vera sammála þessu.
Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun
Myndir / Hallur Karlsson

- Auglýsing -

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Alma og Joey Christ og eiga von á barni

Parið Alma Gytha Huntingdon-Williams, jarðfræðingur, og Jóhann Kristófer Stefánsson, útvarpsmaður og rappari, eiga von á barni.Jóhann, sem...